Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:53:21 (692)

1999-10-19 16:53:21# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við bætum okkur ekkert á því að karpa meira um þessa viðmiðun. Það er alveg ljóst að við erum ósammála um hana. Ég hef fært rök mín fyrir málinu og þau rök ein ættu út af fyrir sig að nægja að bensínlítrinn hafi hækkað úr 70 í tæpar 90 kr. á þessu ári. Það er bara komið að því að bifreiðaeigendur fái að njóta einhverrar lækkunar á bensínverði sem hægt er að treysta að sé ekki bara tímabundin og í skamman tíma heldur sé eitthvað varanleg. Frv. hæstv. ráðherra tryggir okkur ekki að það sé varanleg lækkun sem bensíneigendur eru að njóta núna.

Að því er varðar ákvæði til bráðabirgða sem ég hef nefnt og heildarendurskoðun á bifreiðasköttum og umhverfissköttum þeim tengdum er alls ekkert óeðlilegt við það þó að í ákvæði til bráðabirgða komi slíkt. Hæstv. ráðherra er það þingvanur að hann þekkir það að það er alvanalegt þegar óánægja ríkir almennt um stefnumörkun í ákveðnum málaflokkum að þó að það sé ekki tímabært á þeirri stundu sem ákveðið frv. er samþykkt eða leiðréttingar er verið að gera að farið sé fram með slíkt ákvæði um heildarendurskoðun. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um að það er almenn óánægja með hvernig skattlagningu er háttað á bifreiðar í landinu, löngu tímabært að fara að endurskoða það og fara að íhuga hvernig á að fara út í það að vernda umhverfið og hvernig við getum fjármagnað það og hvaða leiðir við getum farið fram með í því efni.

Það er ekkert óeðlilegt að boða slíkar brtt., að Alþingi marki stefnuna hvaða leið það vill fara í þessu og feli framkvæmdarvaldinu að fara í ákveðna heildarendurskoðun á bifreiðasköttum í landinu. Ég vil ítreka það, herra forseti.