Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:21:35 (541)

1999-10-14 12:21:35# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:21]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar er vakin athygli á því að á síðustu þremur áratugum hafi umhverfismál verið ofarlega á baugi í alþjóðastjórnmálum án þess að þess hafi sést nægilega mikil merki hér á landi. Þess er getið að til dagsins í dag hafi verið undirritaðir um 220 alþjóðlegir umhverfissamningar, flestir á undanförnum 25 árum en Ísland mun eiga aðild að 20 af þeim samningum.

Þess er einnig getið að auk lagalega bindandi samninga eigi íslensk stjórnvöld aðild að ýmsum viljayfirlýsingum, áætlunum og stefnumörkunum sem unnar eru á alþjóðlegum vettvangi án þess að vera skuldbindandi í skilningi þjóðarréttar og er Ríó-yfirlýsingin þar nefnd og Dagskrá 21.

Einnig er getið um það að á síðari árum hafi svokölluð umhverfisendurskoðun verið í þróun innan alþjóðasamtaka ríkisendurskoðenda og henni ætlað það hlutverk að kanna hvernig alþjóðlegum samningum, áætlunum, lögum og reglum á sviði umhverfismála er framfylgt af hálfu stjórnvalda og hvort slíkt sé gert á hagkvæman og skilvirkan hátt.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur er það mjög virðingarvert skref sem stigið hefur verið af hálfu Ríkisendurskoðunar. Þar hafa verið ráðnir tveir starfsmenn og ég vil taka undir þá tillögu hv. þm. að því starfi verði vel fylgt eftir og tekið verði til athugunar hvort ekki sé ráðlegt að láta græna bók fylgja fjárlagafrv. til umræðu og til eftirfylgni. Undir tillögu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vil ég taka.

Ég vil gera annað að umræðuefni í fáum orðum. Það er það sjónarmið að embætti Ríkisendurskoðunar verði sem sjálfstæðast. Ég er sammála hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að mér finnst óeðlilegt að ríkisendurskoðandi eigi sæti í nefndum, að ekki sé minnst á umdeildar nefndir eða þar sem tekið er á umdeildum málum, sem starfa á vegum framkvæmdarvaldsins. Þar hefur verið vísað í starfsnefnd sem vinnur að undirbúningi á sölu Landssímans. Mér finnst það mjög óeðlilegt að ríkisendurskoðandi eigi sæti í þeirri nefnd. Það er eðlilegt að leitað sé álits hans um vissa þætti en ég mótmæli þeim sjónarmiðum sem komu frá hæstv. samgrh. fyrr við umræðuna, að vegna þess að ríkisendurskoðandi endurskoðar reikninga Landssímans, þá sé eðlilegt að hann komi að þeirri vinnu. Ég tel að einmitt vegna þess að hann endurskoðar umrædda reikninga, þá beri honum að halda sjálfstæði sínu gagnvart þeirri vinnu. Þetta er almenn afstaða.

Ég vil vísa á aðra nefnd og ekki síður umdeilda sem ríkisendurskoðandi á aðild að að því er ég best veit og það er nefnd sem starfar á vegum heilbrrn. um samninga ríkisins við Íslenska erfðagreiningu um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þar kemur ríkisendurskoðandi einnig að máli og þetta er í hæsta máta óeðlilegt. Ég tel að við þurfum að fá skýringar á þessu, bæði hjá hæstv. forseta, heyra sjónarmið hans þar sem stofnunin heyrir undir þingið og einnig finnst mér að við þyrftum að fá upplýsingar frá hæstv. heilbrrh. um hvernig málum er háttað. En ég vil taka undir þá gagnrýni almennt að óeðlilegt er að ríkisendurskoðandi eigi aðild að þessum nefndum.

Þetta segi ég líka vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að þetta embætti njóti virðingar og trausts, hafi tiltrú, og forsenda þess er að því sé haldið sjálfstæðu.

Að öðru leyti vil ég lýsa ánægju minni með störf Ríkisendurskoðunar og ríkisendurskoðanda. Ég tel að þar sé almennt mjög vel að málum staðið en þessa gagnrýni vildi ég setja fram.