Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 15:38:47 (610)

1999-10-18 15:38:47# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[15:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti kveða eilítið við annan tón í lokaorðum hv. þm. ef hún er að gera því skóna að það ætti frekar að gera þetta hraðar en frv. gerir ráð fyrir.

Við höfum í frv. ákveðið að leggja til að þetta verði gert í fjórum jöfnum skrefum, einkanlega til þess að áhrifin á ríkissjóð á hverju ári verði ekki óhófleg. En jafnframt er þarna farin sú góða leið að ákveða með góðum fyrirvara fram í tímann hvenær breytingar á skattalögunum koma til framkvæmda.

Áður fyrr var mjög mikill misbrestur á því að skattalög væru samþykkt nokkur ár fram í tímann. Hins vegar hefur það batnað í seinni tíð eins og menn þekkja. Til að mynda voru skattalækkanir sem ákveðnar voru 1997 að koma til framkvæmda alveg fram á þetta ár, en ég hygg að affarasælast sé að hrinda þessu í framkvæmd í tiltölulega litlum, afmörkuðum en ákveðnum skrefum.