Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 13:38:14 (555)

1999-10-14 13:38:14# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), Flm. GÖ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[13:38]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Alþjóð fylgdist með umræðum í sjónvarpi og blöðum um síðustu helgi er hér á Íslandi fór fram ráðstefna um konur og lýðræði. Ætla má að ráðstefnan kveiki umræðu um stöðu kvenna innan lands sem utan. Þar var ekki aðeins rætt um konur í fjármálaheiminum, vald kvenna o.s.frv. heldur vaknaði einnig umræða sem lýtur að dökkum hliðum í lífi kvenna.

Verslun með manneskjur kom þar til umfjölluanr. Forseti Lettlands sagði frá þessari skuggahlið í heimalandi sínu og aðrar konur á ráðstefnunni höfðu einnig áhyggjur af þessu alvarlega vandamáli. Á meðan á ráðstefnunni stóð fóru 30 íslenskar konur á þá staði sem hér bjóða upp á nektardans og einkadans og mótmæltu þeirri starfsemi sem þar fór fram. Fyrir þetta framtak eiga þær heiður skilið. En hvað skyldi fara fram á þeim stöðum sem þessar konur og hundruð annarra kvenna hafa mótmælt? Nú skal því hér lýst:

Viðskiptavinurinn byrjar á því að greiða aðgangseyri sem er um 1.000 kr., vínið er dýrara en annars staðar og þarna sveima á milli 20 og 30 stúlkur á meðan ein sýnir dans. Hverjum og einum sem þarna kemur inn er boðið upp á einkadans og eru til þess gerðir smáklefar sem stúlkurnar fara með karlmennina í og verðskráin er eftirfarandi: Fyrir þrjár mínútur 3.000 kr., fyrir sex mínútur 6.000 kr. fyrir 30 mínútur 25 þúsund kr. Verðskráin hangir frammi --- engin leyndarmál þar. Mér skilst líka að þar hangi spjald sem á stendur: Bannað að snerta. Um vernd handa þessum stúlkum er ekki vitað.

Að sjálfsögðu er hér ekki um neitt annað að ræða en útstillingu á vöru með mátunarklefum. Samkeppnin um kúnnann er algjör. Það væri fróðlegt að láta skoða hvernig tryggingum og heilbrigðisþjónustu við þessar stúlkur er háttað, hvað þær fá í eigin vasa og hvernig tekjur þessara staða eru færðar á skattframtali og hvernig launaseðlar stúlknanna líta út.

En hverjar eru þessar stúlkur? Þær koma frá Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og Kanada en stúlkur frá fyrrum austantjaldsríkjum bera þessa staði uppi. Flestar þessara stúlkna koma úr mikilli fátækt og eymd og ýmsar ástæður eru fyrir því að þær grípa til þessa ráðs. Það gæti t.d. verið draumurinn um betra líf á vestræna vísu og ónóg tækifæri í heimalandi sínu eða hrein og klár fátækt, viljinn til sjá fjölskyldunni farborða í fjarlægu landi og leggja sitt af mörkum. Jafnframt getur verið um vímuefnaneyslu að ræða og þá er þetta ein leiðin til að fjármagna hana.

Klám og vændi er að sjálfsögðu angi af fíkniefnaheiminum, það er enginn nýr sannleikur. Auk þess er þekkt í Evrópulöndum að stúlkum er hreinlega rænt og þær dópaðar til þess að láta starfa við vændi. Ég minni á fréttir frá Svíþjóð í blöðum nýverið þar sem í ljós kom að stúlkum frá fyrrum austantjaldslöndum var haldið þar nauðugum til að þjóna kynlífsfíkn. Slíkt er að sjálfsögðu nútímaþrælahald.

Við tölum um að ráðast að þeim sem versla með vímuefni. Þó er líklega margt ljótara á ferðinni, þ.e. verslun með manneskjur en sem betur fer höfum við ekki heyrt af neinu viðlíka hér enn þá.

En við skulum halda vöku okkar. Þarna er verið að nýta sér fátækt og örbirgð stelpnanna. Það grátbroslega hefur nú gerst að kúnni hefur kært þjónustuna á dansstöðum --- hún var kannski ekki nógu mikil. Ég var að velta því fyrir mér hvort þetta væri mál fyrir Samkeppnisstofnun. Íslenskar stúlkur fá ekki vinnu á þessum stöðum, slík er tryggðin við íslenska viðskiptavini, hún er algjör. Vettvangur íslenskra kvenna til að þjóna meintri kynlífsþrá landsmanna virðist fyrst og fremst við svokallaðar símalínur sem auglýstar eru í DV en umræða um það hefur farið fram á hinu háa Alþingi.

Það má velta því alvarlega fyrir sér hvort leggja á fram frv. um bann við kaupum á kynferðislegri þjónustu og varpa þar með ábyrgðinni frá þessum ungu stúlkum yfir á þá sem leita eftir þjónustunni. Það hefur verið reynt erlendis og væri kannski rétt að skoða þá reynslu. Í fjölmiðlum var nýverið sagt frá því hvernig barnaníðingar nota netið til þess að koma sér í kynni við börn til þess að geta nýtt sér þau í kynferðislegum tilgangi. Auðvitað fer hrollur um fólk þegar sagt er frá þessum ógeðfelldu auglýsingum. En ein er svona, með leyfi forseta:

,,23ja ára ungur maður óskar að komast í kynni við börn 7--12 ára.``

Og önnur auglýsing er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Barnungur maður óskar eftir ungum vinum sem vilja kynnast unaðssemdum ástarlífsins.`` Að sjálfsögðu er trúnaði heitið. Svona heldur viðbjóðurinn áfram og jafnframt talað um að spjallrásir á netinu séu kjörinn vettvangur fyrir barnaníðinga til að komast í tengsl við krakka.

Öllum tiltækum ráðum þarf að beita til að uppræta þessa glæpi og koma höndum yfir níðingana. Allt er þetta angi af sama meiði. Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu með kostum þess og göllum. Því er mikilvægt að við beitum okkur í öllum þessum málum og umræðan er á fljúgandi ferð bæði á Norðurlöndum og í Evrópu. Kirkjuþing hefur síðast rætt þessi mál og ég veit að um þetta mál er pólitísk samstaða.

Að þessu framansögðu hef ég nokkrar spurningar til dómsmrh.:

Hvað líður þeirri vinnu nefndar sem átti að skoða svokallaða starfsemi á klámbúllum í Reykjavík. Í nefndinni eiga sæti fulltrúi frá dómsmrh., samgrh., félmrh. og fulltrúi frá Reykjavíkurborg? Er fyrirhuguð úttekt eða rannsókn á vændi hér á landi? Er fyrirhugað eitthvert samstarf meðal Norðurlandanna á þessum vettvangi? Mun dómsmrh. beita sér fyrir rannsókn vegna þeirra barnaníðinga sem hafa komið fram á sjónarsvið í fréttum í tengslum við umræddar vefsíður? Hefur ráðuneyti dómsmála fyrirhugað samstarf við þá sem hafa látið þessi mál til sín taka að undanförnu?