Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:27:46 (542)

1999-10-14 12:27:46# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), LB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:27]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir í umræðunni þakka Ríkisendurskoðun fyrir það starf sem sú stofnun hefur unnið á sl. ári og umrædd skýrsla sem við ræðum ber vitni um. Ég held að í flestum tilvikum hafi Ríkisendurskoðun unnið vel að málum og skilað skýrslum hingað til Alþingis og endurskoðun í samræmi við það sem henni ber.

Virðulegi forseti. Ég er kominn hingað upp fyrst og fremst til að vekja eftirtekt á því að fyrir nokkrum árum var Ríkisendurskoðun færð undir Alþingi frá fjmrn. Það var gert í því skyni að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar, enn fremur að tryggja að Alþingi gæti betur sinnt sínu hlutverki að því er varðar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þetta var sú hugsun sem bjó að baki því að Ríkisendurskoðun var færð sem stofnun undir Alþingi frá fjmrn. á sínum tíma.

Sú hugsun er í samræmi við þá skipan sem við búum við í samræmi við í 2. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að ríkisvaldinu skuli skipt í þrennt, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald og hver þáttur um sig skuli hafa eftirlit með hinum. Þess vegna verð ég að segja það, virðulegi forseti, að það olli mér miklum vonbrigðum þegar ríkisendurskoðandi ákvað að taka sæti í umræddri pólitískri ráðgjafarnefnd hæstv. samgrh. því að vitaskuld mun nefndin ekki skila niðurstöðu sem er andstæð viðhorfum hæstv. samgrh. En með því að taka sæti í þeirri nefnd má segja sem svo að ríkisendurskoðanda sjálfan hafi sett mjög niður. Hann er á vissan hátt orðinn dálítill léttadrengur hjá íhaldinu. Ég held að ekki sé hægt að túlka það öðruvísi þegar hann sest í nefnd af þessum toga. Sú nefndarstofnun á rót sína að rekja til þess að Samkeppnisstofnun komst að þeirri niðurstöðu að verðmætamat á Landssímanum þegar honum var breytt í hlutafélag hafi verið allt of lágt og í því hafi falist ákveðin meðgjöf ríkisins með fyrirtækinu sem að hluta til starfar á samkeppnismarkaði en hefur einokun að hluta til í starfsemi sinni.

[12:30]

Ég vil taka undir, virðulegi forseti, að það er slæmt að ríkisendurskoðandi hefur tekið þarna sæti. Við hv. þm. stöndum frammi fyrir því þegar þetta mál kemur til umræðu og afgreiðslu á þinginu eins og ríkisstjórnin hefur boðað, að hlutabréf í Landssímanum verði seld, þá er fyrirséð að við getum ekki leitað til ríkisendurskoðanda. Hann hefur nú þegar gert sig vanhæfan í þessu máli. Það er mjög miður.

Vegna þess að farið er að ræða þetta sérstaklega og við höfum hér í salnum bæði fyrrv. hæstv. samgrh., núv. forseta Alþingis, og núv. samgrh., má benda á að hlutskipti þeirra í viðræðum við Samkeppnisstofnun hefur verið mjög sérstætt. Þeir hafa þar fyrst og fremst verið ráðherrar Landssímans en ekki hins almenna neytanda. Stofnunin sem ég hef aðallega talað um hér á rót sína að rekja til þessara viðhorfa sem hafa verið mjög ríkjandi í samgrn. núna a.m.k. um 8--9 ára skeið og vakið mikla undrun og eftirtekt í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það eru mér mikil vonbrigði að ríkisendurskoðandi skuli hafa tekið sæti í þessari nefnd og á vissan hátt orðið vanhæfur, tekið sér hlutverk léttadrengs hjá samgrh. í þessu máli. Ég harma það mjög. Það er alveg ljóst að þegar þetta mál kemur til umræðu þá getum við ekki leitað til ríkisendurskoðanda, ekki frekar en þegar hér voru til umræðu málefni Stofnfisks. Þá barst líklega frægasta skýrsla sem frá ríkisendurskoðanda hefur komið, ritskoðuð og yfirstrikuð eins og menn muna, a.m.k. þeir sem hér sátu.

Ég vil nú þegar segja að hver svo sem sem niðurstaða nefndarinnar verður þá er þetta pólitísk ráðgjafarnefnd samgrh. og niðurstaðan mun sjálfsagt endurspegla viðhorf samgrh. í þessu máli. Virðulegi forseti, ríkisendurskoðandi hefur því, eins og ég sagði fyrr, gert sig vanhæfan í frekari umræðu um þetta mál.