Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:59:59 (679)

1999-10-19 15:59:59# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það væri hægt að svara spurningu hv. þm. með einni setningu: Við viljum breytta forgangsröð í þjóðfélaginu. Við viljum ekki þá stefnu sem Sjálfstfl. hefur staðið fyrir, með Framsfl. í eftirdragi, þar sem allar tillögur og öll frv. sem hér hafa komið fram ganga út á að að breikka bilið milli ríkra og fátækra í þjóðfélaginu og hygla þeim sem eru betur settir. Ég gæti nefnt mörg dæmi þar um.

Við skulum fara út í áhugamál hv. þm., t.d. sölu á ríkisstofnunum. Hægt er að leiða mörg rök að því, t.d. varðandi sölu á bankastofnunum, að þær hafi verið hálfgefnar og hægt hefði verið að fá miklu meira fyrir. Ríkisstjórnin er ríkisstjórn sérhagsmuna en ekki almannahagsmuna. Hún hugsar frekar um þá betur settu en þá verr settu. Það er vel hægt að spila betur úr þeim peningum sem þjóðin hefur yfir að ráða án þess að hækka skatta og breyta forgangsröðun. Ég og hv. þm. höfum bara mismunandi lífssýn og við því er ekkert að gera.