Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:24:15 (622)

1999-10-18 16:24:15# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, KHG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Frv. sem hér liggur fyrir hefur að sjálfsögðu ákveðinn tilgang eins og fram kom í máli hæstv. fjmrn. Það lýtur að afmörkuðu sviði skattalaga og er ætlað til að bæta stöðu fjölskyldunnar eins og skýrt kemur fram í efni þess. Það er verið að hækka millifæranlegan persónufrádrátt milli maka, hjóna eða sambýlisfólks, sem þýðir að ríkið er láta peninga út til þess þjóðfélagshóps. Ég vek athygli á því að meginefni frv. er í 1. gr. sem ákvarðar að persónuafslátturinn skuli að fullu vera millifæranlegur. Það er sú áætlun sem menn styðjast við núna og kemur fram í athugasemdum að kosti 400 milljónir. Menn vita ekki hvort það muni kosta meira eða minna. Hugsanlega mun það kosta meira, eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir reifaði hér að gæti verið. En það skiptir ekki máli hvort það kostar 400 milljónum meira. Meginefni frv. er sú ákvörðun sem tekin er að heimila að persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur. Það má mönnum ekki yfirsjást. Tilgangurinn er alveg í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann sem kveður á um það að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins. Þetta er einn liður í því að styrkja fjölskylduna með því að bæta kjör hennar. Þessi aðgerð er ekkert annað en kjarabót fyrir þetta sambýlisform sem beinist til þessa sambýlisforms og styrkir stöðu fjölskyldunnar í íslensku þjóðlífi.

Það er alveg rétt að þessi aðgerð gerir ekki eitthvað annað sem vafalaust væri þarft og rétt að gera og verður e.t.v. gert síðar á kjörtímabilinu af hálfu ríkisstjórnarinnar. En það dregur ekkert úr gildi aðgerðarinnar þó að hún lúti ekki að öðrum þáttum sem menn kjósa að nefna og vilja að betur verði sinnt en nú er. Það er alveg ljóst að þessi aðgerð nýtist ekki einstaklingnum. Það var alveg vitað fyrir fram. Og þó hún nýtist ekki einstaklingnum, þá spyr ég hv. þm. Margréti Frímannsdóttur: Er þingmaðurinn þá á móti því að þessi aðgerð nái fram að ganga? Í máli þingmannsins kom ekki fram afstaða til frv. Þingmaðurinn lýsti ekki yfir stuðningi við málið en nefndi sem ágalla á því að það nýttist ekki einstaklingnum og að það nýttist ekki einstæðum foreldrum, sem er líka alveg rétt því málið lýtur að millifæranlegum persónuafslætti og augljóslega bætir það ekki kjör einstæðra foreldra. En þá er líka ósvarað spurningunni hvort þingmaðurinn sé andvígur þessari breytingu. Menn geta ekki rætt um tiltekna breytingu út frá því að eitthvað annað gerist ekki og sagt óljóst frá afstöðu sinni til málsins.

Staða barnafjölskyldunnar er alveg sér mál og á því er tekið í ríkisstjórnarsáttmálanum. En þetta frv. fjallar ekki um það mál. Menn eru svolítið að fara út um víðan völl í þessari umræðu þegar þeir víkja sér undan að ræða efni frv. og taka afstöðu til þess, en fara að ræða annað sem lýtur að skattamálum og er út af fyrir sig áhugavert umræðuefni líka. Ég heyrði ekki, þó ég hlustaði grannt, afstöðu stjórnarandstöðunnar til þessa frumvarps. Ég heyrði frá hvorugum talsmanni stjórnarandstöðunnar afstöðu til málsins, þ.e. hvort þeir styddu málið eða styddu það ekki. Það er dálítið mikilvægt að fá fram í umræðu um frv. af þessum toga afstöðu stjórnmálaflokkanna til efnis málsins. Það kom heldur ekki fram í máli talsmanna stjórnarandstöðuflokkanna hvaða stefnu þeir hefðu haft fyrir kosningar í þessu máli sem frv. lýtur að. Ég heyrði ekki að þeir færu neinum orðum um hvað þeir lögðu fyrir kjósendur í þessum efnum. Það væri áhugavert að fulltrúar stjórnarandstöðunnar gerðu grein fyrir kosningastefnuskrá sinni eða afstöðu sinni til málsins þannig að umræðan yrði til þess að upplýsa hver afstaða stjórnarandstöðuflokkanna væri. En menn eru ekki miklu nær um afstöðu stjórnarandstöðunnar til málsins eftir ræður talsmanna hennar. Hins vegar hafa verið vangaveltur um ýmis atriði sem hafa að mörgu leyti verið fróðlegar og ágætar fyrir sinn hatt. En menn sniðgengu efni málsins. Ég vek athygli á því.

[16:30]

Mikið var rætt um barnabætur, einkum hv. þm. Margrét Frímannsdóttir. Hv. þm. fór nokkrum orðum um breytingar á barnabótum á síðasta kjörtímabili og kosningastefnu Framsfl. varðandi það mál og tekjutengingu barnabóta. Ég held að barnabætur og tekjutenging þeirra og annað slíkt sé mjög áhugavert umræðuefni en menn mega ekki í umræðu um það mál blanda því saman við efni þessa frv. Menn verða að halda því aðskildu.

Ég vil rekja það til að halda því til haga í umræðunni, af því að barnabætur hefur borið hér á góma, að í stjórnarsáttmálanum segir alveg skýrt, með leyfi forseta, að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. M.a. verði dregið úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, t.d. með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum. Þetta er alveg skýrt. Það er alveg skýrt hvað stendur í stjórnarsáttmálanum í þessu efni og ekki þarf að útskýra fyrir hv. þm. hvað orðið barnakort þýðir af því að það var rækilega útskýrt í aðdraganda kosninganna. Það er kannski rétt þó að hv. þm. sé nokkuð ljóst hvað var meint með því að rifja það upp þó að fyrir liggi hvað meint var með orðinu barnakorti. Ég vil leyfa mér að lesa hluta úr kosningastefnuskrá Framsfl. þar sem vék að þessu atriði, með leyfi forseta:

,,Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að hluti barnabóta verði án tekjutengingar þannig að öll börn fái barnakort við fæðingu sem eru 30 þús. kr. á ári. Kortið nýtist foreldrum til skattalækkunar eða greiðslu frá ríkinu.``

Þarna hafa menn skilgreininguna á því hvað orðið barnakort þýðir og í því samhengi ber auðvitað að skilja orðið barnakort í stjórnarsáttmálanum. Þar segir, með leyfi forseta: ,,... með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum.`` Stefna ríkisstjórnarinnar er því að bæta við peningum í barnabótakerfið og að hluti barnabótanna verði greiddur ótekjutengt. Þetta er alveg ljóst.

Hins vegar er til fullmikils ætlast að mínu viti að gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún sé búin að hrinda því í framkvæmd nokkrum mánuðum eftir kosningar sem hún áformar að gera á fjögurra ára tímabili. Hv. þm. verða því að hafa dálitla biðlund gagnvart því og leyfa ríkisstjórninni að njóta þess að hafa tímann fyrir sér til að hrinda áformum sínum í framkvæmd.

Ég vil taka undir það með hæstv. fjmrh. að það er ekki réttmæt gagnrýni á breytingar sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili á barnabótum að þær hafi skerst vegna þess að kaupmátturinn jókst umfram verðlag. Það er ekki réttmæt gagnrýni að mínu viti. Barnabætur eru peningar og eiga að halda verðgildi sínu miðað við verðlag. Takist verkalýðshreyfingunni að semja um hærra kaup þannig að kaupmátturinn aukist meira en verðlagsbreytingu nemur þá eiga menn auðvitað að greiða skatta af því. Það er ekkert sjálfgefið að bótakerfi ríkisins fylgi þeim sveiflum. Eðlilegt er að það fylgi verðlagsbreytingum og standi í við þær. Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. að gagnrýni sem hefur verið beint að þessu er ekki réttmæt.

Það er að mörgu leyti eðlilegt að þegar tekjur fólks vaxa dragi úr stuðningi ríkisins. Það er ekki markmið ríkisins að styðja fólk til að framfleyta fjölskyldu sem hefur háar tekjur. Ég er t.d. algerlega ósammála því sem kom fram í kosningastefnu Samfylkingarinnar að barnabætur ættu að vera algerlega ótekjutengdar upp í fjölskyldutekjur milli 400 og 500 þús. kr. á mánuði. Ég er algerlega ósammála því. Ég er miklu frekar sammála þeirri stefnu sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók upp á árunum 1988--1991 og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var ráðherra í og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir var þingflokksformaður Alþb. á þeim tíma, að tekjutengja bætur. Þá var tekin upp sú stefna að tekjutengja bætur og þáv. fjmrh. sagði iðulega á fundum í stjórnmálaflokki sínum og í sölum Alþingis og þáv. félmrh. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði líka að ekki væri eðlilegt að fólk með háar tekjur fengi sömu barnabætur og fólk með lágar tekjur. Það ætti því að tekjutengja þessa hluti og það var gert og það naut tiltölulega mikils velvilja og stuðnings í þjóðfélaginu. (Gripið fram í.) Jaðarskattur, hv. þm., þýðir að ríkið dregur úr stuðningi sínum þegar tekjur viðkomandi einstaklings hafa hækkað. Hv. þm. verður þá að svara því hvort hann telur rétt að ríkið leggi stuðning sinn fram óháð tekjum þess sem við tekur.

Ég er nokkuð viss um það af því að ég þekki hv. þm. Jóhann Ársælsson að við erum nokkuð sammála um svarið í þessum efnum. Hins vegar er ég ekki sammála því heldur að þetta eigi að vera tekjutengt að fullu og það hef ég talið að væri kannski einn helsti ljóðurinn á ráði þeirrar ríkisstjórnar sem ég nefndi að hún gekk svo langt í að tengjutengja að tekjutengt var alveg að fullu. Þess vegna er m.a. að finna í kosningastefnuskrá Framsfl. að hafa hluta af bótunum ótekjutengdan og hluta tekjutengdan. Það varð niðurstaða ríkisstjórnarinnar eða stjórnarflokkanna þegar ríkisstjórn varð mynduð að gera þetta að stefnu sinni.

Herra forseti. Það er svo sem ekki meira að segja um þetta nema kannski að vissulega hafa barnabætur skerst á síðustu árum. Það er að hluta til vegna þess sem ég nefndi að tekjur þeirra sem fá bæturnar hafa hækkað og mér finnst ekki eðlilegt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það. En það er auðvitað líka vegna þess að barnabætur voru skertar á ákveðnum tíma á síðasta kjörtímabili eins og fram hefur komið og hefur verið viðurkennt af okkar hálfu að hafi verið mistök. En með barnakortunum og þeirri áherslu sem er að finna í stjórnarsáttmálanum verður fjármagnið aukið í þennan bótaflokk, það er alveg ljóst. En ríkisstjórnin ætlar sér auðvitað að hrinda þessu í framkvæmd og hefur kjörtímabilið til þess.