Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:43:46 (627)

1999-10-18 16:43:46# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði það eiginlega að aðalefni máls síns og aftur hér í andsvari að kvarta undan því að stjórnarandstaðan hefði ekki tekið afdráttarlausa afstöðu til málsins, ekki sagt já eða nei.

Herra forseti. Sem betur fer er það ekki eina hlutskipti stjórnarandstöðu á Alþingi að fá náðarsamlegast að koma upp og segja já eða nei við stjfrv. Það er bara ekki þannig. Hv. þm. getur auðvitað farið í slíka leiðangra eins og honum sýnist, en það mun ekki breyta því að stjórnarandstaðan ræður orðum sínum sjálf. Það er að sjálfsögðu þannig og ég hafna því að með því að ræða um málin á þann hátt sem hér var gert af talsmönnum stjórnarandstöðunnar hafi menn í byrjun verið að sniðganga efni málsins. Það er fjarri öllu lagi. Það var verið að reyna að setja málið í samhengi við það umhverfi sem það er í, þ.e. innan skattkerfisins og spurninguna um ráðstöfun fjármuna í skattkerfinu og hvað sé þar brýnast auk þess að ræða þessa kerfisbreytingu á hugmyndafræðilegum forsendum og leita eftir rökstuðningi fyrir því, hvers vegna með því og móti því að gera slíka breytingu. Hæstv. ráðherra opnaði sjálfur á umræðuna einmitt með framsögu sinni í þá veru.

Það er að sjálfsögðu hinn eðlilegasti hlutur að þegar stjórnarandstaða er að byrja að skoða stjfrv. sem koma fram á þingi og þau eru rædd við 1. umr., þá ræðir stjórnarandstaðan það opið af sinni hálfu. Það er bara fullkomlega eðlilegur hlutur. Svo lengi hefur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson verið í stjórnarandstöðu að hann hlýtur að reka minni til þess að það hefur gerst áður í þingsölum þó að við vitum að vísu að hv. þm. er orðinn mikill stjórnarsinni og mikill framsóknarmaður og var ekki lengi að því. En það er ekkert að því að stjórnarandstaðan ræði opið um mál við 1. umr. og hafi á því alla fyrirvara hver hennar endanlega afstaða verður. Hún birtist og það þarf ekki mikla óþolinmæði til. Að sjálfsögðu tekur stjórnarandstaðan síðan afstöðu til þessa máls innan fárra vikna, tveggja mánaða eða svo, birtir hana eftir atvikum í nefndarálitum og í atkvæði sínu þegar málið verður tekið til afgreiðslu á þinginu innan skamms þannig að þetta hefur ekki mikið upp á sig.

Ef ég skyldi vera svo heppinn að hv. þm. svari, þá er annað atriði sem mig langar til að koma inn á í seinni ræðu minni.