Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:49:02 (671)

1999-10-19 15:49:02# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:49]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Út af síðustu orðum ráðherrans, að það sé ekki hægt að taka til samanburðar vörugjald á ökutæki og það sem gerst hefur með vörugjald á bensíni, þá er vissulega hægt að bera þessi gjöld saman í því samhengi sem hæstv. ráðherra stillti sjálfur málinu upp. Hann var að tíunda hér innan við 100 millj. kr. tekjutap á þessu ári vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á bensíni þegar ríkið hefur á sama tíma haft yfir 1.500 millj. kr. meira í tekjur en áætlað var á fjárlögum vegna stóraukins innflutnings á bifreiðum. Þar af leiðandi hefur auðvitað sala á bensíni aukist. Þannig að í því samhengi sem ráðherra stillti málinu sjálfur upp, þá var þetta auðvitað réttur og eðlilegur samanburður sem ég gerði hér áðan.