Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:59:30 (695)

1999-10-19 16:59:30# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Hér er verið að taka til umfjöllunar ályktun um sérstakar aðgerðir í byggðamálum sem er hið þarfasta mál. Helstu andmæli sem menn gætu haft uppi við þessum tillögum í tólf liðum væru þau t.d. að segja að 4--5 milljarðar séu mikið fé og setji fjárlögin fyrir næsta ár í uppnám.

[17:00]

Nú er vitað að byggðamálin og sú þróun sem þar hefur átt sér stað kostar þjóðina geysilegt fé. Það var nýlega upplýst af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að þau teldu að þau þyrftu að leggja út nokkra milljarða á ári hverju vegna aðflutnings fólks af landsbyggðinni. Jafnvíst má telja að sá flótti sem er frá byggðakjörnum víða að á landinu og sú röskun sem þar á sér stað kosti ríkið mikið. Ég tel því að þó að hér séu gerðar tillögur um verulega fjármuni til aðgerða í byggðamálum sé í raun þegar upp væri staðið ekki verið að búa til útgjöld sem ella hefðu ekki komið fram einhvers staðar annars staðar. Ég held að menn þurfi að horfa á málið í því ljósi að fjárfesting í þá veru sem hér er lögð til í mörgum liðum mundi skila sér fyrir framtíðina.

Ég lít t.d. ekki svo á að fjárfesting í vegamálum, fjárfesting í mannvirkjagerð, eins og jarðgöngum eða bættum samgöngum, sé fjárfesting sem ekki skili sér. Það er varanleg fjárfesting. Það er svipuð fjárfesting og þegar fyrirtæki eru að festa fé í einhverju sem kemur þeim virkilega til hagsbóta. Þannig held ég að við eigum að líta á varanlega vegagerð.

Það hefur einfaldlega sýnt sig við gerð þeirra jarðganga sem gerð hafa verið á undanförnum árum, t.d. Vestfjarðagöngin og Hvalfjarðargöngin, að þar er um verulega samgöngubætur að ræða, samgöngubætur sem verða þess valdandi að samskipti fólks aukast mikið, tími fólks nýtist betur, minni orka er notuð o.s.frv. Því held ég að þegar upp er staðið verði menn að líta á slíkar samgöngubætur sem varanlega eign þjóðarinnar en ekki beri að líta á þær sem sérstök útgjöld eins og menn vilja oft líta á sem eitthvert eyðslufé. Við erum að festa peninga í arðsömum framkvæmdum.

Okkur er það mikil nauðsyn að snúa þeirri þróun við sem hefur átt sér stað hér á landi á undanförnum árum í byggðamálunum og fækkun fólks á landsbyggðinni. En þá komum við auðvitað að mjög mikilvægu máli í þessari byggðamálaumræðu allri og reyndar er vikið að í 10. lið tillögunnar þar sem talað er um að hraða verði stefnumótun í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Eins og öllum er kunnugt í þessum sal á Frjálslyndi flokkurinn ekki aðild að þeirri nefnd sem sett var á laggirnar til að skoða stefnuna í sjávarútvegsmálum. Við munum því eðlilega setja fram áherslur okkar varðandi sjávarútvegsmálin og koma fram með þær. Eftir sem áður getum við vissulega tekið undir það að hraða þarf stefnumótun í báðum þessum málaflokkum, bæði landbúnaðar- og sjávarútvegsmálunum.

Í mínum huga er það í rauninni aðallega þrennt sem landsbyggðin þarf að geta fest hönd á í sinni tilveru í dag. Landsbyggðarfólk þarf að geta fest hönd á því að aflaheimildirnar séu ekki á fleygiferð út úr byggðarlögunum, að einhver festa sé fyrir byggðinni. Á landbúnaðarsvæðunum þurfa menn að geta fest hönd á því að þeir geti búið að sínum og haft afkomu og tekjur af landbúnaði. Það er nauðsynlegt. Og það verður að fara að búa til stefnu sem gerir það að verkum að bændur séu ekki við fátæktarmörk á stórum svæðum landsins. Í þriðja lagi tel ég að varanlegar samgöngubætur sem stytta vegalengdir milli þéttbýlisstaða, milli landsvæða og landshluta, séu eitthvað það besta sem við getum gert til að stuðla að viðhaldi og viðgangi byggðar úti um landið. Þetta þrennt held ég að séu meginatriði sem verði að vera nokkuð föst og nokkuð örugg til að fólk hafi vissu fyrir því að geta búið í sínu byggðarlagi. Ég held að sú óvissa sem núna fylgir t.d. fiskveiðistjórnarkerfinu sé eitt stærsta meinið sem veldur því óöryggi og því ósætti fólks um að það treysti sér ekki til að vera áfram á landsbyggðinni. Þetta birtist í því að ef fólk hugsanlega getur fundið góða atvinnu annars staðar á landinu, jafnvel þó að það hafi ekki sérstaklega mikinn áhuga á að fara af landsbyggðinni, þá stekkur það til og festir sér atvinnu og húsnæði ef það á þess kost. Þetta veldur því auðvitað að það er hraðari flótti af landsbyggðinni en ella væri.

Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt grein fyrir því hvernig fiskveiðistjórnarkerfið okkar virkar í ýmsum smáatriðum sem menn taka þó ekki mikið eftir. Ég ætla að setja upp eitt örstutt öfgadæmi svo fólk átti sig á því hvað ég er að tala um.

Á undanförnum 10--20 árum hefur það verið þannig að frystitogarafloti landsmanna hefur verið að eflast. Ekki þurfa menn svo sem neitt að hallmæla því í sjálfu sér. Þetta eru skip sem hafa búið til mikil verðmæti og afkastað miklum afla og iðulega sótt í tegundir sem við hefðum ella ekki getað sótt til og var í raun og veru mjög eðlileg þróun að hvetja þá til að takast á við það verkefni að stækka auðlind Íslendinga. Frystitogararnir hafa tekið það að sér og t.d. hafið veiðar á Reykjaneshryggnum á úthafskarfa og ná þar 45 þús. tonna karfaafla á hverju ári, þetta er ákveðið verkefni sem þeir hafa. Þeir stunda veiðar á þessari tegund í tvo til þrjá mánuði á ári.

Nú ætla ég setja upp dæmi sem ég er ekki viss um að menn hafi sett í það samhengi sem ég ætla að setja það í. Segjum nú svo að Alþjóðahafrannsóknaráðið ákveði að skera niður úthafskvótann á Reykjanesinu, minnka hann úr 45 þús. tonnum niður í 20 þús. tonn, segjum það bara, og það hafi verið samþykkt af annarri alþjóðastofnun sem heitir Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin, NEFAC, að þannig skuli staðið að málum. Þá stöndum við allt í einu frammi fyrir því að þennan afkastamikla flota vantar verkefni, eins til tveggja mánaða verkefni. Á það þá að vera alveg sjálfvirkt í kerfinu í dag að af því að þennan flota hefur vantað eins til tveggja mánaða verkefni, þá skuli það vera nærtækast fyrir viðkomandi útgerðarmenn að leggjast í það að kaupa upp kvóta í einhverjum sjávarútvegsfyrirtækjum til þess að leggja byggðina af? Finnst mönnum þetta einhver útfærsla sem passar byggðinni í landinu? Passar það einhvern veginn saman ef skorinn er niður aflakvóti og verkefni minnkuð hjá frystitogaraflotanum okkar og menn þurfa að finna sér önnur verkefni að þá skulum við vera með þannig fiskveiðistjórnarkerfi að þessi afkastamikli floti geti keypt upp kvóta af nánast hvaða trillu eða smábát sem er í sama kerfi og þeir? Það er ekkert sem stoppar það af. Þeir geta þess vegna keypt upp á einu bretti allan kvótann á Þórshöfn svo dæmi sé tekið ef hann væri til sölu. Eða þá það litla sem eftir er á Bíldudal og þannig koll af kolli. Það eru ýmis atriði í fiskveiðistjórnarlögunum okkar sem eru ekki í lagi og við þurfum virkilega að skoða það hvernig áhrif frjálst framsal kvótans getur haft á byggðir landsins og það verður að setja við þessu skorður.

Ég vil ekki trúa því fyrr en ég tek á því að þegar menn fara að skoða þetta í raunveruleikanum, þá sjái menn ekki hvers konar tilviljanaaðferð er í rauninni byggð inn í fiskveiðistjórnarkerfi okkar um það hvar og hvenær aðgerðir einstakra manna lenda á viðkomandi byggðarlögum. Við erum að tala um byggðastefnu og tala um að útfæra og styrkja byggðirnar. Á sama tíma er í gangi fiskveiðistjórnarkerfi þar sem ekki er nokkur stjórn á því hvar höggið lendir, hvaðan aflinn færist og hvenær. Þetta er náttúrlega gjörsamlega óásættanlegt og í raun og veru alveg furðulegt að heyra að stjórnarflokkarnir skuli berja hausnum við steininn um það og fullyrða að ekki megi breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Hvernig ætla menn að taka á vanda landsbyggðarinnar ef þeir treysta sér ekki til að taka á vanda fiskveiðikerfisins?

Ég var einungis að setja þetta atriði í svona öfgafullt samhengi til að draga það fram að jafnvel sú tillaga að erlend stofnun ákveður að skera niður kvóta hér 200 mílur vestur af landinu getur orðið til þess að rústa byggð norður á Langanesi, svo dæmi sé tekið. Þetta er dæmi sem er þó fyllilega eðlilegt að setja upp vegna þess að útgerð frystiskipanna okkar er eign stærstu og öflugustu fyrirtækjanna og það eru einmitt þau fyrirtæki sem hafa mest fjármagn til að kaupa til sín aflaheimildir ef þau þurfa á því að halda.

Þetta vildi ég láta koma fram í umræðunni um þessi mál. Ég tel að að efni til eigi tillagan fyllilega rétt á sér og þó að hér sé talað um mikla fjármuni þá held ég að þeim fjármunum væri vel varið. Þeir mundu ella koma fram einhvers staðar annars staðar og þess vegna mun ég mæla með þessari tillögu.