Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:03:19 (665)

1999-10-19 15:03:19# 125. lþ. 12.7 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér eru til umræðu breytingar á ákveðnum þáttum í lögum um framhaldsskóla. Það sem maður staldrar fyrst og fremst við er hvernig framhaldsskóla eða framhaldsnámi lýkur hjá nemendum. Hvaða möguleikar standa þeim opnir að námi loknu? Og hvers konar menntun og skólar eru að þróast í landinu?

Þetta var ósköp einfalt meðan við vorum með einn háskóla sem nánast eingöngu kenndi mönnum að verða lögfræðingar eða prestar. En nú höfum við margs konar nám sem kallað er á háskólastigi, en þau stig eru kannski að verða meira eða minna úrelt. Og sömuleiðis líka skilgreiningin stúdentspróf.

Það var sú umræða að deyfa skilgreiningu stúdentsprófsins, að framhaldsskólum gæti lokið með prófum með skilgreindum námslokum en hið skilgreinda stúdentspróf yrði meira eða minna fellt burt. Það er líka svo að framhaldsnám hefur orðið æ fjölbreyttara eftir því sem þjóðfélagið hefur orðið margbreytilegra og krafist er tæknimenntunar og sérmenntunar á svo mörgum sviðum.

Ég tel að til þess að halda áfram námi í háskólum eða tækniskólum þá eigi að gjalda varhuga við því að stúdentspróf eða einhver samræmd próf sem menn kalla samræmdar prófgreinar til stúdentsprófs verði hemjandi fyrir námsframgang. Það er e.t.v. fyrst og fremst fyrir þá skóla sem taka við viðkomandi nemendum að skilgreina hvernig menntun eða bakgrunn þeir vilja fá. Það er kannski ekki aðeins menntun í einhverjum ákveðnum bóklegum greinum heldur líka bara almenn starfsmenntun, reynsla og lífsreynsla sem getur þar ráðið, sem að vísu eru möguleikar fyrir en þó ekki skilgreindir.

Mér finnst því, þó að þessi breyting taki ekki mjög mikið á því, þá sé hún samt að undirstrika þetta stúdentspróf, hún sé að undirstrika þetta samræmda próf, bæði í bóknámi og síðan er kominn einhver samræmdur kjarni líka úr starfsnámi, iðnnámi eða tækninámi til þess að komast í háskóla.

Mér finnst þetta ekki fyllilega í takt við þann raunveruleika sem við stöndum frammi fyrir. Mér finnst að næsta skólastig fyrir ofan eftir að þetta stig er komið, þ.e. upp fyrir skyldunám, eigi nánast sjálft að setja mörkin í ríkari mæli.

Ég hjó eftir því og var ánægður með þau orð hæstv. ráðherra að þriggja ára framhaldsskóli væri til skoðunar í ráðuneytinu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það ætti að skoða styttingu á þeim tíma sem liggur núna frá skyldunámi og til sérhæfðs náms, annaðhvort í sérhæfðu starfsnámi, tækninámi eða háskólanámi, það ætti að finnast leið til styttingar þar á, en að nemendur ættu sem lengst samleið í almennu kjarnanámi sem yrði síðan stutt og bætt og aukið með námi sem höfðaði til samfélagsins og þess umhverfis sem nemendurnir væru að alast upp í.

Ég gæti séð fyrir mér styttingu í þrjú ár og menn hyrfu enn meir frá þeim sérbrautum sem sú stytting á námi gæti gefið tilefni til, og að sú braut yrði með almennan kjarna en tengdist síðan starfsmenntun og umhverfi eftir því sem bæði aðstæður og áhugi stæði til og mennta þannig fólkið inn í nærumhverfi sitt og inn í samfélagið.

Þetta gæfi líka möguleika hjá mun fleiri skólum að taka upp framhaldsskóla, hvort sem hann væri tilgreindur sem hluti af áframhaldandi grunnskóla þ.e. skyldunámi eða framhaldsskóli. Hann gæfi þá möguleika fyrir mun fleiri sveitarfélög til að taka upp slíkt nám og færri nemendur, færra ungt fólk þyrfti að fara úr heimabyggð sinni til að sækja langa og sérhæfða framhaldsskóla.

Ég mundi gjarnan vilja skoða og fylgjast með þróun þessa máls í ljósi þess hvernig við getum fært framhaldsmenntunina aftur heim í byggðirnar og eflt starfsmenntun og tengsl almenna menntakerfisins, atvinnulífs og samfélags, og hvernig við getum fært þetta aftur saman í auknum mæli. Ég bind vonir við það.

Ég legg annars áherslu á að þær breytingar sem hér eru lagðar til fái góða umfjöllun í nefnd og þar komi sem flest sjónarmið að því sem þarna er kveðið á um og annað nýtt ef það mætti verða til styrktar og þá verði hægt að taka afstöðu til þeirra breytinga.