Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:53:54 (551)

1999-10-14 12:53:54# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:53]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðara atriðið um miðlægan gagnagrunn, þá er ég því máli ókunnugur og treysti mér ekki til að tala um það nánar. Ég hef á hinn bóginn verið þeirrar skoðunar, eins og ég sagði áðan, að ég tel hæpið að Ríkisendurskoðun eigi að vera daglegur endurskoðandi hlutafélaga sem eru að öllu í eigu ríkisins. Ég hef rökstutt það með því að það kunni að kalla á gagnrýni á ríkisendurskoðanda, nafn hans og stofnun hans dragist inn í umræður um dægurmál og þess vegna hef ég talið það hæpið.

Ég hef á hinn bóginn gert mér grein fyrir að ég hef verið í algerum minni hluta á hinu háa Alþingi um þessar skoðanir mínar og hef litið á þær sem mínar sérskoðanir.

Ég hlýt á hinn bóginn að undirstrika það sem ég sagði áðan að ef við felum ríkisendurskoðanda að hafa daglega endurskoðun á hendi og bera ábyrgð á henni í Landssímanum fylgir því jafnframt sú skylda hans að vera eiganda Landssímans, sem í þessu tilviki er samgrh., til ráðuneytis um þau álitamál sem upp koma varðandi efnahagsreikning og rekstrarreikning Landssímans og um það hvort rétt hafi verið staðið, m.a. í öndverðu um stofn efnahagsreiknings. Ég tel því að óhjákvæmilegt hafi verið fyrir ríkisendurskoðanda að koma að því verki. Það hafi verið skylda hans sem daglegs endurskoðanda, en eins og fram hefur komið hér í þinginu eru skoðanir skiptar um þetta atriði og þótt skrýtið sé fer það kannski eftir því hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu hvaða skoðanir þeir hafa.