Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:16:29 (621)

1999-10-18 16:16:29# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:16]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum í dag var mikið í umræðunni fyrir 10--15 árum og þá í jafnréttisumræðunni. Sumar konur töldu að það að hafa millifæranlegan persónuafslátt milli hjóna hvetti konur til að vera heima, að það mundi stöðva þær í því að ná framgangi og upphefð í atvinnulífinu og kæmi niður á kjörum kvenna og jafnrétti þeirra. Þetta er sjónarmið sem ekki má líta fram hjá. Ég vil taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að skattkerfið getur haft mjög alvarleg áhrif í þessa veru ef það leiðir til þess að annar aðilinn með lágar tekjur, yfirleitt konan, er hreinlega neyddur til að fara inn á heimilið vegna þess að það borgar sig engan veginn fyrir hann að vinna.

Herra forseti. Margt hefur verið gert til þess að styrkja stöðu einstæðra foreldra. Mikið hefur verið hjalað um þeirra vandræði og fjárhagslega örðugleika og það á eflaust við um suma þeirra. Meira að segja hefur verið gengið svo langt að við mig hefur talað margt ungt fólk, pör, þar sem annað, oft og tíðum karlinn, er með mjög háar tekjur og hitt, konan, með lágar tekjur. Þau hafa sýnt mér fram á að skertar barnabætur og skertar vaxtabætur kosti fjölskylduna um og yfir hálfa milljón á ári miðað við það að konan verði skráð einstæð með tvö til þrjú börn og bóndinn flytti heim á hótel mömmu. Svo segja þau mér sögur af dæmum þar sem fólk hegðar sér þannig að konan þykist vera einstæð móðir með börn og karlinn er heima hjá mömmu og pabba. En þau búa að sjálfsögðu saman. Hálf milljón eru miklir peningar og þarna er búið að koma upp kerfi sem gerir það að verkum að farið er að ofsækja undirstöðueiningu þjóðfélagsins skattalega, þ.e. fjölskylduna, hjón með börn. Þetta þarf líka að skoða í þessu samhengi.

Herra forseti. Ef við lítum á hverjir muni njóta þessara breytinga þá er afskaplega sjaldgæft að annar aðilinn sé heimavinnandi og án þess að hafa nokkrar tekjur nema þegar um er að ræða mörg lítil börn. Þá borgar sig oft og tíðum ekki að konan, í flestum tilfellum, vinni úti. Þetta fólk mun njóta þessara breytinga. Ég vil geta þess að einhvern tímann talaði við mig maður í kosningabaráttunni sem var mjög sár. Hann var hátekjumaður og borgaði hátekjuskatt. En þau hjónin áttu þrjú lítil börn undir sjö ára aldri og það þýddi að ekki var nokkur glóra í því að konan færi að vinna og borga barnaheimili og fá tekjur sem dygðu ekki fyrir þeim kostnaði. Hún var því heima með þrjú börn og hann var þá einn að vinna fyrir fimm einstaklingum, og var skattaður undir drep. Hann fékk hátekjuskatt eins og ég gat um og missti velflestar bætur, barnabætur, vaxtabætur o.s.frv. Hann sagði að þau hjónin hefðu ekki efni á því að fara í bíó og svo var hann að heyra einhverjar sögur af einstæðum foreldrum sem hefðu efni á að fara í bíó.

Það er því mjög mikilvægt að huga að því hvernig skattkerfið fer með og kemur við fjölskyldur í landinu. Það er spurning hvort það skattkerfi sem við höfum byggt upp í dag sé ekki í raun mjög fjölskylduóvinsamlegt, fjandsamlegt vil ég segja.

Þó að það komi þessu máli kannski ekki við þá hef ég lagt til að skattar verði settir 20% á allar tekjur og ég held að það mundi verða miklu fjölskylduvænna þegar upp er staðið.

Umræðan hér hefur snúist töluvert mikið um barnabætur og ómegðarbætur eins og ég vil kalla núverandi barnabætur. Þetta eru ekki barnabætur. Það er ekki verið að minnka mun á milli fólks sem á börn og þess sem á ekki börn og hefur sömu tekjur. Hátekjufólk sem á börn þarf að borga nákvæmlega sömu skatta og hátekjufólk með sömu tekjur sem ekki á börn vegna þess að barnabæturnar eru skertar. Þær hverfa. Þetta fólk fær enga aðstoð við að ala upp sín börn, enga. Þess vegna er það rangnefni að kalla þessar bætur barnabætur. Þær eru ekki bætur í þeim skilningi að þær séu til að aðstoða við uppeldi barna, miðað við annað fólk sem ekki á börn, heldur eru þetta ómegðarbætur. Þetta eru bætur sem eru ætlaðar til að aðstoða fólk sem hefur lágar tekjur og mikla ómegð. Það ættu þær líka að heita.

Herra forseti. Það má líta á persónuafslátt og tilheyrandi frítekjumark sem einhvers konar framfærslukostnað sem ekki skuli skattaður, þ.e. 60 þús. kr. megum við hafa sem einhvers konar lágmarksframfærslu og ríkið má ekki seilast til þessarar framfærslu. Ef við lítum þannig á það þá er mjög eðlilegt að persónuafsláttur hjóna sé millifæranlegur, en þó ekki 100% og þannig voru 80% fundin á sínum tíma, vegna þess að það er ódýrara að reka heimili með tveimur einstaklingum en tvö heimili með einum hvort. Þess vegna er hugsunin sú að framfærslan væri minni fyrir þann viðbótarmaka sem ekki hefur tekjur en ef um væri að ræða einstakling. Frítekjumarkið þar af leiðandi ekki nema 80% millifæranlegt. Þetta er ástæðan fyrir þessum 80%. Þau voru ekki alveg út í bláinn.

En það leiðir aftur hugann að því hvort ekki ætti að stíga skrefið til fulls og hafa persónuafslátt fyrir börn af því þau þurfa líka framfærslu. En þá kemur nokkuð merkilegt í ljós. Ef við skoðum núverandi ómegðarbætur þá eru þær í reynd persónuafsláttur fyrir börn því þær skerðast með tekjum foreldranna þannig að líta má á það sem persónuafslátt sem börnin fá til framfærslu, reyndar með töluvert lægri skattstiga, 9% og 5% o.s.frv., en sá persónuafsláttur sem einstaklingar og hjón fá.

Í þessu litla máli er því í reynd tekið á mjög stórum hlutum. Ég skora á hv. efh.- og viðskn. sem ég á reyndar sæti í, að fjalla um þetta mál mjög ítarlega og fara í gegnum þau dæmi sem að ég hef nefnt og fleiri þar sem skattkerfið fer í sumum tilfellum mjög illa með fjölskylduna og hegnir henni, og fjalla um hvort ekki þyrfti að stíga miklu stærri skref til þess að leiðrétta stöðu fjölskyldunnar gagnvart sköttum.