Könnun á starfsskilyrðum stjórnvalda

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:33:27 (734)

1999-10-20 13:33:27# 125. lþ. 13.1 fundur 44. mál: #A könnun á starfsskilyrðum stjórnvalda# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:33]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, hefur beint til mín svohljóðandi fyrirspurn á þskj. 44.

,,1. Hverjar eru helstu niðurstöður nefndar sem skipa átti samkvæmt þingsályktun Alþingis frá 2. júní 1998 til að kanna starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu?

2. Hvenær verður skýrsla nefndarinnar lögð fyrir Alþingi, en samkvæmt framangreindri þingsályktun átti að leggja hana fyrir Alþingi fyrir frestun funda á vorþingi 1999?

3. Hvernig hyggst ráðherra framfylgja niðurstöðum nefndarinnar?``

Nefnd sú sem hér er til umræðu var í samræmi við ályktun Alþingis skipuð þann 19. ágúst 1998 þeim Páli Hreinssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt var skipaður formaður, Ragnari Arnalds, þáv. alþm. og Þórunni Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanni.

Samkvæmt ályktun Alþingis fólst viðfangsefni nefndarinnar í að kanna gildandi réttarástand á tilteknum sviðum stjórnsýslunnar og semja um það skýrslu. Verkefni nefndarinnar var því nokkuð óvenjulegt og ólíkt öðrum úttektum sem þingið óskar stundum eftir og reyndist nefndinni drýgra en svo að henni tækist að gera því viðunandi skil fyrir frestun þingfunda á liðnu vorþingi. Með mínu leyfi var því orðið við beiðni nefndarinnar um að hún fengi að miða störf sín við að skýrsla hennar yrði lögð fyrir yfirstandandi haustþing.

Í tilefni af fram kominni fyrirspurn hef ég kannað hvað störfum nefndarinnar líði og hef fengið upplýst að gerð skýrslu hennar sé nú á lokastigum og telji á annað hundrað síður. Engin ástæða er því til að ætla annað en takast megi að leggja skýrslu nefndarinnar fyrir þingið á næstunni. Meðan skýrslan hefur ekki verið afhent mér get ég hins vegar ekki svarað til um hverjar helstu niðurstöður hennar muni verða og þá auðvitað enn síður hvernig við slíkum niðurstöðum yrði brugðist.