Breyting á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:37:21 (736)

1999-10-20 13:37:21# 125. lþ. 13.2 fundur 54. mál: #A breyting á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:37]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín lýtur að reglugerð frá Stjórnarráði Íslands varðandi ráðuneyti og verksvið ráðuneyta. Hún er svohljóðandi:

,,Hvaða ástæður liggja til þess að mál er varða alþjóðasamskipti og samvinnu á sviði umhverfismála hafa verið tekin frá umhverfisráðuneytinu og færð til utanríkisráðuneytis með 2. gr. auglýsingar nr. 73 28. maí 1999?``

Auglýsingin sem hér er vitnað til varðar eins og kunnugt er verksvið utanrrn. en 8. tölul. reglugerðarinnar fjallar um ráðuneyti og verksvið þeirra og er svohljóðandi, þ.e. 8. tölul. í þeirri verkefnaupptalningu sem heyrði undir umhvrn:

,,Alþjóðasamskipti og samvinna á sviði umhverfismála.``

Virðulegi forseti. Mig fýsir að heyra skýringar á því að þessi auglýsing er birt og sá stóri þáttur að mínu mati á verksviði umhvrn. er færður til á þennan hátt. Ég hefði talið það eðlilegt að umsýsla með alþjóðasamninga á sviði umhverfismála heyrði undir hæstv. umhvrh. og umhvrn., en óska eftir því að hæstv. forsrh. skýri fyrir okkur tilurð og ástæðu þessarar auglýsingar og breytingar.