Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 15:47:50 (616)

1999-10-18 15:47:50# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að öllum sé ljóst að á því máli sem hér er til umfjöllunar eru tvær hliðar. Það þarfnast þess að vera skoðað mjög vandlega. Kannski ekki vegna þess að þarna séu á ferðinni svo stórar tölur eða að þetta hreyfi svo miklu í heildarsamhengi skatta, fjáröflun ríkissjóðs eða greiðslubyrði þolendanna. Satt best að segja vegur sá áfangi sem hér á að stíga í fyrsta skrefi ekki þungt þegar skattkerfið eða tekjuskatturinn og útsvarið í heild sinni er skoðað. Í samanburði við áhrif af því að gera breytingar á stóru breytunum sem færa til mikla fjármuni í þessu kerfi eins og hvert prósentustig í álagningu tekjuskatts eða hver þúsundkall í persónufrádrátt á mánuði, þá eru ekki mjög háar upphæðir hér á ferð.

Hitt er þó ljóst að hér eru menn komnir að umræðum um ákveðin grundvallaratriði, spurningunni um hvaða nálgun menn vilja hafa í skattkerfinu þegar kemur að því að byggja það upp eða stilla það af. Í hnotskurn er spurningin hér um sérsköttun, um sérmeðhöndlun hvers einstaklings sem skattgreiðanda eða samköttun hjóna, sambýlisfólks eða fjölskylduna sem skattalegrar einingar. Þetta togast á.

Þegar menn velta fyrir sér 400 millj. kr. þá koma vissulega upp áleitnar spurningar um hvaða ráðstöfun þeirra sé vænlegust eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi og bæta mætti þar við. Þegar menn varpa því fram hvort fara eigi út í að gera persónufrádrátt hjóna að fullu millifæranlegan, bæta við þeim 20% sem á hefur vantað, þá kemur t.d. strax upp spurningin um millifæranleika á persónufrádrætti unglinga sem líka hefur verið mikið til umræðu. Menn geta spurt hvort í þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar felist sú niðurstaða að brýnna mál sé að gera þennan millifæranleika 100% fremur en að skoða t.d. þann möguleika að gera þetta þegar unglingar eiga í hlut, jafnvel nú þegar búið er að hækka sjálfræðisaldurinn og framlengja þá ábyrgð sem foreldrarnir bera á börnum sínum.

Það hefur líka verið nefnt að þetta gæti t.d. verið tæki til að mæta kostnaði þeirra foreldra sem þurfa að senda börn sín um langan veg í skóla, að heimila þeim þennan millifæranleika. Það væri þá miðað við skilgreindar aðstæður þeirra sem sannanlega byggju við að þurfa að senda unglinga í framhaldsskóla um langan veg.

Svo ekki sé nú minnst á það ef við höfum einhverja fjármuni sem ákveðið er að ráðstafa með tilteknum hætti, færa til innan skattkerfisins, þá berast böndin strax að skattleysismörkunum. Væri ekki það að hreyfa skattleysismörkin upp á við miklu beittari aðgerð til þess að jafna lífskjörin í landinu, til að skila sem mestu af þessum fjármunum til þeirra sem mesta hafa þörfina, þ.e. lágtekjufólksins við skattleysismörkin, eða að hækka barnabæturnar? Svarið er auðvitað jú.

Það er engin spurning að beittustu aðgerðirnar til tekjujöfnunar og til að bæta aðstæður þeirra sem þarna hafa sannarlega erfiðasta framfærslubyrði eru skattleysismörkin sjálf og barnabæturnar. M.a. vegna þess að þá koma inn í myndina lágtekjufólk, einstæðir foreldrar og einstæðingar með lágar tekjur sem ekki koma við sögu í þeirri breytingu sem hér er lögð til.

Nánar um prinsippin sem hér togast á, þ.e. spurninguna um samsköttun eða fjölskylduna sem skattalega einingu annars vegar og hins vegar að hver einstaklingur sé meðhöndlaður sem sjálfstæður skattalegur aðili. Fyrir því má líka færa veigamikil rök, a.m.k að skattkerfið, bótakerfið og aðrir slíkir þættir eigi að byggja á einhverjum skilgreindum grunni þar sem hver einasti maður er metinn sem sjálfstæður aðili að vissum mörkum. Þar sé það lágmark sem tryggi hverjum og einum sjálfstæða og óháða framfærslu, sjálfsvirðingu getum við kallað það, ákveðið jafnrétti sem snúi að hverjum einasta einstaklingi án tillits til sambúðarforms eða aldurs eða annars slíks.

Kosturinn við að þessi persónufrádráttur sé annaðhvort alls ekki eða að hluta millifæranlegur er auðvitað sá að það styrkir stöðu beggja aðila í að afla tekna. Hættan, með gagn\-ályktun, við að gera þetta að fullu millifæranlegt er auðvitað sú að það ýtir undir þá þróun að sá aðilinn sem sterkari stöðu hefur til að afla tekna sjái alfarið um það en hinum sé ýtt inn á heimilið.

Hitt sjónarmiðið er aftur á móti að aðstæður geta verið þannig hjá fólki, t.d. ungu fólki með mörg börn eða aðrar slíkar heimilisaðstæður, að heppilegasti kosturinn fyrir viðkomandi fjölskyldu og gagnkvæmur vilji sé að annar annist heimilið en hinn afli tekna og sé þá jafnvel í aðstöðu til að afla fjölskyldunni góðra tekna. Þá kemur spurningin: Er þá sanngjarnt að fjölskyldur við slíkar aðstæður missi af þessum 20%, er það ekki óréttlátt? Er ekki meira réttlæti fólgið í því þrátt fyrir allt að þau nýtist fólki við þessar aðstæður?

Jú, það geta menn vissulega sagt og það er væntanlega meginröksemdafærslan sem hér liggur að baki þessu sjaldgæfa örlæti hæstv. ríkisstjórnar, að láta af hendi 400 millj. kr. í áföngum á næstu árum.

Hæstv. fjmrh. benti réttilega á að endapunktarnir á milli þessara tveggja gagnstæðu sjónarmiða eða markmiða sem hér vegast á væru annars vegar núll prósent millifæranleiki eða 100% millifæranleiki og ríkisstjórnin hefði valið þann kost. Mér fannst reyndar fara fulllítið fyrir hugmyndafræðilegum rökstuðningi hæstv. ráðherra á niðurstöðu ríkisstjórnarinnar og ég vildi gjarnan heyra aðeins rækilegar farið yfir það. Þó að sagnfræði sé ágæt og hæstv. ráðherra hafi í raun sagt það tilviljun á sínum tíma að menn enduðu í 80% þá er ekki þar með sagt að sú niðurstaða hafi endilega verið svo óheppileg eða vitlaus að hún geti ekki átt rétt á sér. Ég vil leyfa mér að segja að kostirnir séu auðvitað þrír. Þriðji kosturinn er sá sem við höfum búið við, að menn fari þarna að nokkru leyti bil beggja. Bæði sjónarmiðin hafa mikið til síns máls. Að um sé að ræða millifæranleg réttindi þegar fjölskyldur eiga í hlut en einnig geti verið kostur að hafa ákveðinn hvata fyrir hendi til að báðir aðilar, eftir því sem þeir eru í aðstöðu til, séu úti á vinnumarkaðnum og afli heimilinu tekna. Við skulum ekki gera lítið úr áhrifum svona skilaboða á stöðu kvenna á vinnumarkaði sem í yfirgnæfandi fjölda tilvika --- eins og allar tölulegar staðreyndir um aðstæður á vinnumarkaði og kynbundinn launamun benda á --- eru í veikari stöðu. Það er borðleggjandi að í yfirgnæfandi meiri hluta tilvika væri hættan sú að þetta yrði frekar til að ýta konum inn á heimilin og út af vinnumarkaðnum eða gera stöðu þeirra þar lakari, ef ekki er neinn skattlegur hvati til að þær séu þátttakendur í tekjuöflun heimilanna.

Síðan er það spurning, herra forseti, jafnvel þó að við viljum líta á fjölskylduna sem skattalega einingu, hvort þetta er sú ráðstöfun fjármuna sem við teljum brýnasta. Jafnvel þó við gætum orðið ásátt um að þetta væri gagnleg breyting í sjálfu sér og rökin vægju þyngra með að hafa þetta að fullu millifæranlegt en hin sem mæla með að svo eigi ekki að vera þá gæti verið skynsamlegt að fara þarna bil beggja. Mér finnst að menn eigi ekki að útiloka það í umræðunni. Hæstv. ráðherra nefndi sjálfur t.d. 50%. Það hefði getað verið ein niðurstaðan, að þetta væri að hálfu millifæranlegt.

Ég segi alla vega, herra forseti, að það verður ástæða til að fylgjast mjög grannt með því hvort þessi breyting, þó hún sé kannski ekki óskaplega stór og þetta skili fólki ekki nema nokkrum þúsundum króna á mánuði við þær aðstæður að þessi 20% viðbótar millifæranleiki nýtist að fullu, verði þá samt sem áður til þess að hafa þarna einhver neikvæð áhrif til viðbótar við þá þróun sem í gangi er. Í umræðum um þessi mál finnst mér ekki hægt að horfa fram hjá því að það er greinilega að síga á ógæfuhliðina á nýjan leik hvað varðar stöðu kvenna á vinnumarkaði, kynbundinn launamunur er að aukast þeim í óhag því miður. Það augljóst mál af þeim tölum og staðreyndum sem við höfum í höndunum, m.a. úr endurteknum launakönnunum kjararannsóknarnefndar.

Auðvitað læðist líka að manni sá grunur, herra forseti, ég vona að menn telji það ekki neina sérstaka illkvittni, að hæstv. ríkisstjórn velji þetta mál sem fyrsta umbótamál af nokkrum sem gefið var undir fótinn með í kosningabaráttunni vegna þess að það er tiltölulega ódýrt fyrir ríkissjóð. Það er alveg ljóst að stærðargráða þessa er allt önnur en t.d. hin margrómuðu og frægu loforð Framsfl. um að skila nú aftur að einhverju leyti barnabótunum í formi korta sem sami flokkur hafði rifið af fólki árin á undan. Verður nú varla betur gert en hjá Framsókn sem hélt áfram því óþurftarverki sem ríkisstjórnin þar á undan hóf, þ.e. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl., að tekjutengja barnabætur og skerða þær. Svo var verkið fullkomnað í tíð síðustu ríkisstjórnar, Framsfl. og Sjálfstfl., þegar barnabæturnar voru að lokum tekjutengdar að fullu og hafa náttúrlega verið skertar verulega. Þá er gott fyrir flokkinn sem ber ábyrgð á því að lofa að skila þessu aftur eftir kosningar. Þetta er fínt eftir að búið er að rífa bætur af fólki, að búa þá til tilefni til að vera góður og lofa að skila því sem tekið var.

[16:00]

Hins vegar er ljóst að ætli menn að gera þar umtalsvert átak þá kostar það mikla fjármuni eða ætti að kosta það ef ætti að skila því til baka eins og raun ber vitni. Þar erum við líka stödd gagnvart öðru algeru grundvallaratriði í skattalegu tilliti þegar barnabætur eiga í hlut. Eru þær til þess að jafna aðstæður þeirra sem hafa börn á framfæri annars vegar gagnvart öllum hinum eða eru þær bara stuðningur við lágtekjufólk eins og þær eru nú, vegna þess að þær hafa verið tekjutengdar að fullu og þar með hverfur sá skattalegi munur sem gerður er á barnafólki að breyttu breytanda annars vegar og hinum sem ekki eiga börn. Ísland er eitt af örfáum löndum sem ég þekki til í heiminum sem engan skattalegan mun hefur á fólki ofan við ákveðnar tekjur jafnvel þó að ein fjölskyldan sé barnlaus og önnur með fjögur til sex börn á framfæri vegna þess að menn líta yfirleitt svo á að þetta sé til þess að jafna þennan grundvallaraðstöðumun, a.m.k. að verulegum hluta. Síðan er einnig og mjög víða litið svo á að barnabæturnar tilheyri börnunum ekki síður en foreldrunum, að þær séu sá stuðningur sem samfélagið í raun og veru veitir þeim til að tryggja velferð þeirra í uppvextinum en séu ekki í sjálfu sér ívilnun sem eigi að merkja foreldrunum. Auðvitað eru viðhorf síðustu ríkisstjórna á Íslandi úti í grængolandi hafsauga ef maður ber þau saman við þessa hugsun. Ég minni t.d. á niðurstöðu þýska stjórnlagadómstólsins sem dæmdi það ólöglegt að skerða eða tekjutengja að fullu barnabætur í Þýskalandi vegna þess að það bæri að líta svo á að þær tilheyrðu börnunum ekki síður en foreldrunum.

Herra forseti. Að allra síðustu vil ég nefna að mér þætti það fullkomið tilefni fyrir hv. efh.- og viðskn., sem fær þetta mál til umfjöllunar ef að líkum lætur eins og önnur skattamál, að taka það til rækilegrar skoðunar í tengslum við þær upplýsingar sem hafa verið að birtast okkur, t.d. frá skattanefnd BSRB og Alþýðusambandsins þar sem tekin hefur verið saman ein ágæt skýrsla, sem ég geri ráð fyrir að þingmenn hafi allir lesið og er fróðleg og upplýsandi mjög, um þær breytingar sem hafa orðið í skattkerfinu nú á síðustu árum og er reyndar einnig ágætt hugmyndasafn um þær breytingar sem þar kæmu til greina, að taka líka til skoðunar síðustu niðurstöður úr launakönnunum kjararannsóknarnefndar og þær staðreyndir sem þar birtast okkur um breytingar hvað varðar aukinn launamun, annars vegar aukinn kynbundinn launamun og hins vegar reyndar einnig aukinn launamun eftir landshlutum. Þar er ekki um síður ískyggilega þróun að ræða, óheillaþróun og afturför skulum við kalla það. Ég hef aldrei kunnað vel við orðskrípið öfugþróun því þróun er í eðli sínu merkingarlega jákvætt fyrirbæri finnst mér þannig að við skulum bara kalla það afturför. Það er stórfelld afturför í gangi hvað varðar hvort tveggja, kynbundinn launamun sem er að vaxa og launamun milli landshluta sem er líka að vaxa og þá fyrst og fremst milli landsbyggðarinnar annars vegar og höfuðborgarsvæðisins hins vegar.

Ég held að menn gerðu rétt í því að fara nokkuð vandlega yfir þá hluti sem þarna eru að gerast og hafa verið að gerast, breytingarnar á skattkerfinu á undanförnum árum, hvað sem líður afgreiðslu á þessu tiltölulega einfalda máli hvað niðurstöðuna varðar, þ.e. annaðhvort eða fara menn í að gera þetta 100% millifæranlegt eða ekki.

Herra forseti. Það er ekki venjan að stjórnarandstaðan tali mikið, a.m.k. ekki um í mjög gagnrýnum tón um skattkerfisbreytingar sem eru ívilnandi. Það er óskaplega auðvelt að selja almenningi þær vegna þess að einhverjir fá pínulítið út úr þeim. Það er yfirleitt ekki til siðs en það gerist þó einstöku sinnum. Ég minni á að við örfáir þingmenn töluðum gegn hinum flötu skattalækkunum ríkisstjórnarinnar á sínum tíma og sá sem hér stendur var einn af þeim, þótt það væri kannski ekki sérstaklega gáfulegt þegar styttist í alþingiskosningar að standa í ræðustól á Alþingi og tala gegn því að lækka tekjuskattinn um einhver prósentustig flatt. Ég gerði það vegna þess að ég hafði sannfæringu fyrir því að þetta, a.m.k. í þessari útfærslu, væri vitlaus ráðstöfun. Ég tel að ég hafi haft rétt fyrir mér af efnahagslegum ástæðum. Það var ekki skynsamleg ráðstöfun í aðdraganda þenslunnar og uppsveiflunnar sem þá var, a.m.k. á sumum svæðum í landinu, að fara út í flatar skattalækkanir af þessu tagi. En þetta var líka óskynsamleg ráðstöfun með þeirri tekjutengingu barnabótanna sem fylgdi vegna þess að þetta hefur dregið úr tekjujöfnunargildi skattkerfisins. Og niðurstaða skattanefndar BSRB og ASÍ sýnir okkur svart á hvítu að það er verið að gera skattkerfið flatara með þessum ráðstöfunum. Það er verið að draga úr tekjujöfnunargildi þess og það er ferðalag í vitlausa átt að mínu mati.

Þess vegna segi ég líka, herra forseti, að hér er að sjálfsögðu á ferðinni ívilnandi ráðstöfun sem án efa mun mælast vel fyrir hjá mörgum þeim sem sjá í þessu einhverja hagsbót fyrir sig. En mér finnst að þetta eigi að ræða algerlega opið út frá því hvort þetta er brýnasta ráðstöfun fjármuna sem við teljum að blasi við okkur í þessum efnum, hvort að þar gætu ekki komið einnig eða alveg eins til skoðunar hlutir eins og að lyfta skattleysismörkunum, þó að það kosti mikla fjármuni ef það á að vera eitthvað sem um munar, eða hækka barnabæturnar eða annað slíkt. Það finnst mér alveg hiklaust eiga að gera, herra forseti, þó að ég sé eins og ég segi síður en svo að tala gegn þessu máli, fyrir því standa mörg rök. Það á sér vissulega sterk rök að stíga þetta skref til fulls vegna þeirra aðstæðna sem sannanlega eru uppi hjá fjölda fólks og í þeim tilvikum þegar þetta nýtist fólki vel, bætir stöðu fjölskyldna sem búa við þannig aðstæður að þær eru kannski hvort sem er í því munstri að annar aðilinn aflar alfarið teknanna en hinn annast heimili, veikan fjölskyldumeðlim eða annað í þeim dúr.