Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 15:44:29 (614)

1999-10-18 15:44:29# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Markmið ríkisstjórnarinnar er og hefur verið að bætur og öll mörk í skattalögum hækki eins og verðlag. Ég geri því ráð fyrir að ef í ljós kemur að verðbólgan verði eins mikil og menn búast við og er þegar orðin, þá muni verða tekið tillit þess að þau mörk sem um er að ræða hækki eins og verðlag.

Það sem kom fram í þeirri merku skýrslu ASÍ var að þeir kvarta undan því að bæturnar lækki vegna þess að tekjurnar hafi hækkað langt umfram verðlag. Það finnst mér ekkert vera slæmt. Ég skil ekki hvað menn eru að kvarta undan því að bæturnar lækki vegna þess að fólkið hefur það betra. Hins vegar þarf vissulega að taka tillit til verðbólgunnar og ríkisstjórnin hefur lagt fram frv. um að lækka bensíngjaldið til að slá á alla vega þann endann. Taka þarf tillit til þess að verðbólgan er að vaxa og það þarf sérstaklega að berjast gegn því að hún vaxi enn frekar.