Vitamál

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:58:29 (554)

1999-10-14 12:58:29# 125. lþ. 9.5 fundur 57. mál: #A vitamál# (heildarlög) frv. 132/1999, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um vitamál. Frv. er samið í samgrn. og Siglingastofnun Íslands og er ætlað að leysa af hólmi lög um vitamál, nr. 56/1981, með síðari breytingum.

Tilgangur frv. er að breyta lagagrunni fyrir vitagjald sem ætlað er að standa straum af stofn- og rekstrarkostnaði Siglingastofnunar á leiðsögukerfinu fyrir skip sem felst í ljósvitum, siglingamerkjum á sjó og landi, DGPS-leiðréttingarkerfi, radarsvörum og upplýsingakerfi um veður og sjólag. Lagt er til að lagagrunnur verði styrktur á þann veg að hann uppfylli skilyrði skattlagningarheimilda. Við þetta verður fjárhæð gjaldsins tilgreind í lögunum sjálfum.

Rekstur og eignarhald vitakerfisins er tvískipt. Landsvitar eru til leiðbeiningar á almennum siglingaleiðum en hafnarvitar vísa leið inn á hafnasvæðin og inn í hafnirnar. Landsvitar eru í eigu og umsjón ríkisins en hafnarvitar í eigu og umsjón sveitarfélaganna. Siglingastofnun fer með framkvæmd vitamála á Íslandi, þ.e. annast uppbyggingu og rekstur landsvitakerfisins og hefur umsjón og eftirlit með uppbyggingu og rekstri hafnarvita og innsiglingarmerkja.

Innheimt vitagjald árið 1998 nam 72 millj. kr., þar af 13 millj. kr. af íslenskum skipum en 59 millj. af erlendum skipum. Sama ár nam stofnkostnaður og kostnaður við rekstur öryggiskerfis fyrir sjófarendur hjá Siglingastofnun Íslands um 108,8 millj. kr.

Ástæða þess hve stór hluti af vitagjaldinu er greiddur af erlendum skipum er að nánast öll kaupskip sem koma til landsins í eigu íslenskra eða erlendra kaupskipaútgerða eru á erlendum skipaskrám. Vöruflutningaskip og skemmtiferðaskip eru nær undantekningarlaust stærri en fiskiskip mælt í brúttótonnum og greiða því hærra vitagjald. Auk þess eru skip minni en 10 brúttótonn undanþegin vitagjaldi samkvæmt gildandi reglum.

Með frv. þessu er miðað við að tekjur af vitagjaldi árið 2000 verði 90 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður Siglingastofnunar Íslands á leiðsögukerfinu árið 1999 er 95 millj.

Helstu breytingar sem frv. hefur í för með sér eru að lagt er til að vitagjald verði 64,70 kr. á hvert brúttótonn skips en gjaldið er nú 60,70 kr. og er lagt til að gjaldið hækki um 6,5% frá því sem nú er. Jafnframt er lagt til að vitagjald verði greitt af öllum skipum og lágmarksvitagjald verði 5.000 kr. Samkvæmt gildandi lögum er vitagjald greitt af skipum sem eru stærri en 10 brúttótonn. Við þessa breytingu munu 1.600 bátar sem áður voru undanþegnir gjaldinu greiða vitagjald.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.