Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:11:08 (566)

1999-10-14 14:11:08# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég get verið sammála flestu því sem komið hefur fram hjá hv. þm. Í þessum efnum er þó ekki við neinn að sakast. Það virðist því miður vera einhver markaður fyrir vændi víðast hvar og er engin ástæða til að ætla að svo sé ekki hér. Við þurfum ekki annað en sjá auglýsingar fjölmiðla til að sjá að skyld viðskipti hafa því miður stóraukist hér á landi á síðustu árum. Ég veit að almenningur hefur vaxandi áhyggjur af þessu og nú síðast lýsti biskup Íslands áhyggjum sínum og ég tek fyllilega undir með honum í því sambandi.

Á meðan markaður er fyrir viðskipti af þeim toga sem hér hafa verið til umræðu er ljóst að alltaf verður eitthvað um þau. En ég tel að með skipulegum aðgerðum stjórnvalda megi halda þeim í skefjum.

Það er staðreynd að vændisstarfsemi tengist oft og tíðum annarri glæpsamlegri iðju, þar á meðal fíkniefnasölu. Ekki hefur þó tekist að sýna fram á beint samband hér á landi á milli innflutnings á konum til starfa við nektardans, fíkniefnainnflutning og skipulagða glæpastarfsemi þótt ákveðnar grunsemdir séu til staðar miðað við reynslu annarra þjóða. Öll umræða um þessi mál eru af hinu góða og Íslendingar verða að vera vel vakandi í þessum efnum. Við getum ekki þrátt fyrir landfræðilega fjarlægð litið fram hjá því að skipuleg glæpastarfsemi á sér engin landamæri. Við verðum að skoða þessa hluti í alþjóðlegu samhengi.

Ræðu forseta Lettlands á kvennaráðstefnunni mátti skilja sem ákall til vestrænna þjóða, þar á meðal Íslendinga, um hjálp lettneskum konum til handa. Ég er öll af vilja gerð til að skoða hvernig koma má í veg fyrir að óprúttnir aðilar reyni að hagnýta sér fjárnauð kvenna með ólöglegri starfsemi sjálfum sér til hagsbóta.