Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 17:04:08 (634)

1999-10-18 17:04:08# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera pínulítill orðhengilsháttur. Það er ekki komið samkomulag um þessa hluti. Það þýðir ekki að það sé endilega ósamkomulag. Það er bara ekki búið að leiða málið til lykta, það er ekki komin niðurstaða. Hvort sem menn kalla það barnakort eða eitthvað annað sem út úr því kemur, það kemur bara í ljós. En það stendur skýrum stöfum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, t.d. með útgáfu barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum. Viðskrh. hefur ekki gengið á bak orða sinna og ríkisstjórnin hefur ekki gert það og hún mun huga að þessum málum síðar meir þó að það verði ekki gert á þessu haustþingi.

Að því er varðar spurninguna um persónuafslátt barna eða unglinga, þá er það vissulega annað mál en hér er til umræðu en óneitanlega ekki mjög fjarskylt. Hins vegar er það miklu stærra mál vegna þess að það snýst um miklu hærri upphæðir. Þar værum við að tala um skattalækkun fyrir hvern ungling á bilinu 16--18 eða 19 ára upp á 20--26 þús. sem mundi renna til foreldranna eftir því hvort miðað er við 80% eða 100% persónuafslátt. Í þessu þingmáli erum við að tala um 5.000 kr. þegar málið er allt komið til framkvæmda þannig að það er náttúrlega allt önnur stærðargráða.

Spurt er hvort hægt sé að gera þetta í einhverjum áföngum (JóhS: Nema til einstæðra foreldra.) Nema til einstæðra foreldra já, það er líka ein hugmynd en ég vil ekki taka afstöðu til hennar í þessu andsvari en ég bendi á að slíkur stuðningur mundi kannski ekki alveg ríma við þá stefnu sem birtist í þessu frv. og hætt er við að slíkur stuðningur verði til þess að fjölga í hópi einstæðra foreldra frekar en í hópi fólks sem hættir að vera einstæðir foreldrar og ganga í sambúð eða hjónaband.