Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:09:18 (618)

1999-10-18 16:09:18# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ákveðin málsvörn hjá hæstv. ráðherra en samt fannst mér röksemdafærslan frekar grunn. Ég hefði kosið, og kannski gerist það á eftir í umræðunni, að ráðherrann hefði farið svolítið ítarlegar og hugmyndafræðilegar yfir þetta heldur en bara segja, ef ég má leyfa mér að endursegja það á kannski dálítið einfaldan og jafnvel groddalegan hátt, að best sé að koma þessu bara út úr heiminum. Þetta væri gamalt mál sem menn eru orðnir leiðir á að hafa þarna og það er alltaf verið að þrasa um þetta í þjóðfélaginu og við skulum því bara klára þetta. Hendum út þessum 20%. Búið, punktur, endir sögu.

Mér finnst þetta vera miklu stærra mál og verðskulda ítarlegri rökstuðning í báðar áttir. Ég get sætt mig prýðilega við það og það verður að hafa sinn gang að niðurstaða ríkisstjórnarinnar verði sú að þetta eigi að vera 100% frekar en 0% t.d. sem ráðherrann nefndi sjálfur að væri hinn endinn, 50% eða eitthvað annað. En ég vil að það sé rækilega rökstutt.

Herra forseti. Ég efast líka um að það sé endilega svo einfalt að menn geti sagt að með því að hafa þetta 100% þá sé skattkerfið orðið hlutlaust. En hlutlaust gagnvart hverjum? Jú, það er þá hlutlaust gagnvart sambýlisfólki sem velur þetta form frekar en hitt, að báðir aðilar afli teknanna, að annar geri það alfarið. En er það t.d. hlutlaust gagnvart þeim fjölskyldum þar sem eru nokkur börn og þar á meðal t.d. einn unglingur, þar sem einn aðili verður að afla teknanna, þ.e. gagnvart einstæðum foreldrum? Er þessi breyting hlutlaus gagnvart þeim? Þetta er alltaf í samhengi við eitthvað annað, mismunandi aðstæður fólks. Ég held að við komumst ekki svo einfaldlega út úr umræðunni með því að segja bara: ,,Gerum þetta 100% og þá er skattkerfið orðið hlutlaust og allir geta verið ánægðir.`` Einstæðir foreldrar geta bent á það mikla óréttlæti sem þeir búa við að reka heimili og jafnvel stóra fjölskyldu og hafa bara einn persónufrádrátt en ekki tvo til að standa undir útgjöldum þess heimilis áður en kemur að skattgreiðslum eins og hjónafólki er þó verið að bjóða hér.