Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:06:59 (617)

1999-10-18 16:06:59# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:06]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. reifaði ýmis sjónarmið í tengslum við þetta mál og eins og kom fram í framsögunni má velta vöngum yfir þessu fram og aftur. Það togast þarna á ýmis sjónarmið, jafnvel ýmis grundvallarsjónarmið.

Þingmaðurinn spurði: ,,Er þetta brýnast ef menn hafa 400 millj. til ráðstöfunar?`` Ég tel að það sé réttmæt spurning. En ástæðan fyrir því að ekkert hefur verið gert í þessu máli í 12 ár er sú að menn hafa alltaf verið að spyrja sig þessarar spurningar og komist að þeirri niðurstöðu að svarið við henni væri nei. Þess vegna hefur aldrei verið gert neitt í þessu, vegna þess að menn hafa alltaf fundið sér ýmislegt annað til að bauka við í þessum skattamálum en að kippa þessu tiltölulega litla máli í liðinn. Nú held ég að sé kominn tími til að við losum okkur við þetta gamla ágreiningsmál og þennan ásteytingarstein sem verið hefur út um allt þjóðfélag og valdið mikilli gremju hjá mjög mörgu fólki sem hefur ekki fundist að það séu metið til fulls þegar í ljós hefur komið að viðkomandi hefur ekki getað flutt sinn persónuafslátt að fullu yfir til maka síns, ef viðkomandi hjón eða sambýlisfólk hefur kosið að haga sínu lífi þannig að annað þeirra væri tímabundið heima en hitt ekki. Ég held að það snúist fyrst og fremst um hlutleysi gagnvart verkaskiptingu hjóna að gera þetta kleift og að því leyti til má segja að hér sé á ferðinni visst sanngirnismál. Ég held að það sé kominn tími til að við á Alþingi tökum af skarið með þetta hvar í flokki sem við stöndum og losum sjálf okkur við þetta gamla ágreiningsmál sem og öll þau samtök sem hafa látið sig skattamál varða, hvort heldur er verkalýðshreyfingin eða aðrir, vegna þess að alls staðar hefur þetta mál valdið miklum ágreiningi og heilmiklum leiðindum.