Sjálfbær orkustefna

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:04:35 (581)

1999-10-14 15:04:35# 125. lþ. 10.4 fundur 13. mál: #A sjálfbær orkustefna# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér er tekið fyrir till. til þál. um sjálfbæra orkustefnu og er hún svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela iðnrh. að undirbúa í samvinnu við umhvrh. og þingflokka sjálfbæra íslenska orkustefnu sem hafi að markmiði:

að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi innflutta orku af hólmi,

að dregið verði markvisst úr orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda,

að ríkulegt tillit verði tekið til náttúruverndar og umhverfis við áætlanir og ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Forsenda þessarar stefnumótunar verði að Ísland gerist fullgildur aðili að Kyoto-bókuninni frá 12. desember 1997 við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Á meðan þessi stefna er í mótun verði ekki ráðist í orkufrekan iðnað umfram það sem þegar hefur verið samið um og frestað að innleiða hér reglur Evrópusambandsins um innri markað í raforkumálum.``

Þáltill. þessi var flutt á 123. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Hún er nú endurflutt nokkurn veginn óbreytt.

Sjálfbær orkustefna er ekki markmið í sjálfu sér heldur afar mikilvægur hlekkur í sjálfbærri þróun á jörðinni. Núverandi orkubúskapur heimsins er í miklu ósamræmi við hugmyndir um sjálfbæra þróun og leiðir okkur fyrr en varir í öngstræti. Rangar áherslur í orkumálum skapa hættur fyrir umhverfi jarðar, heilbrigði og heimsfrið. Í áherslum Sameinuðu þjóðanna sem tengjast Ríó-ferlinu er m.a. lögð áhersla á eftirfarandi þætti til að stuðla að sjálfbærri orkustefnu:

Þar er lögð áhersla á orkusparnað og bætta nýtingu á orku á öllum sviðum, ekki síst í þróuðum ríkjum. Þar er lögð áhersla á umhverfisvæna orkugjafa, ekki síst endurnýjanlega orku og nýja og hreina tækni. Þar er lögð áhersla á orkugjöld vegna mengunar og/eða reglur er takmarki losun mengandi efna. Áhersla er lögð á afnám niðurgreiðslna til kjarnorku og hefðbundinna orkugjafa. Hvatt er til að heildarkostnaður m.a. vegna umhverfis verði sýnilegur og hluti orkufjárfestingar. Þar er einnig lögð áhersla á jöfnuð í aðgengi að orkuþjónustu og áhrif almennings á mótun orkustefnu. Þar er kallað á forustu ríkisstjórna og opinberra aðila í að ryðja braut fyrir sjálfbæra orkustefnu og að lokun er þar lögð áhersla á áætlanir og aðgerðir þjóðríkja í þágu sjálfbærrar orkustefnu.

Orka er undirstaða efnahagsþróunar. Yfir tveir milljarðar íbúa jarðar hafa ekki aðgang að rafmagni eða öðrum nútímalegum orkukerfum. Söfnun og brennsla þverrandi eldiviðar er hlutskipti hundruða milljóna og kemur einkum í hlut kvenna. Orka er lykill að því að útrýma fátækt, en orkusóun eins og hún viðgengst í þróuðum ríkjum er ógnun við umhverfi og jöfnuð. Þar eru niðurskurður í orkunotkun, bætt gæði í nýtingu orku í stað aukins framboðs og vistvænir orkugjafar mál málanna.

Þáltill. þessi beinir athyglinni að íslenskum orkubúskap. Í greinargerð með tillögunni er bent á hvernig nýta megi endurnýjanlegar orkulindir markvisst til stuðnings sjálfbærri orkustefnu í stað þess að binda þær í mengandi stóriðju til langs tíma.

Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem hér liggur fyrir er í beinu framhaldi af málflutningi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í kjölfar þáltill. sem við fluttum um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar. Flutningsmenn þessarar tillögu telja að Íslendingar eigi að leggja sitt lóð á vogarskálarnar hvað það varðar að afskaffa jarðefnaeldsneytið og leggja allt kapp á að halda áfram þróun til vistvæns orkubúskapar. Það er lykilatriði tillögunnar og ég óska eftir því að um hana verði fjörug, lífleg umræða með almennri þátttöku þingmanna. Ég vona jafnframt að hún fái góða umfjöllun í nefnd því hér er um viðamikið og veigamikið mál að ræða fyrir framtíð okkar Íslendinga.