Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:52:16 (673)

1999-10-19 15:52:16# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var hér að gera tilraun til að útskýra þá brtt. sem ég hef flutt. Mér fannst hann ekki hafa neinu við skýringu mína á tillögunni að bæta. Það er alveg ljóst og ég nefndi það sjálf að hér væri um að ræða brtt. sem lækka mundi tekjur ríkissjóðs en jafnframt væri hér um öryggisventil að ræða til að tryggja að neytendur nytu góðs af því ef heimsmarkaðsverð á bensíni mundi lækka.

Ég spyr hv. þm. hvort hann telur ekki eðlilegt að neytendur, miðað við þá gífurlega ofurskatta sem þeir hafa búið við, ekki síst á þessu ári, njóti líka þess þegar um verður að ræða lækkun á heimsmarkaðsverði á bensíni. Við búum við mestu skatta í Evrópu, þessi þjóð, á bifreiðaeigendur, miklu meiri en annars staðar gerist. Því er eðlilegt, þegar þessi viðmiðun er jafnhá og raun ber vitni eða 10,50 kr. á hvern lítra --- m.a. FÍB, ASÍ og Neytendasamtökin hafa gagnrýnt hana og sagt óeðlilegt að miða við sl. fimm ár --- að setja slíkan öryggisventil.

Ég ítreka spurningu mína til hv. þm.: Telur hann ekki eðlilegt að neytendur græði á lækkun heimsmarkaðsverðs á bensíni en ekki ríkissjóður?