Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:33:14 (543)

1999-10-14 12:33:14# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:33]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Tvennt vekur athygli í ræðu hv. þm. Annars vegar kemur fram hið ódauðlega hatur hans á Landssímanum og því fólki sem þar vinnur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Alþfl. lýsir þvílíkum tilfinningum til þessa stærsta fyrirtækis Íslands. Ég þekki af reynslu að þar er margt ágætt fólk, trútt sinni stofnun sem hefur hvað eftir annað haft á orði við mig að undarlegt sé að það skuli þykja áfellisdómur yfir samgrh. í sölum Alþingis að hann hugsi til fólksins á þessum vinnustað.

Í öðru lagi vil ég segja að ég var einn þeirra þingmanna --- þó að það hafi ekki komið fram hér í sölum Alþingis, einungis á fundum í þingflokki Sjálfstfl. --- sem dró í efa að rétt væri að fela Ríkisendurskoðun að endurskoða hlutafélög í eigu ríkisins, hafa þar daglega endurskoðun með höndum vegna þess að það mundi kalla á tortryggni í garð Ríkisendurskoðunar þegar einhver álitamál eða dægurmál kæmu upp í pólitíkinni. Það hefur núna gerst að vegna þess ákvæðis þá hefur hv. þm., af öðrum ástæðum en embættisfærslu ríkisendurskoðanda, reynt að gera hann tortryggilegan.

Auðvitað hljóta þeir sem hafa daglega endurskoðun og faglega með höndum að vera forstjóra, svo ég tali nú ekki um eiganda, til leiðbeiningar og ráðuneytis þegar álitamál koma upp. Þess vegna var óhjákvæmilegt að kalla til ríkisendurskoðanda þegar samgrh. þurfti að ganga úr skugga um hvort rétt hafi verið staðið að stofnun efnahagsreikningsins.