Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:09:13 (705)

1999-10-19 18:09:13# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:09]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir upplýsingar hæstv. forsrh. um að við munum fá að sjá hugmyndir um þessa breytingu strax eftir kjördæmavikuna. Það má ekki seinna vera. Ég geri ráð fyrir að í iðnrn. þurfi menn að taka til hendinni ef þeir eiga að geta skipulagt og komið til skila því sem þeir telja að gera þurfi svo hægt verði að áætla til þeirra fjármuni fyrir verkefni þeirra á næsta ári. Ég held að menn hafi verið heldur seinir til að koma þessum málum af stað. Ég vona sannarlega að það komi ekki að sök.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að auðvitað skiptir fjölbreytileiki atvinnulífsins á landsbyggðinni öllu máli. Það er enginn vafi á því að til frambúðar mun mönnum ekki takast að halda uppi byggð á Íslandi, miðað við þær kröfur sem fólk gerir um atvinnu og allar aðstæður, öðruvísi en boðið verði upp á fjölbreytt atvinnulíf, menntun og allt það sem menn tala hér um. Ég held að í sjálfu sér greini menn ekki á um þarfirnar. Menn greinir kannski meira á um hvort rétt sé staðið að hlutunum og hvort aflið sem menn telja að þurfi til þess að bjarga byggðunum frá hruni dugi til að framkvæma hugmyndirnar.