Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:35:28 (544)

1999-10-14 12:35:28# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:35]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú vekja sérstaklega athygli á að hæstv. forseti Alþingis flutti þessa sérstæðu ræðu hér á hinu háa Alþingi. Hann byrjaði á því að orða hlutina á þann veg að sá þingmaður sem hér stendur og væntanlega Alþfl. í heild sinni, ef ég skildi hann rétt, hefði ódauðlegt hatur á Landssímanum. (Samgrh.: Samfylkingin.) Já eða Samfylkingin, eins og hæstv. samgrh. núv. grípur fram í.

Virðulegi forseti. Þetta er reyndar alveg dæmigert fyrir umræðu Sjálfstfl. um þetta mál. Hann skal ætíð persónugera öll viðhorf á þennan hátt. Það sem við höfum fyrst og fremst gagnrýnt er brölt Landssímans á markaðnum sem hefur gert það að verkum að stofnunin hefur staðið í vegi fyrir því að eðlileg samkeppni fái að þróast. Við höfum séð það í verðskrá, sérstaklega í GSM-þjónustu, að verðlag hefur lækkað þar sem samkeppni hefur verið en hvergi annars staðar. Við höfum staðið fyrir þessari umræðu.

Virðulegi forseti. Það er langur vegur frá því að ég eða aðrir í Samfylkingunni eða Alþfl. hafi eitthvert hatur á starfsfólki Landssímans. Satt best að segja, virðulegi forseti, er forseta Alþingis ekki sæmandi að taka þannig til orða. Það er bara langt frá því að vera forseta Alþingis sæmandi.

Virðulegi forseti. Seta ríkisendurskoðanda í þessari nefnd er vitaskuld algjörlega fráleit. Það þarf enginn að segja þeim sem hér stendur eða öðrum að ekki hafi mátt finna aðra Íslendinga með líka þekkingu og menntun og ríkisendurskoðandi sem hefðu getað tekið þátt í að meta þetta fyrirtæki. Það mátti hins vegar skilja forseta Alþingis svo --- reyndar skildi ég ekki nema brot af því sem hann sagði --- að ekki væri hægt að finna aðra menn til þessa starfa en ríkisendurskoðanda.