Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 17:00:12 (632)

1999-10-18 17:00:12# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö efnistriði í ræðu þingmannsins sem ástæða er til að reyna að svara. Ég ætla að víkja að síðara atriðinu fyrst, þ.e. spurningunni um svokölluð barnakort. Hvenær koma þau til framkvæmda, var spurt.

Ég hef áður upplýst það í þessum sal að engin ákvörðun liggur fyrir um það enn þá. Í stjórnarsáttmálanum segir að ríkisstjórnin vilji stuðla að því að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. M.a. verði dregið úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, t.d. með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum. Því er sem sagt ekki slegið föstu að sú framkvæmd verði endilega í formi barnakorta en það er nefnt í dæmaskyni að svo geti farið. Niðurstaðan liggur ekki fyrir í því efni. Stjórnarflokkarnir hafa ekki náð landi í því máli enn sem komið er. En ég ítreka það sem ég hef líka bent á áður í þingsalnum að stefnuyfirlýsingin gildir fyrir kjörtímabilið allt, eins og stendur í yfirlýsingunni, að helstu markmið ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu eru þau sem upp eru talin. Þess vegna er ekki sanngjarnt, hvorki hjá hv. síðasta ræðumanni né þeim sem áður hafa talað í umræðunni, að ætlast til þess að allt sem í þeim sáttmála og stefnuyfirlýsingunni stendur verði komið til framkvæmda nokkrum mánuðum eftir að stjórnin hefur endurnýjað samstarfssamning sinn. Það er ekki sanngjarnt og ekki hægt að ætlast til þess.

Við erum að tala um verkefni sem ætlunin er að vinna að á kjörtímabilinu og ég vona að okkur auðnist í góðu samkomulagi í stjórnarflokkunum að finna skynsamlega leið til að draga úr tekjutengingu í barnabótakerfinu.

Ég verð, herra forseti, að bíða með seinna atriðið þangað til í síðara andsvarinu.