Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:13:43 (620)

1999-10-18 16:13:43# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljóst að ekki er hægt að ræða málið á þeim nótum að það sé allsherjarmál í skattalegu tilliti. Þetta varðar einn afmarkaðan þátt. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. fjmrh. og við getum rætt mörg önnur slík sambærileg sem taka til einhverra tiltekinna aðstæðna. En þau eru þó alltaf í samhengi við annað eins og við rekum okkur á og það er náttúrlega eitt af því sem gerir alla umræðu um skattamál flókna og að lokum verður allt þetta heildarsamspil afar mikið móverk, ef svo má að orði komast.

Hæstv. ráðherra vék svo aðeins aftur að spurningunni um stöðu kvenna á vinnumarkaði, við skulum segja þess aðilans í hverju tilviki sem er með lægri launin eða hefur kannski lakari aðstöðu til tekjuöflunar. Ég held að menn eigi ekki að gera lítið úr þessu. Þarna er á ferðinni sjónarmið sem menn verða líka aðeins að horfa til. Þó að atvinnuþátttaka hafi farið vaxandi, og það hefur hún vissulega gert hér, þá held ég að hún hafi ekki gert það vegna þess að íslenska skattkerfið sé sérstaklega hvetjandi til þess, heldur hefur það verið hluti í almennri jafnréttissókn í þjóðfélaginu og drifin áfram sem slík. Niðurstaðan er hins vegar því miður sú að margar þær stéttir þar sem konur hafa gerst fjölmennar í á undanförnum árum, hafa færst niður í launum hlutfallslega og sigla hraðbyri inn í að verða láglaunastéttir. Og skattkerfið er þannig úr garði gert og aðstæður fjölskyldna eru þannig að ef annar aðilinn er með tekjur rétt yfir skattleysismörkunum en hinn með umtalsverðar tekjur eða jafnvel há laun, þá er allt heldur á móti því að viðkomandi aðili sé úti á vinnumarkaðinum. Ef sama fjölskylda á tvö börn og þarf að kosta þau í gæslu og allt sem við þekkjum að því fylgir, þ.e. kostnaðurinn sem því fylgir í sjálfu sér að vera þátttakandi úti á vinnumarkaðinum, þá er mjög oft hægt að reikna dæmið þannig að stórfelldur sparnaður felist í því fyrir þann aðilann sem er kannski með 70--100 þús. kr. á mánuði að fara inn á heimilið, passa börnin og færa persónufrádráttinn yfir til makans. Ég held að menn þurfi að hafa augun opin gagnvart því hvort þessi viðbótarbreyting hafi þarna neikvæð áhrif í för með sér.