Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 17:44:04 (639)

1999-10-18 17:44:04# 125. lþ. 11.6 fundur 17. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 58. mál: #A breytingar á lagaákvæðum er varða húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[17:44]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er auðvitað langt frá því að vera sammála honum og ég spyr hann um það hvort hann telji það ekki brot á jafnræðisreglunni að telja húsaleigubætur til tekna og mismuna þannig fólki. Þetta er aðstoð samfélagsins við fólk við húsnæðisöflun. Finnst hæstv. ráðherra ekki að skattalögin eigi að vera hlutlaus gagnvart slíkum húsnæðiskostnaði? Mér finnst, herra forseti, að það eigi að líta á þetta allt öðrum augum en ráðherrann var að nefna, að bera þetta saman við t.d. lífeyrisgreiðslur o.s.frv. Við erum að tala um sambærilega hluti þegar við erum að tala um aðstoð samfélagsins til húsnæðisöflunar. Það vill bara svo til að um er að ræða láglaunafólk sem getur ekki keypt sér húsnæði og af því að það getur ekki keypt sér húsnæði þarf að taka skatt af þeirri aðstoð sem það fær í gegnum húsaleigubætur. Af því að hæstv. ráðherrann nefndi að sveitarfélögin fái útsvar af því að húsaleigubætur eru skattlagðar vil ég minna á að a.m.k. Reykjavíkurborg, ef ekki Samband ísl. sveitarfélaga, hefur talað mjög ákveðið fyrir því að húsaleigubætur verði skattfrjálsar, jafnvel þó að sveitarfélögin missi af þessum tekjum af því að sveitarfélögin gera sér grein fyrir því að hér er á ferðinni réttlætis- og sanngirnismál sem allt mælir með að hljóti sömu meðferð og húsaleigubætur. Þess vegna veldur það mér miklum vonbrigðum að heyra hér svör ráðherrans og þau gefa mér vissulega ekki mikið tilefni til þess að ætla að meðan þessi ríkisstjórn er við völd verði skattar af húsaleigubótum afnumdir. Enda held ég að það sé svo að það sé bara Sjálfstfl. sem leggist gegn því að húsaleigubætur verði skattfrjálsar vegna þess að ég man ekki betur en að það sé skoðun hæstv. félmrh. að ekki eigi að skattleggja húsaleigubætur.