Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:18:03 (540)

1999-10-14 12:18:03# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), KolH
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Mig langar að gera örlítið að umtalsefni umhverfisendurskoðun. Ég fagna því að umhverfisendurskoðun skuli vera komin inn sem sérkafli í skýrslu þá sem hér er til umfjöllunar, þ.e. starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég fagna því að til starfa skuli vera komnir við embætti ríkisendurskoðanda tveir starfsmenn sem sinna þessum þætti, eftirliti með því hvernig stjórnvöld standa sig í umhverfismálum. Ég tel hér vera stigið mikið framfaraskref, skref í átt að grænum þjóðhagsreikningum þar sem gengið er út frá því að umhverfisvernd og hagvöxtur eigi samleið.

Það er gott til þess að vita að framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun skuli ekki alltaf vera lítið annað en orðin tóm, en um leið vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að hafa það plagg oftar við höndina og skoða afstöðu sína til hinna ýmsu mála með hliðsjón af þeirri stefnu sem þar er lýst og er að mörgu leyti til fyrirmyndar.

Að mínu mati stendur umhverfisvernd ekki í vegi fyrir efnahagslegri afkomu þjóðarbúsins og sú ákvörðun að hefja umhverfisendurskoðun til vegs á þann hátt sem gert er nú hjá Ríkisendurskoðun vekur með okkur vonir um að sjónarmið umhverfisverndar nái fótfestu í samfélaginu. Að mínu mati stendur það upp á hv. alþingismenn hvort heldur ráðherra eða óbreytta þingmenn að standa síðan vörð um þau sjónarmið. Stjórnvöld geta að sjálfsögðu sýnt fram á grænan hagvöxt án þess að slakað verði á kröfunni um hagkvæmni og í því sambandi langar mig, virðulegi forseti, að benda á að víða á Norðurlöndunum eru þessi mál í góðum gír þar sem Norðmenn munu vera komnir svo langt að þeir birta svokallaða græna bók með norska fjárlagafrv. til að draga saman hver stefnan í umhverfismálum er hjá norskum stjórnvöldum.

Mig langar, virðulegi forseti, að hreyfa þeirri hugmynd að slíkt hið sama verði gert á hinu háa Alþingi, þ.e. með fjárlögunum okkar verði lögð fram græn bók sem fyrir fram vísar til þeirra þátta sem verið er að vinna í umhverfismálum og hvernig umhverfismálunum er sinnt í stefnu stjórnvalda sem fram kemur í fjárlagafrv. Ég tel að það skref sem stigið hefur verið sé skref í þá átt að umhverfismálin fái þann sess í meðferð stjórnmálanna sem þeim ber og legg sem sé til að enn verði aukið við og grænni bók verði bætt við fjárlagafrv.