Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:49:55 (630)

1999-10-18 16:49:55# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fellst nú ekki á að það sé óefnisleg athugasemd að benda á að hv. þm. gefur ekki upp afstöðu til þess hvort rétt sé að hafa persónuafslátt millifæranlegan að fullu eða ekki. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að hv. þm. sé krafinn um afstöðu sína til þess. En hann hefur valið þá leið að gefa ekki upp afstöðu til þess heldur blanda svarinu saman við barnabætur. Mér finnst það vera tvö mál sem erfitt er að tengja saman skattalega séð svo að vel fari, þ.e. að tengja saman millifæranlegan persónuafslátt og barnabætur. Ég tel að málin séu þess eðlis að menn verði að afgreiða þau hvort fyrir sig. Ég fæ ekki séð hvernig menn ætla að blanda saman millifærslu á persónuafslætti annars vegar og barnabótum hins vegar og hvort barnabætur eru meira eða minna tekjutengdar.

Þess vegna finnst mér það ekki skýr afstaða til frv. í grundvallaratriðum þegar menn gefa ekki upp afstöðu sína til þess hvort það eigi að vera fullur millifæranlegur persónuafsláttur og fara að blanda barnabótunum inn í málið sem eru ekki partur af þessu frv. Menn eru þá að draga að málinu atriði sem er efnislega óskylt. (SJS: Þú eyddir nú sjálfur löngum tíma í barnabótastefnu Framsfl.) Eðlilega, hv. þm., því að það var búið að draga það hér inn í umræðuna og tengja þessi mál saman. Því var eðlilegt að gera grein fyrir því hvernig um það mál er búið í stjórnarsáttmálanum og hvernig Framsfl. kynnti það mál af sinni hálfu. Því er auðvitað eðlilegt að gera það.