Stofnun Snæfellsþjóðgarðs

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 19:22:59 (730)

1999-10-19 19:22:59# 125. lþ. 12.10 fundur 11. mál: #A stofnun Snæfellsþjóðgarðs# þál., Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[19:22]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur um þáltill. og þá sérstaklega fyrir undirtektir hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Eins vil ég þakka að hæstv. umhvrh. skuli vera viðstaddur umræðuna þar sem hann var fjarverandi í fyrri hluta umræðunnar.

Ríkisstjórnin talar um að leita sátta um hagnýtingu orkulinda og verndun hálendisins að undanskildu stóru ósnortnu svæði norðaustan Vatnajökuls þar sem náttúrufar er einstakt og mest af óbeislaðri vatnsorku. Hvernig er hægt að leita sátta um hagnýtingu orkulinda og verndun hálendisins og undanskilja þetta svæði? Það á hvorki að setja virkjanaframkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum né fallvötnin inn í rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu orkulinda undir nafninu Maður -- nýting -- náttúra. Orkan er þarna og okkur ber að nýta hana til frekari hagvaxtar í íslensku efnahagskerfi. Orkan er svo mikil að ekkert annað en orkufrekur iðnaður kemur til greina til að fullnýta orkuna. Stóriðjustefnunni verður því að halda áfram.

Þetta eru rök þeirra sem vilja nýta svæðið fyrir uppistöðulón og vatnsmiðlun þegar á næsta ári. Það er það svæði sem gerð er tillaga um að verði þjóðgarður, Snæfellsþjóðgarður.

Mun auðveldara er að reikna tekjur af stóriðju og rafmagnssölu en af nýtingu þjóðgarða og verndaðra svæða. Þó er hægt að líta til annarra landa sem eiga sérstæð verndarsvæði sem nýtt eru til kynningar og ferðaþjónustu. Snæfellsþjóðgarði hefur verið líkt við Yellowstone þjóðgarðinn í Bandaríkjunum í verndargildi og möguleika Íslands til að fá hingað til lands fleiri erlenda ferðamenn í framtíðinni.

Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem hefur verið að styrkjast undanfarin ár og skilar nú umtalsverðum tekjum í þjóðarbúið. Hvað er það sem er svo sérstakt við Ísland að fólk frá fjarlægum heimshlutum vill leggja á sig ferð norður í Atlantshaf? Það er menning okkar Íslendinga og sérkenni eldfjallalandsins með auðnum, jöklum og gróðurvinjum. Síðast en ekki síst er það ósnortin náttúra og fámenni sem laðar hingað fólk.

Í Evrópu er varla að finna blett sem er ósnortinn og án manngerðra hluta svo sem háspennulína, uppbyggðra vega eða einhverra bygginga. Í fjarlægari löndum er mannmergðin víða svo mikil að hvergi finnst friður. Því er svæðið norðan Vatnajökuls dýrmætt víðerni, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur alla heimsbyggðina.

Við höfum á því svæði sem þáltill. leggur til að verði Snæfellsþjóðgarður mjög fjölbreytt landslag, sem með Vatnajökulsþjóðgarði mundi mynda landmótunarheild með jöklum, tengslum við gosbeltin og mjög fjölbreyttu landslagi. Hluti svæðisins er votlendi og samkvæmt Ramsar-sáttmálanum um verndun votlendis, sem Íslendingar hafa undirritað, og skilgreiningu alþjóðlega fuglaverndarráðsins eru svæðin talin hafa alþjóðlegt verndargildi ef eitt prósent eða meira af einhverjum stofni vatnafugla nýtir þau í lengri eða skemmri tíma. Eyjabakkar hafa því ótvírætt verndargildi á heimsmælikvarða.

Með leyfi forseta, les ég hluta af lýsingu á svæðinu sem Helgi Hallgrímsson og Skarphéðinn Þórisson tóku saman. Og þá um Eyjabakkana:

Eyjabakkar eru flæðislétta í grunnu og víðu dalverpi austan Snæfells, sem Jökulsá í Fljótsdal kvíslast um, milli gróinna eyja og hólma, með óteljandi pollum og tjörnum. Þessi mósaík gróðurvana aura, iðgrænna hólma, grárra og blárra árkvísla, og alla vega litra tjarna, í grennd við hvítan jökul og litskrúðugar hlíðar Snæfells, er listaverk náttúrunnar sem varla á sinn líka.

Eyjabakkasvæðið er almennt talið önnur merkasta hálendisvin á Íslandi, og gengur næst Þjórsárverum við Hofsjökul, sem því er oft jafnað við. Eyjabakkar liggja að jafnaði um 70 m hærra yfir sjó. Þó eru þar ekki teljandi freðmýrar, eins og í Þjórsárverum, enda er loftslag meginlandskenndara á Eyjabökkum og hagstæðara lífi. Ríkulegur gróður og dýralíf þrífst á báðum svæðum, og bæði eru mjög mikilvæg fyrir viðhald íslensk-grænlenska heiðagæsastofnsins. Nálægð Eyjabakka við risafjallið Snæfell (1.833 m), og hin firnalegu hvel Vatnajökuls, gefur svæðinu sérstakt gildi, og á sinn þátt í fjölbreytni þess og grósku.

Af þeim 43 ferkílómetrum sem færu undir miðlunarlón Fljótsdalsvirkjunar eru 37 ferkílómetrar gróið land eða um 86%.

Um þriðjungur hins gróna lands sem færi undir lónið er votlendi. Af því eru Eyjar og Eyjafellsflói vistfræðilega mikilvægust. Þar er um að ræða flóaland, með ríkulegum staragróðri, sem er alsett grunnum smávötnum og tjörnum, með margvíslegum vatnagróðri og dýralífi, umkringt kvíslum og lænum af jökulvatni og bergvatni. Hvergi á Íslandi er samsvarandi votlendi að finna í þessari hæð yfir sjó (um 650 m), eða svo nálægt jökli. Háplöntuflóra er fjölbreyttari á Eyjabakkasvæðinu en á nærliggjandi öræfasvæðum.

Fuglalíf er mikið á Eyjabakkasvæðinu á vissum árstímum. Af fuglum ber mest á heiðagæs og álft og verpir töluvert af þeirri síðarnefndu á svæðinu. Álftaveiði á Eyjabökkum var fyrrum talin til hlunninda. Á svæðinu er lítið heiðagæsavarp, en aftur á móti er það mjög þýðingarmikið fyrir heiðagæsir í fjaðrafelli, er safnast þar saman í júlí svo þúsundum skiptir. Á tímabilinu 1987--97 hefur gæsafjöldinn verið að meðaltali 8.400 fuglar. Árið 1991 töldust þær rúmlega 13 þúsund, sem er um helmingur allra geldra heiðagæsa á landinu, og um 10--15% af öllum geldfuglum í íslensk-grænlenska heiðagæsastofninum eða um 7% af þessum stofni, og um leið er það stærsti hópur þeirra sem vitað er um í heiminum.

Hreindýr hafa nýtt sér Eyjabakkasvæðið til beitar, einkum seinni part sumars, og virðast nú sækja þangað um miðsumar í auknum mæli. Samkvæmt júlítalningum áranna 1992--97 voru að meðaltali 38% allra hreindýra á Snæfellsöræfum austan Snæfells, en aðeins um 9% á árunum 1979--91.

Beitargildi þess gróðurlendis sem færi undir vatn hefur Rannsóknastofnun landbúnaðarins áætlað að svari til 1.280 ærgilda, miðað við 2,5 mánaða beit.

[19:30]

Eyjabakkajökull hefur nokkrum sinnum hlaupið fram á síðustu 110 árum, og vanalega ýtt upp mikilfenglegum jökulgörðum (endamórenum) í þeim hlaupum. Í hlaupinu 1890 gekk jökullinn lengst fram, og skóflaði þá upp votlendisjarðvegi í allt að 20 m háa hryggi, sem kallaðir eru Hraukar, en þá er aðallega að finna á bogalínu austur frá Eyjafelli. Framan við þessa hrauka hefur jarðvegurinn á nokkrum stöðum lagst í fellingar, sem líkjast vatnsöldum og ná allt að hálfum km fram á sléttuna en styttast smám saman og fara lækkandi. Þessar einkennilegu jökulöldur eiga ekki sinn líka hér á landi, og líklega ekki heldur í öðrum löndum. Þær mundu hverfa í Eyjabakkalónið.

Ég vildi lesa upp þessa lýsingu þar sem áður var vitnað til greinargerðar þegar tillagan var flutt. En þetta svæði ásamt öðrum svæðum við Vatnajökul gæti orðið vettvangur vísindarannsókna á mörgum sviðum og dregið með því sérstöðu svæðanna enn frekar fram. Með Snæfellsþjóðgarði er myndað stórt heildstætt landsvæði sem teygði sig norður Ódáðahraun og norður fyrir Mývatn. Verndarsvæðið gæti verið með sveigjanlegri friðlýsingu eins og fram kom fyrr í ræðu minni og er þá gert ráð fyrir að stofnun þjóðgarðsins þurfi ekki að rekast á við hefðbundnar nytjar bænda af svæðinu.

Nú liggur fyrir svæðisskipulag af þessu svæði og þar eru gerðir fyrirvarar á fyrirhugaðri landnýtingu undir uppistöðulón og deiliskipulag er óunnið. Hér er þáltill. sem krefst þess að litið sé til framtíðar með langtímahagsmuni í huga, bæði hvað varðar mat á náttúruverndargildi og hvað varðar þjóðartekjur. Verndun víðerna norðan Vatnajökuls og Snæfellsþjóðgarður skilar ekki skjótfengnum arði inn í Austurlandsfjórðung en gæti gefið jafnmiklar tekjur þegar frá líða stundir. Ég vil hvetja hæstv. umhvrh. til að taka þessa þáltill. til alvarlegrar skoðunar og gera allt sem í hans valdi stendur til að standa vörð um íslenska náttúru. Við sem lifum í dag eigum ekki rétt á allri kökunni. Við eigum að skila afgangi til barna okkar. Náttúruvernd og eðlilegur hagvöxtur geta farið saman.

Herra forseti. Ég vil vísa tillögunni til síðari umr. og hv. umhvn.