Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 18:31:03 (647)

1999-10-18 18:31:03# 125. lþ. 11.9 fundur 56. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[18:31]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir hv. 19. þm. Reykv., Ástu Möller, sem ég tel mjög mikilvægt að fá fram við 1. umr. málsins. Eins og þingmenn þekkja hefur þessi hv. þm. mikla reynslu á vettvangi kjaramálanna og verkalýðsbaráttunnar fyrir hjúkrunarfræðinga. Hún þekkir því launakerfið í heild sinni mjög vel og hvað þarf að gera til að reyna að stuðla að því launajafnrétti sem við ræðum undir þessari þáltill.

Þær tölur sem hv. þm. nefndi af launakönnunum innan BHMR eru mjög sláandi og staðfesta, herra forseti, það sem fram kemur í þessari tillögu og ég nefndi í máli mínu um aðrar kannanir.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það er forsenda fyrir því að hægt sé að taka á þessum málum og jafna kjörin á milli karla og kvenna að launakerfið sé gagnsætt en það virtist, herra forseti, vera á því mikil tregða.

Hv. þm. nefndi nýtt launakerfi í því sambandi og ég held að við verðum að skoða það með mjög opnum huga að taka upp nýtt launakerfi. Það gengur auðvitað ekki eins og kom t.d. fram í þeirri könnun sem Verslunarmannafélagið gerði að kjarasamningar sem við stöndum í á hverju ári eða tveggja ára fresti og standa vikum og mánuðum saman þar sem barist er um örfáar krónur fyrir lægst launaða hópinn, að kannski sé verið að semja eingöngu fyrir 5% þeirra sem eru á launamarkaðinum. Aðrir semja sjálfir við atvinnurekendur sína með einstaklingsbundnum samningum.

Ég vil taka það fram að ég hef ekkert á móti einstaklingsbundnum samningum svo fremi að við séum sæmilega örugg á því að atvinnurekendur og ég tala ekki um ríkisvaldið stuðli ekki að því í slíkum samningum að viðhalda þessu launamisrétti eða jafnvel að auka það. Út af fyrir sig hef ég enga tryggingu fyrir því en það er búið að reyna svo margt annað í gegnum tíðina að mér finnst að það sé þess virði að skoða nýjar leiðir í þessu sambandi.

Ég spurði hæstv. fjmrh. um greiðslur viðbótarlauna til starfsmanna ríkisins og hef fengið svar við þeirri fyrirspurn á þingi í dag, þ.e. hvaða stofnanir hefðu beitt ákvæði 9. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um heimild forstöðumanna stofnana til að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar umsömdum grunnlaunum fyrir sérstaka hæfni sem nýtist í starfi eða sérstakt álag svo og fyrir árangur í starfi eins og orðað er í 9. gr.

Hæstv. fjmrh. segir í svari sínu að þessu ákvæði hafi ekki enn verið beitt og það hafi verið gert í samkomulagi aðila við síðustu kjarasamninga að þessu ákvæði yrði ekki breytt á því samningstímabili sem kjarasamningar aðila gilda eða til 31. okt. árið 2000. Ég viðurkenni það vel, herra forseti, þó að ég sé að tala um nýtt launakerfi og taka undir með hv. síðasta ræðumanni að forsenda þess að hægt sé að taka á þessum málum sé nýtt og gagnsætt launakerfi, þá hef ég verulegar áhyggjur af þessu ákvæði 9. gr. laga um að það geti enn aukið á þann mun sem er hjá ríkisstofnunum varðandi ýmsar hlunnindagreiðslur. Ég vil spyrja hv. þm. sem þekkir þessi mál vel hver skoðun hennar sé á þessu ákvæði 9. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Telur hv. þm. að þetta ákvæði muni þegar það kemst til framkvæmda stuðla að launajafnrétti kynjanna?

Eins hefði ég áhuga á að spyrja hv. þm. um skoðun hennar varðandi starfsmat. Nú man ég að það var það fyrsta sem síðasta ríkisstjórn gerði, þ.e. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. sem átti að vera mikið innlegg inn í jafnréttismálin og raunar jafnrétti kynjanna að koma á starfsmati. Við höfum ekki séð neinn árangur af því. Mikið var gert úr þessu af hálfu ríkisstjórnarinnar en ég hef ekki séð neinn árangur, heldur þvert á móti eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. í dag. Ég get verið honum sammála. Margt bendir til þess að launamunur hafi heldur vaxið milli kynjanna en að það hafi dregið saman með konum og körlum í launamálum. Það er virkilegt áhyggjuefni ef þessi þróun heldur áfram.

Sú tillaga sem hér er flutt og það að ná því markmiði að það sé launajafnrétti milli karla og kvenna er auðvitað ekki pólitískt mál einhvers eins flokks. Allir flokkar hafa það á stefnuskrá sinni að vinna að launajafnrétti kynjanna og það er alveg sama hvar í flokki þingmenn standa. Hér tala allir sem einn maður um að stuðla þurfi að launajafnrétti kynjanna. Maður spyr: Ef allir, hér á þessari æðstu samkoma þjóðarinnar, þjóðþinginu, eru sammála um að það þurfi að taka á þessu máli hvers vegna í ósköpunum hefur það ekki verið gert? Við hljótum að spyrja sjálf okkur um það.

Ég hef verið ráðherra félagsmála og þar með ráðherra vinnumarkaðsmála. Ég reyndi ýmsar leiðir til að vinna að þessu máli að því er varðar jafnréttismálin en það er eins og maður reki sig alls staðar á veggi þegar kemur að launamálunum. Það virðist vera mikill feluleikur með þetta innan stofnananna. Eðli málsins samkvæmt er verið að gera einstaklingsbundna prívatsamninga við forstöðumann sinn og stofnanirnar vilja heldur ekki ræða þetta. Ég man að í framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna átti að gera úttekt á fimm ríkisstofnunum til þess að fara algerlega ofan í öll launamálin, hlunnindagreiðslur og annað. Það var mjög erfitt að fá ýmsar ríkisstofnanir til liðs við okkur í því efni þannig að margir steinar hafa verið á þeirri leið að ná fram jafnrétti kynjanna.

Hv. þm. nefndi að hún teldi að sú tillaga sem hér er til umræðu sem ég skil að hv. þm. styðji og ég þakka fyrir stuðning hv. þm. í því efni sem ég tel mjög mikilvægan, gæti verið hluti af því átaki sem er á borði ríkisstjórnarinnar sem er til þess að fara í átak í því efni að jafna launamismun. Ég tel mjög mikilvægt að við skoðum þetta fyrst í okkar ranni, þ.e. ríkisvaldið hefur ákveðnar skyldur vegna jafnréttislaganna. Það er mjög brýnt að ríkisvaldið hafi ákveðið frumkvæði vegna þess að ef launakerfið verður gert sýnilegt og það verður ekki þessi feluleikur með hlunninda- og bifreiðastyrki í ríkiskerfinu, þá er ég viss um að það mun hafa veruleg áhrif til þess að bæta stöðu kvenna og jafna launamismun milli kynjanna.