Grunnskólar

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 14:15:22 (656)

1999-10-19 14:15:22# 125. lþ. 12.6 fundur 81. mál: #A grunnskólar# (einsetning, samræmd lokapróf) frv. 104/1999, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[14:15]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í greinargerð frv. sem hér er til umræðu kemur fram að markmið þess sé tvíþætt. Annars vegar að auka valfrelsi í 9. og 10. bekk grunnskóla og hins vegar að fresta einsetningu grunnskóla.

Hvað síðarnefnda atriðið varðar vil ég lýsa yfir miklum stuðningi við það ákvæði, einfaldlega vegna þess að í ljós hefur komið frá því að í lög var fært að sveitarfélögin tækju við grunnskólunum að þau eru ekki öll í stakk búin til þess. Ég hygg að skynsamlegra sé í ljósi þess raunveruleika að fara sér aðeins hægar en láta meginmarkmiðið vera það að sveitarfélögin beri ábyrgð á rekstri grunnskóla. Ég vil ítreka það sjónarmið að ég tel þá breytingu vera mjög til bóta, enda hefur það komið fram á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að sveitarfélögin tóku við grunnskólunum að áhugi sveitarstjórnarmanna á fundum og ráðstefnum um skólamál er mun meiri en áður var, enda ábyrgðin orðin þeirra. Það eru meginrökin fyrir þeirri skoðun minni að þetta hafi verið gæfuspor. En öll spor þarf að vanda og þess vegna er hyggilegt að fresta þeirri ákvörðun.

Í annan stað hlýt ég einnig að fagna hinu meginmarkmiðinu að auka valfrelsi í grunnskóla. Það hefur því miður verið og er enn of ríkjandi í skipulagi og uppbyggingu skólastarfs að miða við aldur en með þeim takmarkaða sveigjanleika sem því fylgir, þ.e. að nemendum er raðað í bekki á grundvelli aldurs en óháð þroska, bæði vitsmunaþroska, tilfinningaþroska og í rauninni líkamlegum þroska líka. Eins og allir vita og til allrar hamingju eru einstaklingar ólíkir og misfljótir til þroska. Þess vegna er í alla staði rökrétt að taka skólastarf allt til endurskipulagningar og leggja meira til grundvallar ólík þroskaskeið má segja og þroskastig einstaklinganna í stað þess að láta árin ein ráða. Ég tel að þetta sé skref í þá átt og hlýt þess vegna að fagna því að gefa nemendum 9. bekkjar kost á að þreyta samræmd próf sem að öðru jöfnu eru einungis lögð fyrir nemendur 10. bekkjar.

Ég vil í framhaldi af þessu spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir frekari breytingum í þá átt sem ég var að lýsa að miða skólastarf í vaxandi mæli við einstaklingsbundinn þroska fremur en árafjölda.

Hér hafa orðið nokkrar umræður um samræmd próf og mælingar á skólastarfi og fagna ég þeirri umræðu á hv. Alþingi. Vitaskuld eru mælingar á árangri í skólastarfi eins og á öllum sviðum afskaplega nauðsynlegar. Nauðsynlegt er fyrir allar starfsstéttir og alla starfshópa að vita hvort þeir eru að vinna gott eða slæmt starf og til þess þurfa þeir að geta mælt árangur sinn með einhverju móti. Á sumum sviðum er það mjög auðvelt. Tökum dæmi af handverksmanni sem getur lagt smíðisgrip sinn áþreifanlegan fyrir kollega sína og þeir síðan metið í rólegheitum hvort um völundarsmíð sé að ræða eða hrákasmíð. Þetta er hins vegar öllu erfiðara fyrir skólafólk, enda ekki um áþreifanlega hluti að ræða. Þar er verið að vinna með lifandi einstaklinga og afskaplega erfitt að finna þá mælistiku sem óumdeilanleg er. En mælingin og þörfin fyrir mælingu er hin sama meðal skólafólks og annarra.

Aðferðir til að mæla árangur í starfi eru ólíkar og ein aðferð sem notuð hefur verið ekki síst hér á landi eru svokölluð samræmd próf. Það er ein leiðin til að mæla árangur í skólastarfi. Samræmt próf og samræmt próf er sitt hvað, þ.e. framkvæmd samræmdra prófa er auðvitað nokkuð ólík og framkvæmd þeirra er misjöfn. En það er vert að draga það fram og leggja áherslu á að eins og samræmd próf úr 10. bekk hafa verið framkvæmd, þá hafa þau verið afskaplega stýrandi í skólastarfi, eins og fram kom m.a. í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Þau eru afskaplega stýrandi og það að taka ákvörðun um hvaða námsgreinar skulu samræmdar í prófum felur í rauninni í sér ákveðið gildismat, enda höfum við dæmi þess og er þekkt úr skólastarfi að aðrar námsgreinar eru látnar sitja á hakanum, jafnvel felldar alveg á brott tímabundið meðan hinar svokölluðu samræmdu greinar fá aukið svigrúm og meiri áhersla er lögð á þær. Eins og samræmd próf 10. bekkjar hafa verið framkvæmd að undanförnu þá felast ákveðin skilaboð til nemenda og samfélagsins, þ.e. hinar hefðbundnu fjórar bóklegu greinar eru skilaboð til samfélagsins um að þær greinar séu æðri öðrum. Þá er um leið verið að senda út þau skilaboð að svokallaðar starfstengdar greinar og listgreinar séu óæðri og kann þar að liggja að hluta til skýringin á heldur aumri stöðu þessara greina á framhaldsskólastigi. Þess vegna er ákvörðunin um hvaða greinar eru valdar til samræmds prófs eins og þau hafa verið tíðkuð í 10. bekk ákveðið gildismat og í rauninni stefnumörkun eða alla vega skilaboð til nemenda og samfélagsins.

Þá er líka vert að hafa það í huga eins og við þekkjum bæði úr umræðu á hv. Alþingi og ekki síst í fjölmiðlum að gæði skóla eru oft metin af árangri úr samræmdum prófum eins og það er nú annars ónákvæm og ósanngjörn mæling. Allar rannsóknir um árangursríkt skólastarf segja í rauninni að umbúnaðurinn í skólanum segi ekki allt heldur skipti miklu máli aðstæður og hvatning heima fyrir og það umhverfi sem nemendur alast upp í, í skóla en ekki síður á heimilum. Þannig að þegar verið er að meta gæði skóla er vissulega þörf á að geta mælt ef menn vilja vera sanngjarnir og heiðarlegir í slíkum dómum að kveða upp einkunnir um skóla í hvaða ástandi, ef svo má segja, nemendur eru þegar þeir hefja nám og hver virðisaukinn hefur síðan orðið þegar nemendur ljúka námi í viðeigandi skóla.

Nú er það þekkt og hefur m.a. verið tengt umræðu um gæði skóla í þéttbýli og á landsbyggðinni, sérstaklega í sjávarþorpum þar sem skólarnir eru í beinni samkeppni við atvinnulífið og nemendur þar eiga tiltölulega auðvelt með að fá vinnu meðan þeir eru á skólaaldri, að slíkir skólar virðast stundum koma út heldur lægri á samræmdum prófum en skólar í þéttbýli, t.d. á suðvesturhorninu og segir það e.t.v. sína sögu og er dæmi um að við þurfum að skoða skólana í því samfélagi sem þeir eru en ekki einungis að einblína á þá þröngu mælistiku sem er niðurstaða úr samræmdum prófum.

En það er líka vert að hafa það í huga, herra forseti, að samræmd próf í grunnskóla hafa um nokkurra ára skeið verið tíðkuð með öðrum hætti. Ég veit ekki betur en að í gær og í morgun hafi verið þreytt samræmd próf í 4. bekk grunnskóla og 7. bekk, og má segja að sú athöfn sé merkileg stund fyrir okkur vegna þess að þar er árgangur sem þreytti samræmd próf þegar hann sat í 4. bekk. Hér er um að ræða samræmt próf sem ekki tengist beint brautskráningu eða útskrift úr grunnskóla heldur er komið mjög hentugt vopn fyrir kennara og starfsfólk skólanna sem getur borið saman breytinguna sem hefur orðið á þeim árgangi á þremur árum, án þess að tengja það sérstaklega við neina útskrift. Þetta er það sem hefur verið kallað á ensku fræðimáli ,,formative`` og ,,summative evaluation`` þar sem niðurstöður samræmdra prófa með því að bera saman virðisaukann, hver svo sem virðisaukinn hefur orðið á nemendum meðan á dvöl þeirra í skólanum stendur, er kjörið vopn fyrir starfsfólk skólans til að skoða hvar styrkleiki og veikleiki skólans er og hvar má sækja fram.

En ég ítreka, herra forseti, að samræmd próf og val á námsgreinum til samræmdra prófa er spurningin um gildismat og skilaboð til samfélagsins og þess vegna vildi ég í lokin, herra forseti, beina því til hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því og beita þá því heimildarákvæði sem felst í þessu frv., ef það verður að lögum, að samræmd próf eða einhvers konar mæling á listgreinum og beinum starfstengdum greinum muni falla undir þetta svið.