Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:48:22 (719)

1999-10-19 18:48:22# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:48]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil enn árétta að við erum ekki í umræðu um einstök mál þó að auðvitað megi tala um öll þessi mál í samhengi og öll atvinnumál. Ég fagna því að hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., tekur vel undir flesta liði þáltill. Við erum öll af vilja gerð til að sem flestir liðir ályktunarinnar geti komist til framkvæmda eins fljótt og hægt er og munum leggja því lið þegar þar að kemur.

Ég boða það hér að endingu að við munum flytja mál sem byggja á þeirri grunnhugsun sem er í þessu plaggi, þessari þáltill. á öllum póstum sem getur orðið til þess að tryggja stöðu landsbyggðarinnar og auka mönnum þor og trú á svæðin. Við munum láta þess sjást stað í tillöguflutningi okkar í vetur og væntum þess að hafa gott samstarf um framgang mála.