Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:00:11 (561)

1999-10-14 14:00:11# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tel fulla ástæðu til þess að ræða þetta mál á hv. Alþingi og þakka fyrir að það er gert. Þetta mál snýst m.a. um stöðu kvenna en það snýst líka um margt fleira og við verðum að halda vöku okkar. Ég er ekki frá því að það að við ræðum þetta í dag á hv. Alþingi verði til þess að koma frekari hreyfingu á málið því að öll erum við sammála um að við viljum ekki hafa þetta svona. Þetta er niðrandi fyrir samfélag okkar.

Eins og hefur komið fram er það ekki augljóst að þetta mál snúist allt um ólöglega atburði og þess vegna er gott að vita að nefnd er að fara yfir það að hve miklu leyti þarf að breyta lögum til þess að stemma stigu við starfseminni. Listdans er það kallað en það sem þrífst í tengslum við þessa staði er þó alla vega ólöglegt því að það vitum við að er bæði fíkniefnasala og fíkniefnaneysla og að öllum líkindum vændi.

Það er oft þannig hér á Íslandi að við tökum hlutina dálítið með trompi og mér segir svo hugur að þessi starfsemi sé hlutfallslega orðin útbreiddari hér en í öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum. Ég geri mér grein fyrir því að þetta mál verður ekki leyst af okkur einum þar sem hér er um glæpahringi ræða sem standa að þessu. Það er því mikilvægt að við vinnum með öðrum þjóðum að lausn málsins, ekki síst þeim þjóðum sem við erum nánust og þá tala ég um Norðurlandaþjóðirnar. En kannski er ekki tilviljun að þetta skuli spretta upp í svo miklum mæli sem raun ber vitni núna eftir að múrinn féll og eftir að það opnaðist austur og neyðin þar blasir við okkur.