Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:10:05 (684)

1999-10-19 16:10:05# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í fjarveru hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem er fulltrú þingflokks Vinstri hreyfingar -- græns framboðs í efh.- og viðskn., ætla ég að hafa nokkur orð um afstöðu okkar til frv. Við gerðum reyndar grein fyrir því í umræðum við 1. umr. að við styddum þá kerfisbreytingu sem frv. fæli í sér, teldum hana skynsamlega en vildum hins vegar hafa fyrirvara á um reikningslegar forsendur málsins og það hvernig krónutölur og aurar væru stillt af. Með vísan til þess og þeirra fyrirvara sem við höfðum við 1. umr. skrifar hv. þm. Ögmundur Jónasson undir nefndarálit efh.- og viðskn. með fyrirvara.

Ég minni einnig á þær skoðanir sem settar voru fram af okkar hálfu varðandi nauðsyn þess að efla almenningssamgöngur og taka skattlagningu af umferðinni og bílanotkun í landinu inn í stærra samhengi, þ.e. samhengi umhverfismála og þess hvernig við reynum að leggja okkar af mörkum hvað það varðar að mengun aukist ekki úr öllu hófi fram vegna stóraukinnar bifreiðanotkunar og þar á meðal og ekki síst vegna aukinnar eldsneytisnotkunar í umferðinni en staðreyndin er sú að það þarf ekki endilega að fara saman. Það má hugsa sér að bifreiðanotkun geti verið mikil eða aukist án þess að eldsneytisnotkun jarðefnaeldsneytis þurfi að vaxa samsvarandi. Þar má nefna þá möguleika að stuðla að aukinni notkun rafbíla eða bíla sem nota aðra umhverfisvænni orkugjafa en bensín eða dísilolíu og má að sjálfsögðu nefna að stuðla beri með öllum tiltækum ráðum að orkuksparnaði í umferðinni þannig að sem allra minnst sé notað af eldsneyti.

Þá er það viðurkennt, hygg ég, svo ekki verði um deilt að verðið á eldsneytinu eða orkunni skiptir miklu máli. Hjá þeim þjóðum sem hafa búið við hátt orkuverð hefur notkunin breyst í samræmi við það og orkusparneytnir bílar eru hærra hlutfall í umferðinni en annars staðar og öfugt. Alkunna er að Bandaríkjamenn, sem hafa það fyrir trúarbrögð að hafa bensínið á svívirðilega lágu verði leyfi ég mér að kalla það, eru langt á eftir öðrum þjóðum hvað varðar umhverfisviðhorf í þessu efni.

Herra forseti. Afstaða okkar er sú eftir að hafa haft fyrirvara á að við munum styðja frv. af því að við teljum þrátt fyrir allt að þetta sé skynsamleg ráðstöfun. Bæði er skynsamlegt að gera slíka kerfisbreytingu og eins er ásættanleg sú viðmiðun sem þarna er tekin þ.e. að stilla af hið fasta krónutölugjald á bensín sem renna skuli í ríkissjóð miðað við nokkurra ára meðaltal sem frv. byggir á, þ.e. undanfarin fimm ár, þó að auðvitað megi endalaust velta fyrir sér hvort önnur tímabil og þá fyrst og fremst lengri tímabil til að jafna út sveiflur ættu rétt á sér.

Nú hef ég ekki skoðað það svo nákvæmlega en mér er til efs að það mundi breyta mjög miklu þó að þarna yrði tekið inn lengra meðaltal, sennilega ef eitthvað er mundi það leiða til hækkunar á gjaldinu.

Ég held hins vegar að þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunum varðandi skattlagningu á umferðina almennt eigi að sjálfsögðu fyllilega rétt á sér. Það hefur oft komið fram áður í umræðum á Alþingi að þörf væri á því að fara yfir þau mál rækilega og í heild sinni og móta skýrari stefnu í þeim efnum. Það hefur á köflum verið næsta tilviljanakennt hvernig þessir hlutir hafa ráðist við afgreiðslu fjárlaga eða ákvarðanir á upphæðum t.d. við afgreiðslu laga um þungaskatt eða annað slíkt. Þó hefur verið viðleitni á köflum til þess að hafa umhverfismálin með og þar nefni ég t.d. þær breytingar sem gerðar voru á álagningu bensíngjalds í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar þegar hafin var mismunun á gjaldtöku á blýlausu bensíni annars vegar og bensíni með blýi hins vegar sem leiddi til þess á skömmum tíma að blýmengað bensín hvarf af markaði, sem hefur síðan aftur leitt til nokkurra erfiðleika hjá eigendum Ford-bíla en það er önnur saga.

[16:15]

Herra forseti. Nokkur orð um þá brtt. sem hér er flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleirum á þskj. 110. Ég get ekki stutt þessa brtt. og reikna ekki með því að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs greiðum henni atkvæði okkar. Fyrir því eru þær ástæður að ég tel að þessi nálgun sé ekki skynsamleg, sérstaklega ekki frá umhverfislegu sjónarmiði. Að velja sem þak á bensíngjaldið í krónutölum þann botn sem kom í bensínverð á árinu 1998 væri sjónarmið út af fyrir sig ef menn vilja minnka þessa gjaldtöku. Það er nokkuð ljóst að sú lækkun yrði langt umfram það sem verið hefur á undanförnum árum. En að ætla til viðbótar að láta gjaldið lækka meira, ef bensínverðið yrði einhvern tíma enn lægra en það var að meðaltali á árinu 1998, tel ég ekki skynsamlegt. Þá væru menn komnir lengra en góðu hófi gegnir í að lækka verðið á þessu eldsneyti sem hefur umtalsverða mengun í för með sér. Umferðin á Íslandi er einn af nokkrum stóru megunarvöldunum þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. Það er hollt fyrir okkur að hafa í huga að við eigum þar óleyst ýmis verkefni svo að Ísland geti borið höfuðið, þó að maður segi nú ekki hátt, svona nokkurn veginn á réttum stað í samfélagi þjóðanna varðandi þátttöku okkar í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókuninni við þann samning.

Ég held að menn verði að hafa í huga að bensínverðið á síðari hluta ársins 1998 og reyndar fram á fyrri hluta árs 1999 var í sögulegu lágmarki. Mér er nær að halda að fara þurfi aftur fyrir olíukreppu númer tvö, ef ekki olíukreppu númer eitt, þ.e. allt aftur til fyrstu ára 8. áratugarins til þess að finna lægra bensínverð á heimsmarkaði. Ég teldi það ekki rétt skilaboð að snúa svo langt til baka með gjaldtöku af þessu tagi. Það er langur vegur frá því að láta bensínverðið fylgja í prósentutölum upp á við, jafnvel upp í toppa eins og nú á haustmánuðum.

Satt að segja hef ég ekki mikla trú á því að af því hlytust mikil áhrif að samþykkja þessa brtt. önnur en þau að þakið einfaldlega lækkar úr 10,56 kr. á lítra niður í 9,30 og mundi vera þar. Ég hef sáralitla trú á því að bensínverð eigi eftir að fara enn neðar á komandi árum og prósentureglan sem hv. þm. leggja til að taki þá við. Ég tel sáralitlar líkur á því. Ég held að almennt sé talið að líkur séu á að heimsmarkaðsverðið þokist upp á við. Í raun þarf það að gerast. Þetta óeðlilega lága verð á jarðefnaeldsneyti er bölvaldur fyrir mannkynið. Það tefur fyrir því að þróun annarra orkugjafa komist á skrið. Það er enginn vafi á því að ef verð á olíuvörum hefði haldist hærra undanfarin ár þá væru menn komnir lengra áleiðis ósköp einfaldlega vegna þess að þá hefði samkeppnisstaða annarra orkugjafa verið sterkari. En jafnvel þótt það komi ekki til þá er það t.d. mat Norðmanna að bensínverðið hljóti að hækka að breyttu breytanda á komandi árum vegna þess að vinnslan á fjölmörgum svæðum sem nú eru að koma inn í framleiðslu á bensíni í heiminum er dýrari en var í olíulindum á þurru landi. Það þarf auðvitað ekki mikla speki til að sjá að það að reisa og reka risamannvirki eins og olíuborpallana á hafi úti er meira fyrirtæki en að dæla þessu fyrirhafnarlaust upp úr jörðinni. Það gengur á þær olíulindir sem þannig háttar til um og fleiri og stærri svæði eru að koma inn í myndina þar sem vinnslan er mun dýrari. Það mun kalla á, eigi sú vinnsla yfir höfuð að standa undir sér, að heimsmarkaðsverðið verði eitthvað hærra. Ég held að það sé ágætlega ásættanlegt fyrirkomulag og reyndar miklu sanngjarnara að ríkissjóður hafi þarna fastan tekjustofn sem sé þá breytt með ákvörðunum á Alþingi en ekki hlutfallslega álagningu eins og verið hefur.

Þá deilir ríkissjóður einnig kjörum eða örlögum með Vegasjóði sem hefur búið við það fyrirkomulag um árabil að tekjur í Vegasjóð hafa verið föst krónutala sem eingöngu hefur breyst með pólitískum ákvörðunum eða vegna þess að bensínsala hafi aukist.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, láta það álit mitt í ljós að brýnt sé að móta á Íslandi stefnu um skattlagningu á umferðina og hvernig tekjum af þeirri skattlagningu skuli ráðstafað. Skattlagningin er vissulega mikil, það er alveg hárrétt. Ísland er í hópi þeirra landa sem skattleggur umferð hvað mest. Ég get alveg tekið undir það að því þarf að stilla í hóf vegna þess að þetta er útgjaldaliður hjá öllum venjulegum fjölskyldum í landinu. Mér er þó ekki síður umhugað um, og okkur mörgum, þau útgjöld sem af þessu hljótast fyrir þá sem eru aðstæðna sinna vegna algerlega nauðbeygðir til þess að reka bíl eða jafnvel bíla. Ég nefni þar að sjálfsögðu íbúa landsbyggðarinnar og við getum líka tekið fatlaða eða aðra sem þurfa nauðsynlega á slíkum tækjum að halda aðstæðna sinna vegna.

Ég hef auðvitað oft velt því fyrir mér hvort einhver leið væri til þess að gera skattalegan greinarmun á einum venjulegum fjölskyldubíl fyrir hverja fjölskyldu og bifreiðaeign umfram það. Fyrir því væru mörg sanngirnisrök. Auðvitað er fjölskyldubíllinn hluti af lífi okkar í landinu og okkar veruleika. Hitt er svo annað mál hvort það sé jákvætt eða þróun sem við eigum að stuðla að að gleðjast yfir að það hlaðist upp bíll númer tvö, þrjú og fjögur á heimilunum og að eitt helsta vandamálið við suma framhaldsskólana á höfuðborgarsvæðinu sé ekki kennslan eða húsnæðisskortur heldur skortur á bílastæðum eins og kunnugt er. Það mun vera einna mestur hausverkur þeirra sem standa fyrir slíku skólahaldi í Kópavogi. Þar er slíkur grenjandi skortur á bílastæðum að það veldur stórkostlegum vandræðum.

Ég held að ef það yrði niðurstaða okkar --- og ég geri ekkert lítið úr þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir setti fram í þeim efnum --- að menn temji sér hóf í þessari skattlagningu þá ættu menn frekar að bera niður í að lækka rekstrarkostnað heimilisbílsins með öðrum hætti en lækka eldsneytisverðið. Það ætti að vera það síðasta sem við gripum til að lækka, einfaldlega vegna umhverfisáhrifa. Við þurfum að hvetja til orkusparnaðar. Við þurfum að hvetja til að keyptir séu eins sparneytnir bílar og það væri þá skynsamlegra að gera með lækkun t.d. aðflutningsgjalda á sparneytnum bílum og venjulegum fjölskyldubílum eða með einhverjum öðrum ráðstöfunum sem þýddu lækkun á kaupverði og/eða rekstrarkostnaði slíkra bíla. Við ættum síður að fara út í að lækka sérstaklega álögur á eldsneytið.

Það væri freistandi, herra forseti, að taka inn í þetta mál umræður um umhverfisskatta sem hér hefur aðeins borið á góma en það er í raun og veru stærra mál en svo að það sé kannski skynsamlegt að fara að taka í það einhverjar mínútur. Ég minni þó bara á að slík pólitík þarf ekki endilega að fela það í sér að skattbyrðin sé aukin í stórum stíl frá því sem hún nú er. Hún getur ekki síður og kannski enn frekar falið í sér breytta ráðstöfun teknanna, að umhverfismálin séu tekin inn í myndina með því að við tökum eitthvað af þeim tekjum sem núverandi skattlagning á umferðina skilar og verjum þeim í þágu umhverfismarkmiða. Að sjálfsögðu er það einnig gilt.

Reyndar minni ég á að samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum eru skattar á bifreiðar nú þegar umhverfisskattar. Þeir standast þær kröfur sem gerðar eru, viðmiðunarreglur t.d. OECD mundu væntanlega þýða það að núverandi bensíngjöld teldust grænir skattar í þeim skilningi að þau eru lögð á mengandi starfsemi. En við gætum gert þá enn grænni ef við tækjum af þeim tekjum sem umferðin er að skila og verðum t.d. til að efla almenningssamgöngur, til að draga úr einkabílarekstrinum eða einkabílismanum eins og það er nú stundum kallað á vondu máli. Hann er auðvitað gríðarlegt vandamál og hausverkur. Einkabíllinn er okkur dýr samanber þær ævintýralegu tölur sem nefndar eru um kostnað við umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur að 10--15% aukning umferðar til viðbótar því sem hér er á ferðinni á afmörkuðum tímum sólarhringsins getur ráðið úrslitum um að í staðinn fyrir venjuleg gatnamót þarf að byggja mislæg sem kosta hálfan milljarð króna. Reyndar er það nú líka umhugsunarefni hvernig ákvörðunartöku um slíkt er háttað, hver tekur um það ákvörðun að ein gatnamót séu mislæg en ekki hefðbundin? Hver borgar reikninginn? Ég held að hæstv. fjmrh. ætti kannski aðeins að kíkja á það ef í hlut á þjóðvegur í þéttbýli. Þá er ég kannski kominn svolítið frá efninu en þó ekki mikið. Allt er þetta þó spurning um umferðina, hvernig henni er stýrt og hvernig hún dreifist. Það er ekki sjálfgefið að við aðlögum okkur að bandarískum hugmyndum um að bíllinn eigi réttinn umfram umhverfið. Ég held að við eigum ekki síður að horfa til annars sem snýr að umhverfinu, hollustu og heilnæmi þess umhverfis sem við búum í og ráðstöfunum til að þetta fari allt svona skaplega saman.

Herra forseti. Okkar niðurstaða er sú að við styðjum þetta frv.