Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:17:48 (667)

1999-10-19 15:17:48# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Því ber að fagna að hv. efh.- og viðskn. hefur afgreitt fljótt og vel frv. sem hér er til umræðu þannig að sem fyrst megi stíga skref til að létta eilítið af þeim skattaálögum sem bifreiðaeigendur hafa búið við á þessu ári.

Ég held að segja megi að umsagnir sem bárust nefndinni um frv. hafi yfirleitt verið jákvæðar. Yfirleitt er tekið undir það að hér sé verið að stíga skref í áttina til að lækka álögur á bifreiðar. Þó eru gerðar ýmsar athugasemdir við þær aðferðir og viðmiðanir sem notast er við, einkum hjá Neytendasamtökunum og ASÍ og einnig um að viðmiðunin sem notuð er í 1. gr. frv. sé of há. Félag ísl. bifreiðaeigenda gerir t.d. mjög afdráttarlausar athugasemdir við þessa viðmiðun í frv., en þar kemur fram að viðmiðunin sé meðaltal af vörugjaldi á bensíni sl. fimm ár.

Ég vil fara nokkuð yfir þær þrjár umsagnir sem ég nefndi til að skýra nánar athugasemdir sem fram komu í nefndinni og styðja við brtt. þá er hér var verið að greiða atkvæði um og ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni.

Í umsögn Félags ísl. bifreiðaeigenda kemur fram að vegna hárra hlutfallsskatta leggist 145% álag á hverja krónu sem bensín hækkar um á heimsmarkaði. Í umsögninni segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Bensín er ofurskattavara. Bensín ber nokkrar tegundir af sköttum. Við innflutning á 95 oktan bensíni er lagt á 97% vörugjald. Við það bætist bensíngjald í Vegasjóð 28,60 krónur á hvern lítra, þá flutningsjöfnunargjald 65 aurar og loks 24,5% virðisaukaskattur.``

Í umsögninni segir einnig, með leyfi forseta:

,,Þetta meðalverð gefur til kynna að eðlilegt viðmiðunargjald í fastri skattheimtu ætti að vera um 9,30 kr.``

Í frv. er hins vegar lagt til 10,50 kr. Þessu til rökstuðnings segja þeir, með leyfi forseta:

,,Hins vegar er það mat félagsins að það fasta gjald 10,50 kr. sem lagt er til grundvallar í frumvarpinu sé of hátt. Í athugasemdum er stuðst við framreiknað meðaltal vörugjalds af bensíni frá 1994 til 1998. Söluhlutfall 95 oktan bensíns hefur verið að aukast öll þessi ár en það er mun ódýrara á heimsmarkaði en 98 oktan bensín. Samkvæmt upplýsingum frá olíufélagi er 95 oktan bensín yfir 95% af seldu bensíni hér á landi. Til viðmiðunar má sjá á meðfylgjandi gögnum, sem byggjast á yfirliti Seðlabanka Íslands um innkaupsverð á 95 oktan bensíni, að meðallítraverð bensíns (95) síðastliðin 3 ár er um 9,59 kr. miðað við meðalgengi dollars á hverjum tíma. Þetta meðalverð gefur til kynna að eðlilegt viðmiðunargjald í fastri skattheimtu ætti að vera um 9,30 kr.``

Svo segir í umsögn frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda. En það er einmitt sú viðmiðun sem við notum í þeirri brtt. sem ég mæli fyrir.

Ljóst er að miklar bensínhækkanir hafa orðið á þessu ári og það er löngu tímabært að endurskoða álögur á bifreiðaeigendur. Við þekkjum það að bensín hefur hækkað á þessu ári úr rúmlega 70 kr. í tæplega 90 kr. Að stærstum hluta, eða 70% hluta, er um að ræða skatt til ríkisins sem hefur mikil áhrif á útgjöld bifreiðaeigenda, t.d. var áætlað þessi hækkun þýddi um 700--800 kr. fyrir eina áfyllingu á meðalfjölskyldubílinn. Auk þess hefur þetta þau áhrif að skuldir heimilanna hafa hækkað á þessu ári um 4--5 milljarða og við þekkjum mikil áhrif bensínhækkunar á árinu á vísitöluna sem kynt hefur undir verðbólgunni. Auk þess hefur bæst við --- og því ber að halda til haga --- hækkunin sem orðið hefur á bifreiðatryggingum um allt að 40% á þessu ári.

Ég nefndi að ríkissjóður hefði vissulega fengið sitt, 70% af þeirri hækkun sem orðið hefur en olíufélögin hafa líka fengið sitt og að mínu viti ekki lagt sitt af mörkum til að halda niðri bensínverði. Fákeppni, einokun og verðsamráð sem haldið hefur verið fram að sé hjá olíufélögunum hefur haldið uppi háu bensínverði, en hagnaður olíufélaganna á fyrri hluta þessa árs var um 608 millj. kr.

Ég vil fara aðeins yfir umsögn Neytendasamtakanna en þau segja orðrétt, með leyfi forseta:

,,Neytendasamtökin hafa talið að álögur á bifreiðar og vörur þeim tengdar séu komnar langt úr hófi fram og gera því þær kröfur til ríkisins að þessar álögur verði teknar til endurskoðunar með það að markmiði að lækka þær verulega. Skv. 1. og 2. gr. frumvarpsins verður gjaldið föst tala, en samtökin telja þá upphæð of háa. Með því að breyta vörugjaldi úr prósentugjaldi í fast gjald í krónum er verið að lögfesta mjög hátt gjald af hverjum bensínlítra.``

Það er einmitt með slíka hugsun að baki sem við m.a. flytjum þá brtt. sem hér er lögð til. Frv. ríkisstjórnarinnar miðast við 10,50 kr. á vörugjald af hverjum lítra af bensíni óháð sveiflum á heimsmarkaðsverði þannig að ef heimsmarkaðsverð lækkar þá munu neytendur ekki njóta þess en ríkissjóður gerir það.

Í annarri almennri ályktun um bensínverðið sem Neytendasamtökin létu til fjölmiðla í september sl. vekja þau sérstaklega athygli á að forsendur krónutölugjalds taki mið af bensínverði eins og það er nú þegar heimsmarkaðsverð á olíu og bensíni er í hámarki, eins og þeir segja. Það er ljóst að slík breyting mundi leiða til hærra verðs á bensíni þegar til lengri tíma er litið.

Í umsögn Alþýðusambandsins segir að Alþýðusamband Íslands hafi bent á í bréfi til fjmrh. að það telji að ríkisstjórnin verði að beita skattlagningu sinni á bensíni þannig að af leiði sveiflujöfnun á bensínverði innan lands í stað þess að hún magni áhrif bensínverðshækkana erlendis eins og nú er. Í framhaldi af því segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er alltaf ákveðin óvissa fólgin í því að festa gjöld í ákveðinni tölu miðað við einhverjar gefnar sögulegar forsendur.``

Það er einmitt mergurinn málsins, herra forseti, og ástæðan fyrir því m.a. að við flytjum þessa brtt.

Enn fremur segir í umsögn ASÍ, með leyfi forseta:

,,Fleiri leiðir hefði mátt skoða, t.d. að útfæra skattlagninguna þannig að vörugjald lækkaði hlutfallslega þegar verð á heimsmarkaði hækkaði, lækka það sama skapi þegar verð lækkaði umfram einhver mörk. Alþýðusamband Íslands telur að sú leið sem lögð er til í frv. sé skref í rétta átt og muni koma í veg fyrir að skattlagning hins opinbera magni verðsveiflur á bensíni erlendis eins og verið hefur hingað til.``

Ég hef farið yfir ályktanir þriggja aðila sem styðja við þær brtt. sem við höfum flutt. Ég vil reyndar minna á að ég boðaði við 1. umr. málsins hugmynd sem skoða ætti í stað þeirra leiða sem ríkisstjórnin hefur valið í 1. gr. frv.

Ég held að full ástæða sé til að minna á að bensínverð hér á landi er mjög hátt miðað við önnur lönd. Það er áætlað að ríkið fái sem svarar 4% af vergri þjóðarframleiðslu í tekjur af umferðinni meðan meðaltal annarra Evrópulanda er 3%. Það virðist því vera verulega meira sem ríkið tekur í sinn hlut af umferðinni hér en Evrópuþjóðir eða um 1% meira af vergri þjóðarframleiðslu. Ég held að við séum, eins og ég reyndar nefndi í 1. umr. þessa máls, komin alveg að ystu mörkum þess sem forsvaranlegt er í gjaldtöku.

Ég vil nú fara í nokkrum orðum yfir þær viðmiðanir sem hæstv. ríkisstjórn notar, þ.e. þetta fimm ára tímabil og þær viðmiðanir sem við notum. Félag ísl. bifreiðaeigenda er tekur greinilega undir það að nota meðaltal sl. árs og fyrstu níu mánuði þessa árs. Sé það meðaltal notað til viðmiðunar þá yrði verð á bensínlítra 9,30 kr. í staðinn fyrir 10,50 kr. eins og ríkisstjórnin leggur til í frv. Eins og við þekkjum þá hafa orðið miklar verðsveiflur á þessu ári á bensíni og ef við tökum viðmiðið sem nota á þá voru þær 10,50 kr. sem hér á að miða við 6--7 kr. í janúar og febrúar. Við sjáum því að ef þetta gerist aftur sem auðvitað er ekki hægt að segja fyrir um, þá græðir ríkissjóður á þeirri tillögu sem hér er lagt til að verði samþykkt en ekki neytendur, þ.e. ef heimsmarkaðsverðið lækkar. Því teljum við eðlilegra, rétt eins og Félag ísl. bifreiðaeigenda, að taka meðaltalið á liðnu ári og á fyrstu mánuðum þessa árs þannig að neytendur njóti lækkunar á heimsmarkaðsverði.

Við fórum nokkuð yfir það við 1. umr. málsins að fjárlög þessa árs hafi ekki skilað ríkissjóði þeim tekjum sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði. Hæstv. fjmrh. sá ástæðu til þess að hafa mörg orð um það við 1. umr. málsins að tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi af bensíni og sérstöku vörugjaldi á bensíni hefðu lækkað verulega frá áformum fjárlaga. Þetta er allt satt og rétt. En ekki er um háar fjárhæðir að ræða. Varðandi vörugjald af bensíni og sérstakt vörugjald af bensíni frá fjárlögum 1999 til áætlunar núna 1999, þá hefur þetta rýrt tekjur ríkissjóðs frá áformum fjárlaga um innan við 100 millj. kr., kannski um 80 millj. kr. En hæstv. fjmrh. nefndi ekki verulegan tekjuauka ríkissjóðs umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Þá er ég að tala um vörugjald af ökutækjum en þar hefur tekjuauki frá fjárlögum þessa árs orðið 1.524 millj. meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Auðvitað hefði verið ástæða til að nefna það í þessu samhengi þegar hæstv. ráðherra ræddi það að ríkissjóður hefði orðið af 75--80 millj. vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á bensíni.

[15:30]

Þetta skýrist af innflutningi á bifreiðum sem hefur aukist gífurlega eins og við þekkjum. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér frá fjmrn., ef tekið er mið af janúar til ágúst 1999 samanborið við janúar til ágúst 1998, þá hefur innflutningur á bifreiðum aukist um 2.700 bifreiðar á þessum tíma úr 11.393 í 14.103 eða aukning um 2.700 bíla. Af þessu hefur ríkissjóður haft þessar tekjur, 1.524 millj. umfram fjárlög. Þessir bílar þurfa auðvitað að nota bensín og þarna hefur orðið veruleg búbót hjá fjmrh. sem hann sá enga ástæðu til þess að nefna við 1. umr. málsins. Allt styður þetta það sem við höfum verið að segja um þá verulegu fjármuni sem ríkissjóður hefur af bifreiðum. Það höfum við alltaf vitað og hefur reyndar alltaf verið, ekki bara í tíð þessarar ríkisstjórnar heldur líka annarra ríkisstjórna en nú held ég líka að við séum komin á þau mörk þar sem við þurfum að staðnæmast og endurskoða á hvaða leið við erum.

Ég vil líka segja út af þeirri viðmiðun sem er í frv., að ráðherra nefndi það líka við 1. umr. málsins að engin ástæða væri til að ætla og ólíklegt að ríkið græddi á þessari viðmiðun 10,50 kr. og ekki neinar sérstakar ástæður til þess að ætla að sú breyting yrði á heimsmarkaðsverði að ríkissjóður færi allt í einu að græða mikið á þessu. Þeim mun meiri ástæða er til þess að setja þann varnagla sem við setjum. Við erum ekki einungis með viðmiðun við fasta krónutölu sem er lægri en það sem hæstv. fjmrh. er með heldur erum við einnig með ákvæði inni sem er núna, þ.e. að við leggjum til að áfram standi að af bensíni skuli greiða 97% vörugjald, þó aldrei hærri fjárhæð en 9,30 kr. af hverjum lítra. Þegar þessi viðmiðun er inni, þ.e. að það skuli greiða 97% vörugjald þó aldrei hærri en x fjárhæð. Það tryggir að neytendur ættu að njóta góðs af því ef lækkun verður á heimsmarkaðsverði.

Við í Samfylkingunni höfum einnig velt því fyrir okkur hvort ástæða væri til að flytja brtt., einnig við þetta frv., um að það fari fram heildarendurskoðun á skattlagningu á bifreiðar almennt í heild sinni í ljósi þess sem ég hef sagt og þeirrar umræðu sem fram hefur farið um þessi mál. Við munum skoða það við 3. umr. málsins, ekki síst í ljósi þeirrar brtt. sem ég hef flutt hér, hvaða afdrif hún fær við atkvæðagreiðslu við 2. umr. Ég held að það sé alveg íhugunar virði hvort við eigum að endurskilgreina markmiðin með álagningu skatts af bifreiðum og til hvaða verkefna skatturinn eigi að renna. Vegna þess að auk vegamálanna höfum við í Samfylkingunni bent á að eðlilegt sé að skattur af umferð renni líka til umhverfismála. Ég vil taka skýrt fram, einmitt að gefnu tilefni við 1. umr. málsins, þar sem því var haldið fram að Samfylkingin hefði í kosningunum og væri núna að tala fyrir einhverri hækkun á bensíngjaldi með því að tala um umhverfisskatta, þvert á móti tel ég að sú endurskoðun sem mér finnst að við ættum að íhuga alvarlega að fara í, heildarendurskoðun á skattlagningu á bifreiðar, gæti leitt til lækkunar á sköttum á bifreiðar í reynd. Ofurgjaldtaka ríkisins af bifreiðum er óeðlileg og ekki í samræmi við það sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við eins og ég nefndi áður.

Ég heyri að hv. formaður Framsfl. er farinn að opna aðeins munninn þegar ég nefni þetta mál. Það er eins og sú skýrsla sem framsóknarmenn hafa verið að vinna um þetta mál hafi farið fram hjá honum. Þeir hafa skoðað einmitt það sem ég er að tala um, hvort ekki sé rétt og eðlilegt að breyta skattlagningunni á bifreiðar og m.a. að taka upp umhverfisskatta. Ég held að það geti einmitt komið til greina við slíka endurskoðun að leggja af núverandi álögur á bifreiðar sem eru í formi vörugjalds, sérstaks bensíngjalds á hvern lítra bensíns, flutningsgjalds og virðisaukaskatts og taka þess í stað upp umhverfisgjald. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi við 1. umr. að fram hefði farið skoðun á vegum umhvrn. á því hvort þessi leið gæti leitt til minni orkunotkunar og minni útblásturs. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi einmitt að sérfræðingar Framsfl. héldu því fram að breyting á núverandi álögum á bensínsköttum sem breytt yrði í umhverfisgjöld mundi ekki auka skattheimtu á samgöngutæki heldur minnka hana.

Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. fjmrh. hvort á döfinni sé í fjmrn. að taka upp umhverfisskatta. Ég spyr um það að þessu gefna tilefni. Við erum að ræða um álögur á bensín. Til umræðu hafa komið umhverfisskattar við þessa umræðu og ég nefni það líka vegna þess að á vinnufundi efh.- og viðskn. í september sl. kom m.a. hjá fulltrúa fjmrn., sem lagði fram ákveðin gögn undir dagskrárliðnum Umhverfisskattar, fram að það var boðuð áfangaskýrsla vinnuhóps um umhverfisskatta. Þetta er gagn frá fulltrúa fjmrn. þannig að ég geri ráð fyrir því að það hljóta að hafa komið til skoðunar í fjmrn. hvort eigi að taka upp umhverfisskatta. Ég spyr hæstv. fjmrh. um skoðun hans á því og hvort við megum vænta þess að lögð verði fyrir þingið þessi áfangaskýrsla sem hér er nefnd um umhverfisskatta eða hún verði lögð með einum eða öðrum hætti fyrir þingið eða hv. efh.- og viðskn. Alla vega hefur verið hugað að þessum málum í umhvrn. og sennilega líka í fjmrn. og ég tel skynsamlegt að gera það, að við hugleiðum hvort við eigum ekki að setja okkur þau markmið varðandi heildarendurskoðun á skattlagningu á bifreiðar að endurskilgreina markmiðin, til hvaða verkefna skattheimtan á að renna og í hvaða formi hún á að vera.

Út af frammíkalli hv. 3. þm. Vestf., formanns Framsfl., Kristins H. Gunnarssonar, vil ég að það komi skýrt fram að við í Samfylkingunni höfum aldrei haldið því fram að leggja eigi á gróðurhúsaskatt eða koltvísýringsskatt sem leiðir til hækkunar á bensíngjaldi. Við erum ekki að leggja til aukna skatta á bifreiðar. Enn og aftur skal því haldið til haga en það er alveg ljóst að sú starfsemi sem veldur mestu um losun gróðurhúsalofttegunda er stóriðjan sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson stendur að ásamt Framsfl. og honum ber auðvitað að hafa það í huga þegar hann er með þessi frammíköll að við erum ekki á ferðinni með einhverjar sérstakar álögur og skatta á umferðina eða bifreiðaeigendur.

Ég get farið að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég vil þó nefna í lokin og þá í framhaldi af því sem ég ræddi áðan um tekjutap ríkissjóðs á þessu ári vegna lækkunar á nokkrum fyrstu mánuðum þessa árs á heimsmarkaðsverði á bensíni þá kemur fram í samantekt sem ég hef látið taka fyrir mig að á fjárlögum 1999 má áætla að ríkissjóður fái af vörugjaldi af innfluttum ökutækjum, vörugjaldi af bensíni, sérstöku vörugjaldi af bensíni og virðisaukaskatt af því um 11,9 milljarða kr. á þessu ári og kannski mínus 100 millj. eins og fjmrh. nefndi við 1. umr. og síðan gerir áætlun næsta árs ráð fyrir 13,5 milljörðum kr., 13 milljörðum 577 millj. kr. með virðisaukaskatti. Við erum því að ræða um 1.500--1.600 millj. sem ríkissjóður mun hafa í tekjur af þessu sérstaka vörugjaldi og virðisaukaskatti og þessum póstum sem eru á bifreiðar á næsta ári. Ég held að rétt sé að halda því til haga vegna þess að ég geri mér fulla grein fyrir því að sú tillaga sem við erum að leggja til þýðir minni tekjur í ríkissjóð. Hæstv. fjmrh. minnti okkur á það við 1. umr. málsins að hver króna í lækkun þyrfti um 200 millj. Brtt. okkar þýðir um 200--300 millj. kr. lækkun á þessum tekjum sem ég er að gera grein fyrir. Við erum því að fullu meðvituð um það hvað þessi tillaga þýðir.

Í lokin, herra forseti, hef ég mælt fyrir þessari tillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og Guðmundi Árna Stefánssyni sem er þess efnis að af bensíni skuli greiða 97% vörugjald, þó aldrei hærra en 9,30 af hverjum lítra af bensíni sem er 1,20 kr. lægra en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir auk þess sem settur er ákveðinn öryggisventill ef heimsmarkaðsverð á bensíni lækkar.

Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að nóg er komið af álögum á bifreiðaeigendur á þessu ári og áhrif þess á vísitöluna svo dæmi sé tekið sem hefur haft áhrif á það að verðbólguhjólin hafa farið að snúast verulega á þessu ári. Við munum síðan meta það við 3. umr. málsins hvort flutt verður brtt. sem væri þá ákvæði til bráðabirgða um að fram fari heildarendurskoðun á gjaldtöku á bensíni sem ég held að sé löngu tímabært að verði gerð.