Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:11:31 (619)

1999-10-18 16:11:31# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki lagt af stað með þetta mál á þeirri forsendu að það mundi leysa öll vandamál í skattkerfinu. Þetta er mjög afmarkað mál eins og hér hefur komið glöggt fram og leysir þar af leiðandi ekki nema afmarkaðan vanda.

Menn tala stundum um að leita heildarjafnvægis eða hlutajafnvægis. Ég held að þetta tiltekna mál verði ekki hægt að skoða sem lið í að leita allsherjarheildarjafnvægis í skattkerfinu eða í efnahagsmálunum. En þetta leysir vissan vanda og skapar ákveðið jafnvægi þar sem þetta er fyrir hendi og á við.

Hv. þm. vék að því hvort breytingin gæti hugsanlega verið liður í þeirri þróun að ýta konum út af vinnumarkaðinum. Ég held að það séu algjörlega ástæðulausar áhyggjur. Þróunin hefur verið sú að undanförnu, eins og ég benti á í upphafsræðu minni, að atvinnuþátttaka kvenna og reyndar almennt hefur farið vaxandi. Stærri hluti landsmanna er úti á vinnumarkaðinum nú en áður hefur verið eftir því sem ég best veit og engar líkur eru til þess að þetta mál verði til þess að ákveðinn hluti þjóðarinnar dragi sig út af vinnumarkaðinum. Því yllu miklu frekar aðrar, stærri og almennari ástæður eins og erfiðleikar í atvinnulífinu sem vonandi verða nú ekki og fleira þess háttar, en ekki þessi tiltölulega litla skattbreyting sem þó er nógu stór til þess að hafa staðið í fólki í mörg ár og skapraunað fjölda manns um langt árabil, eins og ég sagði áðan.