Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 17:48:27 (641)

1999-10-18 17:48:27# 125. lþ. 11.6 fundur 17. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 58. mál: #A breytingar á lagaákvæðum er varða húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[17:48]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við verðum að horfa blákalt á þá staðreynd að hópur fólks í þjóðfélaginu er ekki í stöðu til að geta eignast húsnæði. Fólk sem er með 60--100 þús. kr. tekjur er bara ekki í þeirri stöðu. Á meðan kjörin eru ekki betri í þjóðfélaginu þá breytist sú staða ekki. Það er sú staðreynd sem blasir við. Ég velti því fyrir mér hver sé eðlismunur á aðstoð samfélagsins annars vegar í formi húsaleigubóta og hins vegar í formi vaxtabóta. Hæstv. ráðherra kallar þetta ákveðna tegund af framfærslustyrk. Það mætti eins segja um vaxtabæturnar að þær eru ákveðin aðstoð eða styrkur, styrkur við þá sem eru í þeirri stöðu að geta eignast húsnæði. Ég sé því ekki eðlismuninn á þessu. Ég veit ekki betur en að annars staðar, a.m.k. á Norðurlöndunum, sé aðstoð samfélagsins við þá sem eru á leigumarkaði í formi niðurgreiðslu sem þessarar ekki skattskyld. Hún er ekki skattskyld. Mér finnst því illa farið með fólk sem er ofurselt leigumarkaðnum með því að mismuna þeim sem geta eignast húsnæði og hinum sem þurfa að vera á leigumarkaðnum og borga mjög dýra leigu, leigu sem hefur hækkað, eins og ég nefndi áðan, mjög mikið á nokkrum mánuðum út af þeim breytingum sem ríkisstjórnin gerði á húsnæðislöggjöfinni um síðustu áramót. Því segi ég enn og aftur, herra forseti, að mér finnst rök hæstv. ráðherra ekki fullgild og þó að hæstv. ráðherra telji að það eigi að setja fjárhagsaðstoð og lífeyrisgreiðslur undir annan hatt en vaxtabætur, þá tel ég að húsaleigubæturnar skeri sig úr vegna eðlis þeirra. Ég vitna aftur í nefnd félmrh. sem sagði orðrétt:

,,Nefndin telur skattlagningu húsaleigubóta því vera gróft brot á þeirri grundvallarreglu skattaréttar í jafnræðisreglunni að skattleggja húsaleigubætur á sama tíma og vaxtabætur eru skattfrjálsar.``

Það getur vel verið, herra forseti, að nauðsynlegt verði að fá úrskurð lögfræðinga um það hvað er rétt í þessu efni.