Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 13:52:07 (558)

1999-10-14 13:52:07# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan nota þetta tækifæri til að greina frá því hvað við í félmrn. höfum aðhafst í þessu efni. Þann 20. nóvember 1996 fór ráðuneytið þess á leit við Jafnréttisráð að það gæfi álit sitt á því hvort að nektardans væri brot á jafnréttislögum. Jafnréttisráð komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki en benti á að auglýsingar mega ekki vera öðru kyninu til minnkunar og jafnframt brýnt að tryggt sé að einstaklingar sem sýna nektardans njóti almennra félagslegra og vinnumarkaðstengdra réttinda.

Við sendum bréf til Útlendingaeftirlitsins þann 16. apríl 1997 þar sem ráðuneytið gerði grein fyrir því að það telji eðlilega verklagsreglu að útlendingar sem hyggist vinna hérlendis og sæki um dvalarleyfi með vísan til ákvæða 14. gr. verði látnir sýna fram á að þeir uppfylli lögmæt skilyrði sem eru forsenda fyrir því að njóta undanþáguákvæða greinarinnar og eðlilegt megi sýnast í tilviki nektardansmeyja að óska eftir vottorðum frá viðurkenndum listaskólum eða öðrum jafngildum gögnum sem sanna að um sé að ræða starfandi listamenn. Þetta bréf var ítrekað 11. júní sl. en svar hefur ekki borist frá Útlendingaeftirlitinu.

Ég hef í undirbúningi að láta endurskoða lögin um atvinnuréttindi útlendinga. Það eru þversagnir í þeim lögum sem verður að laga hvort sem er. En það er hægt að taka á 14. gr. þar sem undanþága um atvinnuleyfi er fyrir listamenn, að undanskyldum hljóðfæraleikurum sem ráða sig til starfa á veitingahúsum, enda sé vinnan ekki nema í fjórar vikur hið mesta. Það er hægt að stytta þetta í tvær vikur eða fella listdans- eða nektardansmeyjar undan þessu ákvæði. En það dugar reyndar skammt því atvinnuleyfi þurfa aðeins þeir sem eru búsettir utan Evrópska efnahagssvæðisins. Það sem mundi gerast væri það að í staðinn fyrir stelpur frá Eystrasaltslöndum þá kæmu þær frá Danmörku og öðrum stöðum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Sveitarfélag sem að ekki vill líða svona starfsemi innan síns sveitarfélags hefur eitt ráð sem vafalaust stendur nú í sveitarstjórnarmönnum að beita og það er að svipta viðkomandi veitingahús vínveitingaleyfi.