Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 17:28:18 (698)

1999-10-19 17:28:18# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[17:28]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið um þessa tillögu og fagna sérstaklega viðveru hæstv. forsrh. og vona að við fáum að heyra til hans undir lok umræðunnar. Ég mun beina til hans nokkrum spurningum í tengslum við málið og þá tillögu sem verið er að ræða, till. til þál. um sérstakar aðgerðir í byggðamálum, þar sem í 12 tölusettum liðum er lagt til að gripið verði til viðamikilla ráðstafana til að bæta almennar grundvallarforsendur og aðstæður fólks á landsbyggðinni og reyna að jafna þann aðstöðumun sem er undirliggjandi orsök í mjög mörgum tilvikum fyrir því að fólk kýs að flytjast þaðan búferlum.

Ég vil taka undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að stefnan hvað málefni grundvallaratvinnuvegi landsbyggðarinnar varðar er hér mjög veigamikill þáttur. Engin leið er að horfa fram hjá því að ástæða erfiðleikanna í t.d. mörgum sjávarbyggðum, sérstaklega í minni sjávarbyggðum sem hafa farið halloka í því samkeppniskerfi og fyrirkomulagi framsals á veiðiheimildum sem menn hafa búið við er tengd því fyrirkomulagi. Hún er tengd stefnunni í þeim málaflokki.

Enn augljósara er það auðvitað að erfiðleikar landbúnaðarins og fækkun í sveitum landsins er tengd þeim mikla samdrætti sem hefur verið í þeirri atvinnugrein á undanförnum 15--20 árum og ekki bara erfiðleikar sveitanna. Þess sér líka stað í erfiðleikum fjölmargra þjónustukjarna, þéttbýlisstaða á landsbyggðinni sem voru mjög háðir úrvinnslu og þjónustu við landbúnað þannig að þetta er að sjálfsögðu nátengt.

[17:30]

Ég sakna hv. þm. Samfylkingarinnar sem hafa ekki blandað sér í umræðuna undir þessum dagskrárlið, t.d. hv. þm. Kristjáns L. Möllers sem hins vegar tók hér upp umræðu utan dagskrár um byggðamál í miðri þessari umræðu. Ég hefði haft áhuga á því að heyra viðhorf hv. þm. Samfylkingarinnar til aðgerða af þessu tagi. Hér er ekki aðeins látið nægja að lýsa óánægju með ástandið, það gætum við víst öll gert, heldur eru líka lagðar til aðgerðir. Niðurstaða okkar var sú að við vildum leggja til það sem við gætum hugsað okkur að gera. Við erum ekki feimin við að sýna á þau spil, að við værum tilbúin að beita þeim stjórntækjum sem stjórnmálamenn hafa í höndunum og einkum og sér í lagi ráðstöfun opinberra fjármuna til að reyna að spyrna þarna við. Við erum sannfærð um að það er leitun að betri fjárfestingu en þeirri að reyna allt sem mögulegt er til þess að snúa við því óheilla- og ófremdarástandi sem þarna er.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að í raun er alltaf að bætast í þær ískyggilegu aðstæður sem við okkur blasa í þessum efnum. Nánast daglega berast okkur nýjar upplýsingar um hve grafalvarlegt ástandið er. Það er sama hvort það eru mánaðarlegar nýjar tölur frá Hagstofu Íslands um fólksflutningana af landsbyggðinni eða þær upplýsingar sem komu í fjölmiðlum í gær og í morgun um nýja vinnumarkaðs- eða atvinnukönnun Þjóðhagsstofnunar. Ég vil leyfa mér að inna hæstv. forsrh. eftir því hvað honum sýnist um þær vísbendingar sem þar koma fram og benda til þess að ástandið hafi gjörbreyst til hins verra á einu ári, frá því sambærilegar niðurstöður voru birtar eftir septembermánuð 1998.

Könnun Þjóðhagsstofnunar sýnir að aukin eftirspurn eftir vinnuafli kemur öll fram á höfuðborgarsvæðinu. Þar vildu atvinnurekendur fjölga starfsfólki um 745 en á landsbyggðinni vildu atvinnurekendur fækka starfsfólki um 210. Út þessu verður sem sagt mjög mikil breyting frá því sem var í fyrra. Eftirspurn eftir vinnuafli hér á þessu svæði hefur ekki mælst meiri í áratug en að sama skapi eru þetta mjög alvarlegar vísbendingar um hversu mikill samdrátturinn er á landsbyggðinni. Þar er t.d. mjög sláandi að eftirspurn eftir vinnuafli er minnkandi í flestum atvinnugreinum, mest þó í byggingarstarfsemi og þjónustugreinum. Í byggingarstarfseminni er þetta vegna þess að það eru bara alls engar framkvæmdir, einstaklingar byggja ekki og framkvæmdirnar greinilega það litlar að byggingariðnaðurinn er að skreppa saman enn frekar en orðið var á landsbyggðinni. Hitt er auðvitað ekki síður svakalegt að helsta vaxtargrein atvinnulífsins sem verið hefur á umliðnum árum og verður væntanlega áfram, þjónustan, er líka að dragast saman í stórum stíl úti á landi. Það eru mjög ískyggileg skilaboð.

Þetta segir okkur held ég líka að ef menn vildu grípa til einhverra ráðstafana vegna þenslu og verðbólguhættu þá væri sennilega engin ein aðgerð eins markviss í þeim efnum og sú að reyna að draga úr þeirri spennu sem vinnumarkaðskönnunin hér á þessu svæði sýnir, en auka framkvæmdir úti á landi. Hér er þensluhættan og spennan. Hér eru þær greinar sem eru að sprengja þetta upp, byggingariðnaðurinn og ýmsar þjónustugreinar. Vilji hæstv. ríkisstjórn, eins og raunar liggur fyrir, reyna að grípa þarna til aðgerða þá er ekki nóg að gera það sem þegar hefur verið ákveðið, að draga lítils háttar úr framkvæmdunum hér og bremsa þær eitthvað af, heldur verði líka að jafna þetta á hina hliðina. Að auka við framkvæmdirnar úti á landi. Jafnvægisleysið í þessum efnum er greinilega enn þá meira en menn höfðu talið hingað til og það hefur versnað milli ára. Hvað getum við ætlað annað en að byggðaröskunin verði enn svakalegri á næstu mánuðum en hún hefur verið hingað til, ef þær breytingar sem endurspeglast í viðhorfum forustumanna í atvinnulífinu senda okkur þessi skilaboð milli ára? Eftirspurnin er orðin neikvæð úti á landi. Það sneri öfugt í fyrra þó í litlu væri en hún hefur enn þá aukist hér og er mikil, nánast í öllum greinum atvinnulífsins.

Ég held, herra forseti, að menn þurfi að átta sig aðeins á því hversu stór orsakavaldur þessir miklu flutningar inn á þetta svæði, höfuðborgarsvæðið, eru í raun og veru fyrir þenslunni. Hvers vegna er byggingariðnaður jafnbólginn og raun ber vitni hér á höfuðborgarsvæðinu? Það er ekki bara vegna þess að hér hafa verið miklar opinberar framkvæmdir og ýmsar stórframkvæmdir í gangi. Auðvitað hefur það mikil áhrif en það er líka vegna þess að fólksfjölgunin á þessu svæði er afbrigðilega mikil. Mér er til efs að finnanleg séu mörg dæmi um að fólki fjölgi hraðar á einu landsvæði en hér. Ef við förum aðeins yfir það hvernig þetta blasir við núna þá lítur út fyrir að um 2.000 manns muni bætast inn á þetta svæði af landsbyggðinni, þ.e. að 2.000 muni flytjast hingað umfram þá sem héðan flytjast. Síðan má ætla, miðað við tölur fyrstu átta, níu mánuðina, að um 500--700 manns í viðbót komi frá útlöndum. Þeir setjast að hér miðað við þessar tölur. Þá erum við komin í u.þ.b. 2.500--2.700 manns sem bætast við inn á þetta svæði annars vegar af landsbyggðinni og hins vegar frá útlöndum. Þá er eftir náttúruleg viðkoma hér á svæðinu, fjölgunin hér sem auðvitað sest að hér í öllum aðalatriðum. Við skulum reikna með að hún verði svipuð að meðaltali og undanfarin ár, þ.e. um 0,7%. Þá reiknast mér svo til að þar bætist enn við um 1.100--1.200 manns. Hér á þessu svæði bætast við á hverju ári, af landsbyggðinni, frá útlöndum og vegna náttúrulegrar viðkomu, eitthvað í kringum 3.500 manns. Það er mikil fjölgun, þó að hér séu 160 þús. íbúar eða hvað það er. Það eru eitthvað á milli 2 og 2,5%. Það þýðir að hér verður viðvarandi spenna, t.d. á húsnæðismarkaði. Þetta mjög óvenjulega mikil fjölgun. 0,7% fjölgun íbúa í einu landi eins og við höfum búið við undanfarin ár, farið upp í 1%, niður í kannski 0,7%, er ein hin mesta í Evrópu. Og þar er ekkert óalgengt að íbúafjöldi standi í stað, þeim fjölgi um 0,2% eða sé jafnvel í mínus eins og í Þýskalandi. Þá eru auðvitað nettóáhrifin á íbúðamarkaði þau t.d. að það þarf ekki að byggja nema sem svarar nokkurn veginn viðhaldi og endurnýjun húsnæðis. Hér þarf hins vegar að byggja yfir 2--3% í viðbót á hverju einasta ári plús það að halda gamla húsnæðinu við o.s.frv. Svona aðstæður eru dæmdar til þess að halda uppi þenslu með öllum þeim margfeldisáhrifum sem af því hljótast.

Ég vil einnig, herra forseti, eins og hv. síðasti ræðumaður, Þuríður Backman, fagna þeirri skýrslu sem við höfum fengið í hendur. Hún var unnin af Iðntæknistofnun í samstarfi Byggðastofnunar og forsrn. og ég hef verið að blaða í gegnum hana. Ég held að þetta sé hið merkasta plagg og þar sé komin af stað vinna sem að vísu hefði mátt fara fyrr af stað en gefur okkur grunn til að skoða raunhæfar aðgerðir í að flytja verkefni, störf og tekjur út á land. Ég fagna þessu sérstaklega og vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvernig hann hyggst fylgja eftir þessari skýrslu. Ég minni á að í tillögu okkar, tölul. 8, er einmitt gert ráð fyrir að verja fjármunum sérstaklega, 150 millj. kr. á næsta ári, til að stuðla að og standa straum af því að færa verkefni út á land. Í skýrslunni eru þeir kostir sem í boði eru flokkaðir eftir því hvort unnt er að ráðast í þá tafarlaust og án verulegra útgjalda eða hvort að þeim fylgir einhver stofnkostnaður og það er þá flokkur B. Þá er einmitt nauðsynlegt að hafa fjármuni milli handa til þess að ráðast í þann stofnkostnað.

Reynslan frá fyrirtækinu Íslensk miðlun sýnir okkur hvað hægt er að gera ævintýralega hluti þar sem vinnustaðir hafa verið að spretta upp í fjölmörgum byggðarlögum landsins. Það er auðvitað virkilega ánægjulegt og gleðilegt að fylgjast með því. En maður hlýtur að segja: Úr því að einkafyrirtæki getur gert slíka hluti, hvað þá með allan opinbera geirann sé þar vilji og metnaður fyrir hendi til að nota sömu tækni og hugsun til dreifa verkefnum? Auðvitað á að fara í þetta eins og hér er lagt til, lið fyrir lið, verkefni fyrir verkefni, skoða hverja stofnun og hvern flokk fyrir sig. Niðurstaðan verður væntanlega sú að það er ekkert því til fyrirstöðu að t.d. þjóðskráin verði færð á Húsavík eða stór hluti af skráningarvinnu Tryggingastofnunar ríkisins á Seyðisfjörð, svo einhver dæmi séu tekin af handahófi. Ég veit að víða úti um land binda menn vonir við þetta mál og bíða eftir því hvað verður með framkvæmdina, t.d. svo ég nefni aftur fyrirtækið Íslenska miðlun. Vonandi er ég ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli þar þó ég segi að þar eru menn með hugmyndir um að segja á fót enn frekari starfsemi, t.d. á stöðum eins og Hrísey eða í Ólafsfirði, þar sem menn hafa orðið fyrir áföllum í atvinnulífinu. Það kæmi auðvitað eins og himnasending að fá þar nýja vinnustaði og störf í staðinn fyrir þau sem hafa tapast þar.

Ég vona að um þetta fáist umfjöllun á Alþingi í vetur, hvort það er sérstaklega á grunni þessarar tillögu eða með öðrum hætti verður ekki sáluhjálparatriði. Alþingi verður ástandsins vegna að taka virkilega á í þessu máli og taka sér tíma í að fara rækilega í gegnum það í vetur. Ég vona að það geti gerst í sæmilegu samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu. Málið er þeirrar stærðar í íslenskum þjóðmálum að það á að vera hafið upp yfir flokkadrætti að skoða það. Í þessum efnum ríkir slíkt ófremdarástand og svo hættuleg staða að öllum þingmönnum ber skylda til þess að nálgast það með því hugarfari. Við höfum ekki í annan tíma staðið frammi fyrir neinu sambærilegu nema í einstökum og einangruðum tilvikum.

Það hefur aldrei áður blasað við að byggðahrun, jafnvel í heilum landshlutum, gæti orðið á tiltölulega skömmum tíma en það gerir það núna því miður. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. Einfaldur framreikningur á þeim tölum sem við okkur blasa frá sl. 10--15 árum segir okkur ekki annað en að jafnlangur tími til viðbótar leiði til þess að heil byggðarlög og jafnvel landshlutar hljóti að hrynja saman.

Að allra síðustu, herra forseti. Hvort sem er litið til þenslunnar hér og þeirra vaxtarverkja sem það ástand hefur skapað í efnahagslífinu og menn hafa áhyggjur af eða þjóðhagslegs samhengis almennt, þá er örugglega fátt jafngóð fjárfesting og að ráðast í markvissar aðgerðir til að snúa þróuninni við, koma á nýjan leik á jafnvægi, stöðugleika í byggðaþróun. Stöðugleiki í byggðaþróun er ekki síður mikilvægur fyrir samfélagið en stöðugleiki í efnahagsmálum.