Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:31:19 (714)

1999-10-19 18:31:19# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:31]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu rangt að ég hafi haldið því fram að víkja ætti öllum prinsippum í umhverfismálum til hliðar vegna byggðamála. Auðvitað vinnum við í framtíðinni að áætlanagerð á þeim nótum. Sett hefur verið af stað vinna til þess að fara yfir þau mál, ég hef nú ekki tíma til að rekja það í stuttu andsvari. Hins vegar finnst mér það ekki skipta miklu máli við þessa umræðu.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur lýst því yfir að hann telji að það eigi ekki að byggja upp frekari stóriðju hér á landi. Þá er alveg óþarfi að tala um umhverfismat við Fljótsdalsvirkjun og miklu hreinlegra að ræða málið á þeim nótum að það eigi að stoppa alla þessa uppbyggingu. Við vitum að það verður ekkert farið í þessa virkjun nema henni fylgi stóriðja. Þá er óþarft að taka þessa glímu um umhverfismat. Ég vona að hv. 3. þm. Norðurl. e. ræði þetta á þessum nótum í framtíðinni því að það einfaldar málið. Hv. þm. er á móti stóriðju (SJS: Nei.) og telur að við eigum að láta hér staðar numið. Þá þarf ekkert ... (SJS: Mengandi, erlenda stóriðju, sagði ég. Álbræðslur og annað því um líkt.) Mengandi, erlenda stóriðju? (SJS: Ætlið þið ekki að búa til vetnismaskínur?)

(Forseti (GuðjG): Ekki samtal.)

Við ætlum okkur að nýta orku í framtíðinni en við teljum að takmarka þurfi þá nýtingu og erum að láta fara yfir þá vinnu.