Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:49:36 (720)

1999-10-19 18:49:36# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:49]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum fyrir að hafa mannað sig upp í að flytja þáltill. um aðgerðir í byggðamálum. Það er full þörf á því að menn reifi hugmyndir sínar og komi þeim á dagskrá þingsins og ég met það við hv. þingmenn að þeir skuli gera það í stað þess að standa hér í krampakenndum utandagskrárumræðum sem hafa ekkert annað hlutverk en að auglýsa málshefjendur.

Margt í þessum tillögum er þess eðlis að vel er hægt að taka undir það og það er líka margt í þeim sem verið er að hrinda í framkvæmd eða er á athugunarstigi og stjórnarflokkarnir munu væntanlega þegar fram líða stundir koma að mörgum efnisþáttum sem tillagan víkur að.

Þó hlýtur það að vera svo, herra forseti, að það sem mestu máli skiptir til að ná viðspyrnu í byggðamálum eru atvinnumálin. Ef menn ná ekki árangri í atvinnumálum mun annað ekki skila árangri. Þá mun annað ekki duga til þess að það eitt og sér skili framþróun á landsbyggðinni. Þess vegna er atvinnumálastefnan þungamiðja byggðastefnu.

Ég tek eftir því að helsti veikleiki tillögunnar er hvað atvinnumálaþátturinn er fátæklegur. Þar eru mjög óljósar yfirlýsingar um stefnu í sjávarútvegsmálum svo ekki sé fastar að orði kveðið. Og svo virðist vera, hafi ég skilið hv. þm. rétt, að flutningsmenn séu algjörlega andvígir því að sköpuð verði atvinna á landsbyggðinni með því að byggja upp orkufrekan iðnað. Tillögumenn hafa ekki sýnt fram á neitt annað sem líklegt er til þess að skapa viðspyrnu í atvinnumálum og ég hlýt að inna eftir því.