Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:51:56 (631)

1999-10-18 16:51:56# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í efh.- og viðskn. sem fær frv. til umfjöllunar þannig að ég þarf ekki að hafa langt mál um það við 1. umr.

Það er ljóst eins og kom fram í máli 3. þm. Suðurl., Margrétar Frímannsdóttur, og í máli 3. þm. Norðurl. eystra að á þessu máli eru bæði kostir og gallar. Það er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur við 1. umr. og eins í nefndinni, hverjir séu kostirnir og hverjir gallarnir.

Það hefur vissulega verið rakið hér og ég ætla ekkert að eyða tíma þingsins mjög ítarlega í það, varðandi þetta sérstaka mál, að persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur á milli hjóna --- að ýmsir hafa haft áhyggjur af því að það geti haft áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaðnum. Að því var vikið að við höfum búið við það og sjáum það í könnunum sem fram hafa komið bæði hjá kjararannsóknarnefnd og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur að um er að ræða mikinn launamun milli kynjanna í þjóðfélaginu. Þetta frv. hefur verið rætt í samhengi við það.

Ekki síður þurfum við að skoða það sem hér hefur verið rætt og ég gerði að umtalsefni í andsvari mínu við hv. 3. þm. Vestf., þ.e. hvað eigi að hafa forgang í þjóðfélaginu þegar við höfum svigrúm til að lækka aðeins skatta. Og það er ástæðan fyrir því að ég stend nú upp.

Ég vildi mjög gjarnan vita, og það gæti haft veruleg áhrif á afstöðu mína til frv. sem ég vil taka fram að við eigum að skoða með jákvæðum huga, hvaða afstöðu hæstv. fjmrh. hefur til frv. sem ég hef flutt á nokkrum þingum um að persónuafsláttur barna verði millifæranlegur, þ.e. að þeir sem hafa á framfæri sínu börn á aldrinum 16--19 ára geti nýtt sér óráðstafaðan persónuafslátt barna, að óráðstafaður persónuafsláttur barna verði millifæranlegur, að 80% hluta eins og nú er með makaafslátt.

Þetta er mál sem lengi hefur verið talað fyrir í þingsölum og ýmsir hópar í þjóðfélaginu hafa borið mjög fyrir brjósti og ýmis samtök eins og Félag einstæðra foreldra sem hefur sett það mjög á oddinn að þetta mál nái fram að ganga á þingi. Ég man eftir því, það er varla meira en kannski tvö til þrjú ár síðan, að Félag einstæðra foreldra afhenti undirskriftir vegna þessarar kröfu sinnar um að óráðstafaður persónuafsláttur barna gæti orðið millifæranlegur eins og persónuafsláttur hjóna, vegna þess að af eðli máls leiðir að t.d. einstæðir foreldrar geta ekki nýtt sér ónýttan persónuafslátt.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra sérstaklega, og finnst mér það alveg eiga heima í þessari umræðu, hver sé afstaða hans til þess að óráðstafaður persónuafsláttur barna geti verið millifæranlegur.

Það er alveg ljóst að þetta mun koma barnafjölskyldum mjög til góða. Og af því að ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta er mjög dýr aðgerð þá mætti hugsa sér að stíga það skref í áföngum, til að mynda að óráðstafaður persónuafsláttur barna yrði fyrsta kastið millifæranlegur hjá einstæðum foreldrum.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær mega þeir vænta sem bíða nú mjög eftir því að svokallað barnakort sem Framsfl. setti á oddinn í kosningabaráttunni komist til framkvæmda? Getur verið að það muni ekki sjá dagsins ljós fyrr en kannski á síðasta ári kjörtímabilsins? Ég spyr: Er samkomulag milli Framsfl. og Sjálfstfl. um útfærsluna, þ.e. þegar að því kemur að um verði að ræða barnakort? Eða eru menn að tala um breytingar á barnabótakerfinu sjálfu?

Stjórnarsáttmálinn er mjög óljós um þetta ákvæði. Ef ég man rétt, hæstv. fjmrh. leiðréttir mig þá, þá hafði hann orð á því að um barnakortin væri ekki komið neitt samkomulag. Þess vegna vil ég gjarnan fá að vita, og beini því til hæstv. ráðherra, hvort hann sé tilbúinn til þess að fræða okkur nánar um þessa hlið mála.

Þegar við stöndum frammi fyrir takmörkuðu fjármagni til skattalækkunar þá veltum við fyrir okkur hvort það sé rétt og eðlilegt að á sama tíma og þeim sem njóta barnabóta fækkar um tvö þúsund á næsta ári, þá eigum við endilega að setja í forgang að hafa persónuafslátt milli hjóna að fullu millifæranlegan. Með þessum orðum er ég ekki að segja að ég sé á móti þessu frv. En ég er að velta fyrir mér forgangi. Sá áfangi sem verið er að stíga með þessu frv. kostar t.d. 100 milljónir og það er svipuð fjárhæð mundi kosta ríkissjóð að skattleggja ekki húsaleigubætur.

Ég spyr sjálfa mig hvort ég, ef ég væri fjmrh. og hefði einungis 100 milljónir til ráðstöfunar til þess að lækka einhvers staðar skatta, mundi nýta þessar 100 milljónir til þess að fara í þennan áfanga, stíga það skref að persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur milli hjóna, eða fara í að afnema skattlagningu á húsaleigubótum. Þetta eru spurningar sem við veltum fyrir okkur, þ.e. spurningar um forgang. Meginástæðan fyrir því að ég kem í ræðustól er að spyrja hæstv. ráðherra nánar um afstöðu hans til þeirra leiða sem ég nefndi, varðandi barnakortið og varðandi millifæranlegan persónuafslátt eða óráðstafaðan persónuafslátt barna á aldrinum 16--19 ára. Ég er alveg sannfærð um að það væri veruleg kjarabót fyrir mörg heimili í landinu ef sú leið væri farin. Ég er raunverulega að leita eftir afstöðu ráðherrans til þessa, hvort að hann telji að þessi leið sé fær og hvort ég sem flm. þess frv. og sem hef mælt fyrir geti átt von á því á þessu kjörtímabili að fá stuðning ríkisstjórnarinnar við það sem ég hef talað hér fyrir.