Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 19:11:23 (727)

1999-10-19 19:11:23# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[19:11]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í rauninni litlu við það bæta sem ég sagði áðan öðru en því að vissulega munum við í fjárln. og í þingflokkum stjórnarflokkanna skoða allar þær tillögur sem fyrir liggja frá nefndinni sem forsrh. skipaði og þáltill. um byggðamál. Hins vegar væri algjörlega út í hött að ég færi að segja fyrir fram í ræðustól við upphaf vinnu fjárln. hver niðurstaða nefndarinnar mundi verða um þessi mál. Svoleiðis vinnum við bara ekki því að við eigum eftir að ræða málið í nefndinni. Ég veit að vilji nefndarmanna stendur til að leggja mikla vinnu í að skoða byggðatillöguna og taka á þessum málum sem hv. ræðumaður hefur hér nefnt. En það er algjörlega út í hött að fara að lýsa því yfir í ræðustól hver niðurstaðan verður þegar þetta starf er að byrja. Það veit ég að hv. 3. þm. Norðurl. v. skilur.

Ég er ekkert að efast um að nefnd forsrh., sem var þverpólitísk, það er alveg rétt, hafi unnið sitt verk af heilindum og hún var skipuð af heilindum. Hún var ekki skipuð til þess að veifa einhverjum gulrótum framan í fólk. Ég tek niðurstöður hennar alvarlega og það mun verða farið yfir það eins og ég sagði af þingflokkum stjórnarflokkanna hvernig verður tekið á þeim málum.