Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:51:05 (591)

1999-10-14 15:51:05# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Menn komast yfirleitt í sérkennilegan hugaræsing þegar þessi mál ber á góma í sölum Alþingis. Umræðan snýst um það hvort umræðan eigi yfirleitt að vera á dagskrá. En hún er nú samt á dagskrá hér er í dag vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur látið orð falla sem benda til þess að hann telji alla vega að taka þurfi málið á dagskrá.

Við höfum verið aðilar að EES-samningnum nú um nokkurn tíma og við vitum að hann er að molna niður, þessi EES-samningur. Þó ekki væri nema af þeim ástæðum þá getum við ekki vikið okkur undan því að hugsa fyrir því hvað taki við og hvernig framtíð það verði sem Íslandi verði búin í samskiptum við Evrópu. Það þýðir að við þurfum að hafa þetta mál á dagskrá. Ég vil biðja menn að koma sér úr þessum skrýtnu liðamótum sem þeir hafa verið í þegar um þetta er rætt. Ég held að það ætti miklu frekar að vera sameiginlegt átak stjórnar og stjórnarandstöðu að hefja um málið málefnalega umræðu og láta ekki hugaræsing frá fyrri tíð halda fyrir sér vöku, eins og virðist hafa verið ályktun eins hv. þm. sem hélt ræðu áðan.

Eins er með öll önnur utanríkismál okkar Íslendinga. Það er engin ástæða til þess að um alla framtíð sitji menn uppi með stefnu sem var mótuð um og eftir styrjaldarárin. Ég hvet til þess að menn taki sér tak í þessu og hætti þessum skringilegum skotum hver á annan um að ekki megi tala um þetta eða t.d. að Samfylkingin hafi tekið upp einhverja aðra stefnu en hún mótaði í vetur um að, vel að merkja, þessi mál ættu að vera til umræðu.