Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:57:04 (694)

1999-10-19 16:57:04# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Af því að ég hafði ekki tækifæri til þess að svara hæstv. fjmrh. þar sem hann kom fram í andsvörum, ég hafði ekki tækifæri til að svara því sem hann fór rangt með, þá hafði ég ekki önnur tök en að biðja um orðið vegna þess að ég vil ekki láta það standa eftir í lok umræðunnar sem hæstv. fjmrh. sagði. Hann misskildi orð mín mjög hér áðan þar sem hann sagði að ég væri að tala um að væri almenn óánægja með þetta frv. Ég var ekki að tala um neina almenna óánægju með þetta frv. Flestir fagna því skrefi sem hér er stigið þó að ágreiningur og deilur séu um þá viðmiðun sem er sett fram af hæstv. ríkisstjórn og þá aðferð sem notuð er.

Það sem ég var að tala um, herra forseti, er að ég tel að almenn óánægja sé með skattlagninguna á bifreiðar hér á landi sem er miklu hærri en annars staðar. Það var það sem ég var að tala um, herra forseti, og vil ekki skilja svo við þessa umræðu að sá misskilningur sé uppi sem hæstv. ráðherra hér nefndi vegna þess að auðvitað er þetta frv. skref í rétta átt þó ég hefði kosið aðra aðferð og aðra viðmiðun en hér er lögð fram. Ég hygg að ég tali fyrir munn margra hér á landi um að það sé almenn óánægja með hve mikil skattlagning er á bifreiðar hér á landi.