Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 18:40:44 (648)

1999-10-18 18:40:44# 125. lþ. 11.9 fundur 56. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[18:40]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beindi til mín nokkrum spurningum. Áður en ég svara spurningum um 9. gr. laganna og segi skoðun mína á hvort starfsmennt sé tæki sem beri að taka upp til þess að jafna launamun karla og kvenna langar mig aðeins að ræða um nýtt launakerfi og markmið með því. Eins og ég sagði áðan var nýtt launakerfi tekið upp hjá opinberum starfsmönnum og hefur það að markmiði að vera gagnsætt þannig að launamyndunin og launasamsetningin á að vera alveg ljós.

Hluti af samningsferlinu var færður til fyrirtækjanna, til stofnananna þar sem stofnanirnar sjálfar settu sér ákveðin markmið, settu sér ákveðnar forsendur í samkomulagi við fulltrúa stéttarfélaganna sem var lagt til grundvallar launaákvörðunum einstaklinga. Mér er kunnugt um að VR hefur svipaðar hugmyndir og eru í þessu nýja launakerfi ríkisins í þá veru að hluti af launasamsetningunni er ákvarðaður inni í fyrirtækjum sem semja við VR á sama hátt og hjá stofnunum ríkisins.

Fram kom í máli hv. þm. að einungis 5% taka laun samkvæmt lágmarksákvæðum samninga VR. Þetta var áður 3% og mér finnst það vera afturför. Það að 5% taki laun samkvæmt lágmarksákvæðum er hneyksli en allt umfram það er jákvætt.

Varðandi 9. gr. laganna kemur fram í svari fjmrh. að sú grein er óvirk og ég tel að hið nýja launakerfi hafi komið í staðinn fyrir 9. gr. Ég vonast til að fá síðar tækifæri til að fjalla um aðra þætti.